Saga - 1985, Blaðsíða 268
266
GUÐMUNDUR JÓNSSON
kreppunnar væri velt yfir á verkafólk með almennri og mikilli kauplækk-
un, heldur skáru þeir upp herör gegn þjóðskipulagi sem leiddi örbirgð og
atvinnuleysi yfir almenning. Tilvera sósíalísku stjórnmálaflokkanna var
reist á andófi gegn kapítalismanum og því var eðlilegt að lausn þeirra á
atvinnuleysinu bryti í bága við ríkjandi hagskipulag.
Þegar fjallað er um söguleg viðfangsefni í viðtengingarhætti — í þessu
tilviki hvernig verkalýðshreyfingin hefði átt að bregðast við kreppunni —
hljóta svörin einatt að byggjast á gildisdómum. Við því er ekkert að segja
ef menn gera sér og lesendum sínum grein fyrir gildismati sínu. Valdimar
Unnar hefur gert skoðun sína heyrinkunna, þótt hann að vísu orði hana
varfærnislega. Af röksemdafærslu hans leiðir að verkafólk hafi, að
minnsta kosti að hluta til, átt sök á atvinnuleysinu vegna þess að það neit-
aði að fallast á kauplækkun. Meinið virðist liggja í óbilgjörnum verka-
lýðsfélögum. Hér er genginn aftur sá rétttrúnaður sem áberandi var meðal
stjórnvalda, atvinnurekenda og flestra borgaralegra hagfræðinga á fyrstu
árum kreppunnar. Reyndar höfðu hinir vísu hagfræðingar ekki gert ráð
fyrir fjöldaatvinnuleysi í kenningum sínum, vegna þess að í frjálsri sam-
keppni aðlagast laun framboði og eftirspurn á vinnumarkaði. Væru menn
án vinnu, hlyti það að stafa af því að laun væru ekki í samræmi við
markaðslögmálin. En nú var hrikalegasta atvinnuleysi sem sögur fara af
orðið staðreynd og lá þá beinast við að rekja orsakir þess til of hárra launa.
Vísasti vegurinn til bata í efnahagslífi hlaut því að vera sá að draga úr
kostnaði (fyrst og fremst launum), því þá ykist arðsemi fyrirtækja,
útflutningsframleiðsla yrði samkeppnishæfari og brautin þar með rudd
fyrir nýja uppsveiflu í atvinnulífi.
En stóð valið aðeins milli þess að skerða laun eða auka atvinnuleysi, „að
hagkerfinu óbreyttu", eins og Valdimar Unnar gefur í skyn? Nei, svo var
ekki; á þessum árum sættu bæði kenningar nýklassískrar hagfræði og
hefðbundin efnahagsstefna vaxandi gagnrýni borgaralegra stjórnmála-
manna og hagfræðinga, þeirra á meðalJohtts Maynards Keynes. Hann færði
rök fyrir því að kauplækkun leiddi aðeins til aukinnar atvinnu ef heildar-
eftirspurn í hagkerfinu héldist óbreytt, en sú var ekki raunin. Almennri
kauplækkun fylgdi lækkandi verðlag, vegna þess að þverrandi kaup-
máttur drægi úr eftirspurn, svo að hvorki arðsemi fyrirtækja né atvinna
ykist þegar upp væri staðið. Lausn Keynes á vanda kreppunnar var í stuttu
máli fólgin í því að auka heildareftirspurnina með þensluaðgerðum stjórn-
valda í peninga- og ríkisfjármálum. Rétt er að taka það fram að þessi
aðferð miðaði einkum við innanlandsmarkað, en hentaði síður í þeim
löndum sem byggðu afkomu sína að miklu leyti á útflutningsverslun eins
og til dæmis á íslandi, þar sem verðfall og minnkandi eftirspurn komu
utanlands frá. Við slíkum vanda yrði að bregðast með sérstökum hag-
stjórnartækjum hins opinbera.