Saga - 1985, Blaðsíða 262
260
GUÐRÚN ÁSA • HELGI • SVERRIR
gagnrýni höfundar á Þingvallanefnd, þá nefnd sem átti að gæta þess að
Þingvellir væru friðaðir, en leyfði þar þó sumarbústaðabyggð; munu um
áttatíu bústaðir vera innan þjóðgarðsins sem lýta hann og skerða og ættu
að hverfa sem fyrst.
Bókinni er eiginlega skipt í þrennt: sögu þingstaðarins, lýsingu gjánna
og að lokum er sagt frá Þingvallastað, bæjunum sem voru í grennd við
hann og lýst sigdalnum milli Almannagjár og Hrafnagjár. Á bls. 74 hefst
lýsing á Öxarárfossi og gjánum og þaðan í frá er margt yndi að finna allt
til bókarloka. Lýst er margbreytileika gjánna, staðnum Þingvöllum,
vatninu bjarta, leiðunum í Bláskógum, eyðibýlum, hellum og ekki of
fjarlægum stöðum eins og Kræklum, Grettishafi og Meyjarsæti. Lang-
troðnar slóðir lágu milli bæja sem í auðn eru nú og gott er okkur þjóð-
garðsgestum að ganga og hlaupa þessar götur eftir leiðarvísan höfundar,
líkjandi okkur við krakka í hjásetu ellegar veiðimenn eða þingmenn.
Þannig verða Þingvellir í þessari bók afskekkt sveit þar sem menn gæta
búsmala í vandfundnum hellum, veiða þess á milli fiska í björtu vatni, slá
engi og tún eða rífa kjarrið í Bláskógum sér til yls undir langan og kaldan
vetur. Og það er þetta sem bókin Þingvellir segir frá umfram aðrar bækur
um þennan stað sem lýsa honum að mestu sem helgum sögustað frjálsrar
þjóðar. Bók Björns Th. Björnssonar segir frá eyðibýlum og gömlum
troðningum á hrauninu, nefnir góða veiðistaði, skjólsæla hvamma og
hella og segir dálítið frá gróðri í fallegri gjá. Þetta gerir bókina sérstakan
og skemmtilegan förunaut. Þó vantar mjög á eins og að framan er sagt að
höfundur skýri hví Þingvellir eru mikill sögustaður og þar sem segir frá
þingstaðnum, Lögbergi, lögréttu, búðunum og aftökustöðum gætir þess
of víða að lýst er Þingvöllum sem tæpast eru til annars staðar en í hugar-
heimi höfundar. Eins og bent var á hér að framan, vantar á að höfundur
geri grein fyrir hugmyndum og skáldskap fyrri tíðar manna um Þingvelli.
En lesendum sínum bætir hann upp staðleysur og vöntun með frásagnar-
gleði sem einkennir þessa bók. Þó að stíllinn sé ekki laus við undarlegt
málskrúð, finnur lesandi að höfundi er nautn að skrifa, gleði að segja frá.
Því er lestur bókarinnar léttur leikur. Höfundi tekst vel að lýsa landslagi
líkt og á mynd sjái, margar þeirra sitja kyrrar í huga lesenda og það er
gaman að finna þær aftur þar sem þær eiga heima — á Þingvöllum.