SunnudagsMogginn - 29.11.2009, Side 19
29. nóvember 2009 19
aðra skýringu hægt að finna. Menntunin og þekkingin
eru til staðar en aðrir þættir hafa valdið því að þessi kyn-
slóð ungra Íslendinga beitti ekki þekkingu sinni, mennt-
un og starfsreynslu heldur flaut með straumnum í stað
þess að berjast á móti honum.“
– En hvað um skort á siðferði?
„Hvað áttu við? Er ekki peningagræðgi spurning um
siðferði? Ég held að meginástæðan sé að hér hafi gripið
um sig ákveðin peningagræðgi og að þjóðin öll hafi verið
meira og minna meðvirk í því, þar á meðal þetta unga
fólk sem bar ábyrgð á stjórn fyrirtækja og rekstri.“
– Er það að segja að þjóðin sé öll meðsek eða meðvirk,
hrunið sé ekki fáum að kenna heldur öllum, ekki leið til
að skauta fram hjá hlutunum?
„Ég er ekki sammála þér um það. Ég reyni að leita
skýringa á því í bókinni hvað í okkar samfélagsgerð gerði
það að verkum að þetta gat gerst og fjallaði þess vegna
um ríkisstjórnina, Alþingi, eftirlitsstofnanir, Bessastaði
og ekki síst það sem snýr að okkur sjálfum, mér og þér,
hlut fjölmiðlanna. Ég held því fram að yrði farið í að
rannsaka mjög nákvæmlega hlut fjölmiðlanna á þessari
öld yrði hann ekki góður. Kannski má frekar segja að
fjölmiðlar hafi verið meðvirkir en ekki þjóðin, að fjöl-
miðlastéttin í heild hafi ekki gegnt því hlutverki, sem
hún á að gegna.“
Styrmir segir að þess vegna fjalli hann líka um ágrein-
inginn um fjölmiðlalögin árið 2004.
„Ég held að það sé lykilþáttur í allri þessari þróun.“
– Átti fárið vegna fjölmiðlafrumvarpsins sinn þátt í því
að stjórnmálamenn hugsuðu sig um tvisvar áður en þeir
lögðu til atlögu?
„Alveg örugglega. Árni Mathiesen, þáverandi fjár-
málaráðherra, sagði í samtali við mig í desember 2008 og
það kemur fram í bókinni: Þetta voru þrjár viðskipta-
samsteypur, þær áttu þrjá banka og þær áttu fjölmiðlana.
Þá er hann að lýsa þeirri skoðun að lýðræðislega kjörin
stjórnvöld hafi ekki getað ráðið við þessi þjóðfélagsöfl og
það er auðvitað grafalvarlegt mál í lýðræðissamfélagi.“
– Þú segir í bókinni: „Skyndilega misstu þeir völdin,
sem hafa þrifist í skjóli leyndarinnar, sem hvílt hefur yfir
stóru og smáu.“ Nú er kerfið, sem þarna brást, í vörn,
hvort sem það eru embættismennirnir, stjórnmálaflokk-
arnir eða þeir, sem áttu Ísland fyrir hrunið. Er hægt að
opna þetta samfélag á meðan ástandið er með þessum
hætti?
„Ég held að það sé engin önnur leið og hef velt þessu
mikið fyrir mér. Útgangspunkturinn er náttúrlega sá,
sem Morgunblaðið hefur skrifað mikið um á síðastliðnum
tólf árum, frá árinu 1997, að ástæða væri til þess að útfæra
fulltrúalýðræðið og þróa áfram yfir í beint lýðræði. Ég tók
eftir því að það voru hvergi undirtektir við þessi skrif,
það er að segja að þjóðin sjálf ætti að taka allar meginákv-
arðanir um eigin mál í staðinn fyrir það gamla kerfi að
hún kjósi til þess tiltölulega fámennan hóp manna á fjög-
urra ára fresti, hvort sem það er á landsvísu eða í sveit-
arstjórnir.
Að koma á beinu lýðræði og galopna samfélagið
Ég held hins vegar að nú sé tími þessara hugmynda kom-
inn. Þær eru ekki búnar til á ritstjórnarskrifstofum
Morgunblaðsins. Þær koma að okkur utan úr heimi og
mótast að sumu leyti af því samfélagi sem hefur verið
byggt upp í Sviss. En mín niðurstaða eftir þetta hrun er
sú að þetta eigi að taka við og jafnframt – sem ekki var
partur af skrifum Morgunblaðsins sem ég áður vísaði til –
sé ég ekki að það sé nein önnur leið en sú að útfæra hug-
myndina um hið beina lýðræði þannig að við galopnum
allt samfélagið, að hér verði allt opið.
