SunnudagsMogginn - 25.09.2011, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 25.09.2011, Blaðsíða 29
25. september 2011 29 „Ég hef þá allavega harkað það af mér. Ég var nokkuð laus við samviskubit vegna þess að ég lenti í ofstjórnun sem barn. Móðir mín var langt á undan sinni samtíð en hafði ekki nóg við að vera félagslega séð. Hún var ein af þessum mæðrum sem helst vilja hugsa fyrir börn sín og fara eiginlega alla leið inn í heilann á þeim og vilja stjórna því hvað þau hugsa. Mér fannst það óskaplega erfitt. Margir lenda í því að uppeldisaðferð móðurinnar hentar þeim ekki en það var svo skrýtið með mig að ég skildi að móðir mín vildi mér vel, alveg eins og ég áttaði mig strax sem barn á því að hún var klaufi í höndunum. Og mér þótti vænt um hana fyrir að vilja mér svona vel. En ég var mjög fegin að komast að heiman og þess vegna hélt ég að börnunum mínum myndi líða best ef ég væri ekki að skipta mér of mikið af þeim þó þau vilji ekki játast undir það núna að þetta hafi verið sérlega góð uppeldis- aðferð.“ Auðvelt að vera maður sjálfur með SÚM Þú varst þátttakandi í SÚM-hreyfingunni og maður heyrir stundum sögur af þeim félagsskap og þá er næstum eins og þar hafi alltaf verið partístand. Er þetta rétt? „Einhvern veginn lenti ég upp í SÚM. Man ekk- ert hvernig það æxlaðist til, kannski bara af því að ég var dálítið utanveltu eftir Ameríkudvölina. Ég er enn að heyra sögur af því að í SÚM hafi menn verið að skralla sýknt og heilagt sem er algjör misskiln- ingur. Menn tóku listina alvarlega með glettnislegu ívafi að vísu en gengu ekki að verki fullir frekar en þeir keyrðu bíl fullir. Í kringum listamennina í SÚM voru hins vegar ýmsir sem voru ekki að vinna al- varlega að myndlist en höfðu óskaplega gaman af að þjóra. Það kom fyrir að það var komið heim til mín að leita að einhverjum sem höfðu tapast á fyll- iríum dögum eða vikum saman. Úr því að ég var kvenmaður og tengd SÚM var talið að ég héldi uppi einhvers konar Sódómu og hlyti að hafa falið þá. Ég sem lifði frekar borgaralegu lífi í Vesturbænum með börnunum mínum og kettinum.“ Þú hefur alltaf verið talin listamaður sem tekur sterka pólitíska afstöðu í verkum þínum. „Ég held að þetta sé mýta. Ég held að sagan sé öðruvísi en hvort ég get sagt hana er annað mál. Ég lenti svolítið á skjön þegar ég datt út úr hópnum mínum í menntaskóla og fór til Ameríku og var þar eiginkona á stúdentagarði í gjörsamlega menning- arsnauðum bæ og bjó við vissa einangrun og féll ekki vel inn í samfélagið. Ég kom heim frá Ameríku með merkilega reynslu, þrátt fyrir daglega fá- breytni, því einhvern veginn hafði ég samt lifað inni í framtíðinni sem átti eftir að koma hingað heim til Íslands. Hlutirnir gerðust ekki með sama hraða þá og nú er á tímum tölvunnar. En ég gat ekki talað við neinn um reynsluna því á þessum ár- um fóru fáir Íslendingar til Ameríku. Ég endaði á því að vera enn aftur nokkuð utangátta félagslega. Ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að ég rölti upp stigann í SÚM því þar gat maður verið þó maður væri utangátta. Þar var auðvelt að vera bara maður sjálfur. Á árunum 1974-75 þegar Vilborg Harðardóttir stýrði sunnudagsblaði Þjóðviljans þá fékk hún listamenn til að gera forsíður. Ég átti að gera fyrstu myndina á kvennaárinu 1975 og það var töluverð ábyrgð. Ég gerði mynd af konu sem gýs upp með logandi hárið eldspúandi og tveir andar hvísla hvor í sitt eyra hennar. Skissan af myndinni er á sýning- unni og þegar ég sá hana fór ég að rifja upp hvað ég var eiginlega að segja með henni: Myndin táknar konu sem finnur þessa innri þörf fyrir að skapa sér sjálfstæði. Hún verður að eldspúandi dreka af því að það er alltaf verið að ráðskast með hana, hafa vit fyrir henni og setja henni reglur og hömlur. Ef ein- hver ætlar að ráðskast með hana þetta árið þá verð- ur það hún sjálf.