SunnudagsMogginn - 25.09.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 25.09.2011, Blaðsíða 30
30 25. september 2011 S l. fimmtudagsmorgun stóð mað- ur við glugga á skrifstofu sinni og horfði yfir nærliggjandi hverfi, þar sem fjöldi stórra fyr- irtækja hefur höfuðstöðvar sínar eða starfsstöðvar, taldi þau upp hvert á fætur öðru og sýndi fram á, að þau væru ýmist í eigu banka, dótturfélaga þeirra eða aðila á vegum lífeyrissjóðanna. Viðmælandi minn spurði síðan á hvaða veg eignarhald í atvinnulífinu væri að þróast. Það er full ástæða til að spyrja. Í kjölfar hrunsins lenti fjöldi fyrirtækja í eigu bankanna eða einhvers konar eignar- haldsfélaga, sem lífeyrissjóðir koma m.a. að. Í fæstum tilvikum hafa þessi fyrirtæki verið gerð upp, starfsemin lögð niður og eignir seldar. Í þess stað hafa hinir nýju eigendur haldið rekstri þeirra áfram í von um að geta fengið meira verðmæti út úr þeim síðar. Það geta verið ákveðin rök fyrir því út frá hagsmunasjónarmiði þeirra en þó er ástæða til að íhuga eftirfar- andi af því tilefni. Áframhaldandi rekstur fyrirtækja, sem í raun eru komin í þrot en rekin áfram með það í huga að auka verðmæti þeirra af aðilum, sem til þess hafa fjármagn, eins og á við um bankana eða dótturfélög þeirra, skekkir auðvitað samkeppnisstöðuna á þeim sviðum, sem þessi fyrirtæki starfa á. Hvernig eiga vel rekin einkafyrirtæki, sem lifðu kreppuna af, að geta vaxið og dafnað í skugga samkeppni af þessu tagi? Hvernig á byggingarvöruverzlun, sem byggð hefur verið upp af dugnaði og út- sjónarsemi af einstaklingi, að geta keppt við byggingarvöruverzlun, sem haldið er á floti af banka eða áþekkum aðilum? Hvernig eiga bílaumboð í einkaeign, sem byggð hafa verið upp úr engu (Bílabúð Benna á rætur í viðgerðum á skellinöðrum í bílskúr foreldra eigandans) og lifðu hrunið af, að geta stundað eðlileg við- skipti í samkeppni við bílaumboð, sem í raun eru rekin af bönkum? Hvernig eiga litlar bókabúðir, sem stunda líka viðskipti með ritföng og reknar eru af einstakl- ingum, að geta keppt við stórar ritfanga- keðjur í eigu banka? Hvernig eiga lítil dekkjaverkstæði í eigu dugmikilla ein- staklinga að geta keppt við stór dekkja- verkstæði í eigu banka? Enginn hefur vakið jafnrækilega athygli á þessum sér- staka vanda í atvinnulífinu og Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæð- isflokksins, sem hefur gert það bæði á Al- þingi, með greinum hér í Morgunblaðinu og annars staðar. Það er tímabært að taka þetta mál til meðferðar og umræðu. Fyrsta skrefið er að taka saman yfirlit yfir eignarhald á fyr- irtækjum og sjá hve mikill hluti atvinnu- lífsins er í eigu banka og eignarhaldsfélaga á vegum þeirra, lífeyrissjóða og áþekkra aðila. Það væri ekki óeðlilegt að slíkt yf- irlit yrði tekið saman á vegum Við- skiptaráðs eða Samtaka atvinnulífsins. Reyndar mætti ætla að þeir aðilar teldu sér skylt að berjast fyrir því, að heil- brigðar aðstæður geti skapast í atvinnulíf- inu til frjálsrar samkeppni. Svo er auðvit- að hugsanlegt að fyrirtækin, sem haldið er á floti með ofangreindum hætti, séu aðilar að þessum samtökum og þess vegna eigi þau ekki hægt um vik að hafa frumkvæði um slíka skýrslugerð. Þá hljóta aðrir aðilar að koma til skjalanna. Óbreytt ástand gengur ekki lengur. Það kemur í veg fyrir þá heilbrigðu og eðlilegu uppstokkun í atvinnulífinu, sem er ein af forsendum þess að endurreisn í kjölfar