Saga - 1985, Blaðsíða 13
GREIÐSLA VERKKAUPS í PENINGUM
11
málið erfitt úrlausnar og umfangsmikið, svo að sér væri eigi
fullljóst, hvað til bragðs skyldi taka. „Eldur og ís er ekki nú sem
stendur mesta landplágan hér á landi, heldur er það skuldaverslun-
in.“4
í umræðunni um tillögu Þorláks Guðmundssonar var einkum
rætt um hlutverk nefndarinnar, og komu þar fram ýmsar ábend-
ingar til umbóta á verslunarfyrirkomulaginu. Skúli Thoroddsen,
1. þingmaður ísfirðinga, kvað meðal annars vert, að nefndin tæki
til athugunar fjötra þá, sem hvíldu á verkalýðnum í kaupstöðum
og kauptúnum, en þar væri algengast, að fólk þetta yrði eingöngu
að taka borgun fyrir vinnu sína í vörum út úr verslun. í Englandi
væru það lög, að verkamenn ættu heimtingu á að fá vinnu sína
borgaða í peningum, annaðhvort daglega eða í lok hverrar viku.
Þetta væri allmikilvægt atriði og yrði enn frekar, ef vistarbandið
yrði leyst og fleiri færu að leita sér atvinnu með daglaunavinnu,
einkum í kaupstöðum og kauptúnum.5 Að umræðu lokinni var
samþykkt að kjósa fimm manna nefnd í málið, kölluð verslunar-
málanefnd, og var Skúli Thoroddsen meðal nefndarmanna.
Verslunarmálanefndin bar síðar fram frumvarp til laga um
greiðslu daglauna og verkkaups við verslanir,6 og var það á þessa
leið:
1. gr. Mönnum þeim, er vinna daglaunavinnu við versl-
anir, skal goldið verkkaup í gjaldgengum peningum; en
óheimil er borgun með skuldajöfnuði eða öðru, og eru allir
samningar ógildir, sem þessu eru gagnstæðir.
2. gr. Vinni verkamaður viku eða lengur við sömu versl-
un, er eindagi verkkaupsins á föstudegi hverjum, þegar
verki er lokið.
Nú vinnur verkamaður skemur, og skal þá verkkaup
goldið, þegar verki er lokið.
3. gr. Daglaunamaður við verslanir er hver sá, karl eða
kona, sem ekki er ráðinn sem hjú hjá vinnuveitanda, enda
sé hann ekki ráðinn sem verslunarþjónn.
4. gr. Nú vinnur maður ákveðið verk við verslun fyrir
4. Alþingistíðindi 1893 B, 82-83.
5. Alþingistíðindi 1893 B, 94-95.
6. Alþingistíðindi 1893 C, 235-236 (þingskjal 135). (Umræður B, 895-925)