Enda þegar maður fer að hugsa um það: hvers vegna
skyldi ekki allt verið opið? Það eru engin svokölluð
leyndarmál í sambandi við málefni lands og þjóðar, sem
ástæða er til að svona vel menntuð og upplýst þjóð eins
og Íslendingar eru hafi ekki aðgang að.
Mér finnst vera mjög skýrt að fulltrúalýðræðið er
komið út í miklar ógöngur. Við sjáum það að nú er búið
að samþykkja tvö mál á Alþingi, sem enginn meirihluti er
raunverulega fyrir á þingi. Það er búið að samþykkja að-
ildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er enginn
meirihluti fyrir þeirri aðildarumsókn í raun og veru á Al-
þingi. Það er meirihluti gegn henni. Hvers vegna er hún
samþykkt? Vegna þess að það fara fram ákveðin pólitísk
viðskipti milli Samfylkingar og Vinstri grænna og Vinstri
grænir telja af einhverjum ástæðum að ástæða sé til að
þeir fórni andstöðu sinni við aðildarumsókn fyrir eitt-
hvað annað sem við vitum ekki hvað er.
Það er heldur enginn meirihluti á Alþingi fyrir rík-
isábyrgð vegna Icesave. Það er meirihluti gegn henni. En
það er sama málið, Vinstri grænir samþykkja að greiða
atkvæði með Icesave, þó að þeir séu á móti því, vænt-
anlega vegna einhvers annars, sem þeir fá í staðinn.
Síðan er þriðja stóra málið. Það er meirihluti fyrir því á
Alþingi að reisa álver bæði á Reykjanesi og Bakka en
Vinstri grænir standa gegn því og þvælast fyrir því og
þess vegna fara þessar framkvæmdir ekki í gang þó að
meirihluti sé fyrir því á lýðræðislega kjörnu þingi og aug-
ljós hætta á því að álverið á Bakka gangi okkur úr greip-
um.
Fulltrúalýðræðið er komið í ógöngur. Valdastéttin á Ís-
landi, sem er tvö til þrjú hundruð manns á hverjum tíma,
ræður ekki lengur við það verkefni, sem hún hefur tekið
að sér, hún hefur ekki bolmagn til að stjórna landi og
þjóð. Þess vegna segi ég að þjóðin verði að höggva á
þennan hnút. Það fer best á því að hún taki svona stórar
ákvarðanir sjálf í reglulegum þjóðaratkvæðagreiðslum og
það er mjög auðvelt að framkvæma þær núorðið með
þeirri samskiptatækni, sem nú er komin til sögunnar.
Þetta er það framtíðarsamfélag sem ég tel að við eigum að
stefna að.“
– Sagt hefur verið að það skjóti skökku við að þú skulir
nú boða opið samfélag þar sem þú hafir endurspeglað hið
gagnstæða þegar þú varst ritstjóri á Morgunblaðinu.
Hvernig bregst þú við þessari gagnrýni?
„Mér finnst hún ósköp skiljanleg,“ segir Styrmir og
hlær. „Ég tek það fram í formála að þessari bók að ég hafi
í áratugi starfað fyrst í jaðrinum á valdakerfi þjóðarinnar
og svo kannski hafi ég á tímabili verið partur af innsta
valdakerfi hennar. Mér dettur ekki í hug að mótmæla
því. En ég sest hins vegar niður þegar ég fylgist með
þessum atburðum haustið 2008 og velti fyrir mér hvern-
ig við eigum að ráða bót á þessu. Hvernig við eigum að
Morgunblaðið/RAX
Fulltrúalýðræðið er
komið í ógöngur. Valda-
stéttin á Íslandi, sem er
tvö til þrjú hundruð manns á
hverjum tíma, ræður ekki
lengur við það verkefni, sem
hún hefur tekið að sér, hún
hefur ekki bolmagn til að
stjórna landi og þjóð. Þess
vegna segi ég að þjóðin verði
að höggva á þennan hnút.