hrunsins geti orðið að veruleika. Sú endurreisn er ekki hafin. Annars vegar koma stjórnmálalegar ástæður í veg fyrir að eðlileg uppbygging fari fram í orkufrekum iðnaði, sem gæti orðið at- vinnulífinu almennt mikil lyftistöng. Hins vegar kemur þessi óheilbrigða og falska samkeppnisstaða í mörgum greinum við- skiptalífsins í veg fyrir eðlilega framþróun á öðrum sviðum. Það getur ekkert einka- fyrirtæki staðið í samkeppni við fyrirtæki, sem haldið er gangandi með banka á bak við sig. Og með því eru bankarnir raun- verulega að grafa undan öðrum við- skiptavinum sínum. Þeir eiga að stunda bankaviðskipti en ekki annars konar at- vinnurekstur. Þetta er ekki bara mál atvinnulífsins. Þetta er pólitískt mál. Það er rétt sem við- mælandi minn sl. fimmtudagsmorgun sagði, að þetta væri spurning um framtíð- areignarhald í atvinnulífi Íslendinga. Sumir mundu kannski segja, að aukinn opinber rekstur væri að finna sér leið inn um bakdyrnar í íslenzku atvinnulífi. Kannski þarf engan að undra þótt núver- andi stjórnvöld gefi þessari þróun lítinn gaum. Stjórnarflokkarnir byggja auðvitað á gömlum sósíalískum og sósíal- demókratískum grunni. Einkarekstur var höfuðóvinur þeirra stjórnmálaafla fram eftir 20. öldinni. Ekki get ég gagnrýnt Sjálfstæðisflokk- inn fyrir að láta sig þessi málefni einka- rekstrar engu varða, því að sá sem stóð við gluggann á skrifstofu sinni í Valhöll við Háaleitisbraut og lýsti þessum áhyggj- um yfir eignarhaldi í atvinnulífinu var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæð- isflokksins. Þessi uppstokkun eignarhalds og end- urreisn í atvinnulífinu er stórmál, sem engum stendur nær en Sjálfstæðis- flokknum að taka upp baráttu fyrir. En það er kannski ekki alveg einfalt. Tveir bankar af þremur eru í eigu erlendra vog- unarsjóða. Þeir voru einkavæddir af nú- verandi ríkisstjórn. Hver ætlar að segja þeim erlendu vogunarsjóðum fyrir verk- um og í krafti hvers? Þeim er alveg sama um stöðuna í íslenzku atvinnulífi. Þeir hugsa um það að ná eins miklu til baka af fé sínu og þeir mögulega geta. Afleiðingar þeirrar einkavæðingar eru ekki enn komnar fram. Kannski styttist í að nýir eigendur þeirra birtist á sjón- arsviðinu? Hverjir skyldu það verða?(!) Hitt er víst að þeir munu hafa sömu markmið og núverandi eigendur. Að ná eins miklu út úr þessum eignum og þeir geta. Þeim verður alveg sama um eign- arhald í íslenzku atvinnulífi. Hvernig er eignarhaldið í atvinnulífinu að þróast? Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is Þ að var á þessum degi árið 1066 sem öld víking- anna endaði. Flestir Íslendingar þekkja Stam- ford Bridge sem heimavöll hins farsæla fót- boltaliðs er nefnist Chelsea. En Frank Lampardar og Petr Cechar þess tíma notuðu krafta sína í að drepa fólk í því sporti sem var vinsælast þá; bardög- um og styrjöldum. Nafn heimavallar Chelsea er einmitt dregið af þeim stað þar sem ein af frægustu orrustum 11. aldar átti sér stað. Upphaf víkingaaldarinnar er miðað við árás villi- manna (víkinga) á eyjuna Lindisfarne árið 793, þótt raunin sé sú að Norðmenn höfðu áttað sig á litlum vörn- um Englands fyrr og þegar byrjað að ræna og drepa þar árið 787. En árásin á Lindisfarne var gríðarlegt áfall fyrir hinn siðmenntaða kristna heim. Fram til þessa hafði lítil hefð verið fyrir því í norðrinu að ráðast á fólk af sjó. Hafið var vernd fyrir ágangi ræningja og bófa. Eyjan Lindisfarne er