Saga - 1983, Blaðsíða 358
356
AÐALFUNDUR SÖGUFÉLAGS
Páls Vídalíns, sem hófst haustið 1980; eru þegar komin út fjögur bindi og
hið fimmta senn væntanlegt. Voru félagsmenn Sögufélags hvattir til að
láta Jarðabókina ekki fram hjá sér fara, svo mikilvægt sagnfræðilegt
heimildarit, sem hér væri á ferðinni. Verðlagi hefði verið stillt í hóf, en
upplag ekki ótakmarkað.
Um þau útgáfurit, sem á umræðustigi væru, kvað forseti fátt eitt að
segja enn sem komið væri. Fastir liðir munu sem fyrr vera á verkefnalist-
anum: Saga, Alþingisbækur, Landsyfirréttardómar. Skjöl Landsnefndar
1770—71, 3.-4. bindi, eru á þessum lista, en miðar hægt áfram, m.a.
vegna skorts á starfskröftum til að vinna að handritaútgáfu. Sýslu- og
sóknalýsingar frá 1839—43 eru til umræðu, svo og framhald íslenzkra
ættstuðla eftir Einar Bjarnason. Þá er vonazt til, að áframhaldandi sam-
vinna geti orðið við Reykjavíkurborg um útgáfu ritraðarinnar „Safn til
sögu Reykjavíkur“, en ekki tímabært að nefna hvað þar gæti helzt komið
til greina. Minnzt var áður á útgáfu nýrrar ritraðar, sem hugmyndir hafa
komið um að hefja á næstunni, ef vel tekst til. Eru það óútgefin eða þýdd
rit um ísland og íslendinga á 17.-18. öld. Þar gæti ritið Islandia eftir
Daniel Vetter orðið upphafið, en lauslegar hugmyndir um önnur rit hafa
fram komið, t.d. Brevis commentarius eftir Arngrim lærða, íslandslýsing
Resens, auk slíkra lýsinga eftir ýmsa íslendinga á 17. öld, bréfaskipti við
Ole Worm og sitthvað fleira, sem til greina kæmi. Allt er þetta í athugun,
og veltur þar mikið á, að hæfir þýðendur fáist til starfa. Mun Helgi Þor-
láksson, ritari Sögufélags, væntanlega ritstýra þessu, ef af verður. Sitt-
hvað fleira hefur verið til umræðu, þótt ekki verði tíundað að sinni.
Forseti Sögufélags, Einar Laxness, lauk skýrslu sinni með eftirfarandi
orðum:
„Starf Sögufélags hefur gengið eftir vonum á liðnum árum. Haldið
hefur verið í horfinu, en jafnframt freistað þess eftir efnum og ástæðum
að bæta um. Starfsemin hefur átt góðan hljómgrunn, eins og sjá má af
vaxandi félagatölu að undanförnu. Félagsmenn eru nú orðnir um 1500,
þ.e. þeir, sem eru fastir kaupendur að tímaritinu Sögu, en við skulum
setja markið enn hærra, — með því breikkar grundvöllurinn og skapast
aukin tækifæri til útgáfu fleiri rita um sagnfræði, „heimildarita, fræði-
rita, yfirlits- og kennslubóka“, eins og segir um hlutverk félagsins í lögum
þess, sem samþykkt voru á aðalfundi 1979. En til þess, að fjárhagslegt
bolmagn sé verulegt til aukinnar útgáfu, er afar æskilegt að álitlegur
hópur félagsmanna kaupi sem flestar hinar árlegu útgáfubóka, en því
miður hefur sala þeirra á stundum ekki orðið sem skyldi. Þetta sníður
okkur þrengri stakk, en við hefðum kosið. Allur útgáfukostnaður er
orðinn óhemjumikill, eins og alkunnugt er.
Auðvitað er engin ástæða til að kvarta, það sýnir allblómlegur hagur
félagsins, en sagt er, að enginn sé búmaður, sem ekki kann að berja sér.