Saga - 1985, Blaðsíða 56
54
JÓN GUÐNASON
FRÁ UMKOMULEYSI TIL SJÁLFSTÆÐIS
Fyrsta frumvarpið um verkkaup daglaunamanna var flutt á
alþingi 1893. Meginatriði þess voru tvö, í fyrsta lagi skyldi verk-
kaup greitt skilyrðislaust í peningum og í öðru lagi voru kaup-
gjaldseindagar tilteknir. Hugmyndin með þessu var að lcvsa dag-
launamenn úr viðjum láns- og skuldaverslunar og gera þá óháða
atvinnurekendum. Framgangur þessa máls var þá kominn undir
mannúðarstefnu þingmanna, því að verkalýðinn brast afl til þess
að knýja það fram. Árið 1902 voru sett lög um verkkaup, sem
náðu yfir allan verkalýð í þéttbýli, en þau höfðu verið lemstruð
svo í meðförum, að þau voru nánast viljayfirlýsing alþingis um,
að verkkaup skyldi borgað í peningum. Ein mesta hindrunin í
vegi verkalýðsins til sjálfstæðis næstu áratugi var stopul atvinna
og atvinnuleysi. Pað leiddi til tekjumissis og gerði hann mjög
háðan atvinnurekendum, sem meðal annars birtist í því, að margir
litu á vinnuna sem náðarbrauð úr hendi þeirra, en ekki sem hún
var, nauðsynlegt verðmæti til sköpunar annarra verðmæta.
Á tímabilinu 1890-1940 færðust kaupgreiðslur í peningunr
geysimikið í vöxt, og svo virðist sem þær hafi fylgt hagsveiflum,
öldugangi atvinnulífsins og peningaframboði. En þær voru ákaf-
lega misjafnar eftir byggðarlögum, enda var þróunin til nýrra
framlciðsluhátta mishröð og ójöfn eftir landsháttum. Peninga-
borgun varð snemma að reglu í kaupstöðum, auk fastra gjald-
daga, en vöruborgun tíðkaðist að miklu leyti áfram í kauptúnum
og sjóþorpum, og þar var verkalýðurinn mun háðari atvinnu-
rekendum en í kaupstöðum. Peningaborgun, hærra kaupgjald og
ákveðinn vinnutími stuðlaði svo að örum fólksflutningum til
kaupstaða, sérstaklega til Reykjavíkur.
Á þessu skeiði óx verkalýðsstéttinni stöðugt fiskur um hrygg, í
henni stórfjölgaði, hún kom sér upp samtökum, stéttarfélögum
og stjórnmálaflokkum, stéttvísi hennar jókst í harðri stéttabaráttu
og hún ávann sér ýmis réttindi og bætti að ýmsu leyti hag sinn og
vígstöðu. Eitt af baráttumálum verkalýðsfélaga í kauptúnum var
krafan um kaupgreiðslu í peningum, en sóttist seint og erfiðlega.
Þótt verkalýðnum ykist afl og hagur hans vænkaðist yfirleitt, þá
var hann þrúgaður af fátækt, sem setti svip sinn á alla tilveru hans
og stöðu í þjóðfélaginu, efnalcga, félagslega, pólitískt og andlega.