“ Þú varst áberandi og mjög virk í rauðsokka- hreyfingunni. „Eitthvað tengdist það þessum bakgrunni að ég var sérstaklega hrifin af nýjum hugmyndum um hópefli og frjálst félagsform þar sem hvorki væri hinn hefðbundni formaður, ritari né gjaldkeri, engin félagsgjöld bara frjáls framlög, ef á þyrfti að halda, og engar félagaskrár. Innan rauðsokka- hreyfingarinnar mótaði ég og barðist fyrir slíku fé- lagsformi sem mörgum þótti vera ansi djarft. Við rauðsokkurnar vorum feiknalega sterkar meðan hreyfingin var algerlega opin og enginn var skráður sem meðlimur. Þá var auðvelt að vera rauðsokka þegar manni svall móður og svo gat maður dottið í það að gera eitthvað allt annað, farið í hárgreiðslu og látið kvenleikann blómstra. Starfið í rauðsokka- hreyfingunni var þó agað og öflugt og gerði okkur sem þar vorum að þjálfuðum vinnukrafti og marg- ar voru kallaðar til starfa í þjóðfélaginu. Ég var gripin inn í Myndlista- og handíðaskólann árið 1975, þegar stúdentaóeirðir stóðu sem hæst og oft var erfitt að róa á rétt mið í slíkum stofnunum og ég var þar skólastjóri í þrjú ár. Það var gaman en þessu starfi fylgdu mikil átök út af stefnumörkun og ég missti þolinmæðina. Skólastjórastarfið er þó eitt af því sem ég hefði viljað hafa meiri þolinmæði gagn- vart og skilja betur við, klára verkið betur en ég gerði.“ Endalausir möguleikar á ævintýrum Ef þú ættir að lýsa þróuninni í verkum þínum, hvað myndirðu segja? „Árin eftir 1968, þegar ég var að vefa, voru skemmtilegur tími. Ég lít þó á það tímabil í minni list sem raunsæistímabil frekar en pólitískt. Það var verið að endurskoða alla hluti og ég vann bara með umhverfið eins og það birtist mér og var ófeimin við að spyrja spurninga. En þegar kom fram undir 1980 þá breyttist andrúmsloftið, straumarnir í þjóðfélaginu lágu í átt að peningahyggjunni sem varð síðan áberandi og þjakandi. Ég skynjaði þann skugga og mér líkaði hann ekki. Í vefnaðinum fóru margir að einbeita sér að náttúrutengdum við- fangsefnum. Ég flutti út á land, fann mig betur þar og fór að vinna með víddina í náttúrunni, fór í að leita að öðru formi, fannst að ég yrði að finna mér nýja leið. Ég byrjaði að taka ljósmyndir og vinna með þær og tengja við vefnaðinn. Árið 1988 lenti ég í bílslysi og hef ekki fengið fulla hreyfigetu síðan til að vinna flókin verk. Lengi gat ég ekki einu sinni tekið almennilegar ljósmyndir en svo komu staf- rænu myndavélarnar á markaðinn, þannig að þeir erfiðleikar eru að baki. Ég hef notað tölvu til að teikna og svo skrifa ég bækur. Það var aldrei með- vituð ákvörðun að skrifa. Það byrjaði þannig að ég fór að skrifa niður það sem ég lærði sem krakki um garðyrkju af móður minni í foreldrahúsum.“ Þú býrð með bónda þínum, Þór Vigfússyni, í Ölfusinu þar sem þú ræktar jurtir og sinnir gróðri. Er Þór ræktunarmaður eins og þú? „Hann er farinn að rækta með mér og nú er ég að kenna honum að elda. Ég hef uppgötvað nokkuð varðandi karlmenn. Eldhúsið fyrir karlmönnum er dásamleg furðuveröld þar sem þeir eru í sterkri ná- lægð við matinn. Þeir geta gramsað í skápum, rótað inni í ísskáp og gert sig breiða í eldhúsinu. Minn maður er stór og mikill matmaður og þannig menn una sér hvergi betur en í eldhúsi. Nú er ég smám saman að leiða hann inn í leyndardóma kokka- mennskunnar og mér sýnist honum líka það afar vel en sjálf er ég búin að elda nóg í bili og er fegin að hvíla mig.“ Hvað er svo á dagskrá eftir sýninguna? „Ég sé svo sem endalausa möguleika á ævintýr- um framundan en nú er ég er farin að hugsa, eins og karlmaður, bara um eitt í einu. Takmarkið er að klára þessa sýningu og þýðinguna á Walden. Það er gott að verða eldri vegna þess að þá fer maður að geta skoðað líf sitt sem heild. Það er sagt að mað- urinn geti dáið sáttur ef hann geti horfst í augu við líf sitt. Líf mitt hefur verið heilt, ekki brotakennt og það finnst mér gott. Mér finnst ég hafa fengið ríku- legan skammt af spennandi tækifærum sem ég átti kannski ekki endilega skilið. En ég var lánsöm og vonast eftir að eiga enn inni sitthvað hjá forsjón- inni.“ ’ Það er gott að verða eldri vegna þess að þá fer maður að geta skoðað líf sitt sem heild. Það er sagt að maðurinn geti dáið sáttur ef hann geti horfst í augu við líf sitt. Líf mitt hefur verið heilt, ekki brotakennt og það finnst mér gott. Mér finnst ég hafa fengið ríkulegan skammt af spennandi tækifærum sem ég átti kannski ekki endilega skilið. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.