norðarlega í Englandi og þar höfðu frið- samir kristnir menn byggt upp fallegt og ríkt samfélag. Mikið var um munka á svæðinu sem sátu við skriftir og sungu sálma. Annaðhvort 8. janúar eða 8. júní birtist fjöldi skipa vel vopnaðra villimanna frá Noregi við sjón- arröndina. Villimennirnir ruddust á eyjuna og drápu munkana, brenndu bækur þeirra og rændu öllu verð- mætu. Annálar um alla Evrópu vitna um áfallið sem kristið fólk varð fyrir. Brátt spurðist út í Noregi hversu auðfenginn þessi gróði var. Næstu nokkur hundruð árin urðu villimennirnir úr norðrinu að plágu um alla Evr- ópu. Góð skip þeirra og bardagagleði olli skelfingu allt suður til ítalskra hafnarborga. Um tíma réðu víkingarnir stórum hluta Englands og Norður-Frakklandi. Árið 1066 var verulega farið að halla á víkingana en órói í Englandi kveikti valdagirnd konunga í nágrenni við landið. Játvarður Englandskonungur hafði látist í janúar það ár og margir gerðu tillkall til krúnunnar. Haraldur Godwinson tók krúnuna í sínar hendur. En bróðir hans, Tostig Godwinson í Skotlandi, var óánægð- ur með það og bæði Haraldur harðráði í Noregi og Vil- hjálmur bastarður (líka nefndur Vilhjálmur sigurvegari) í Normandí gerðu tilkall til krúnunnar. Þannig að her- útboð var látið ganga bæði í Noregi og í Norður- Frakklandi. Haraldur Godwinson bjóst til varnar gegn Normönnum á suðurströndinni þegar Haraldur harðráði gerði innrás með víkingaher sinn miklu norðar. Har- aldur harðráði sigraði Englendinga í fyrstu orrustu sinni og lagði undir sig York og héraðið í kring. Tostig Godw- inson slóst í lið með Haraldi harðráða til að klekkja á bróður sínum. Haraldur Godwinson hafði við fréttirnar lagt strax af stað með her sinn frá varnarstöðu sinni í suðrinu og til móts við víkingana. Haraldur harðráði hafði talið sig hafa nægan tíma til að njóta lystisemda héraðsins áður en hann þyrfti að fara suður til að berjast við Englandskonung. Her hans var tvístraður um svæðið í kringum Stamford-brúna og á þessum heita degi höfðu víkingarnir skilið brynjur sínar eftir í skipum sínum. Árás Haralds Godwinsonar kom þeim algjörlega í opna skjöldu. Um 15.000 manns voru í hvoru liði og varð orr- ustan harðvítug og kostaði mikið mannfall. Her víking- anna var nánast eytt. Og er þessi orrusta oft sögð marka endalok víkingaaldarinnar sem var þá frá 793-1066, þótt ýmsar víkingaferðir hafi verið farnar allt fram á 12. öld. En Haraldur Godwinson fékk ekki að njóta sigursins lengi, því aðeins þremur dögum eftir að hann stóð al- blóðugur og þreyttur yfir höfuðsvörðum Haralds harð- ráða og bróður síns Tostigs við Stamford-bryggju lenti Vilhjálmur bastarður með her sinn í suðrinu og þar var náttúrlega enginn til varnar. Haraldur Godwinson fylkti liði sínu og fór suður með bardagaþreytta menn sína og mætti her Vilhjálms við Hastings og var sigraður. Vil- hjálmur bastarður frá Normandí átti síðan eftir að leggja allt England undir sig. borkur@mbl.is Endalok víkinganna Hér er Haraldur harðráði Noregskonungur sýndur falla. ’ Aðeins þremur dögum eftir að Godwinson stóð alblóðugur og þreyttur yfir höfuðsvörðum Haraldar harðráða og bróður síns Tostig við Stamford bryggju þá lenti Vilhjálmur bastarður með her sinn í suðrinu og þar var náttúrulega eng- inn til varnar. Minnismerki um orrustuna frægu í York héraði. Á þessum degi 25. september 1066

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.