Morgunblaðið - 13.08.2010, Qupperneq 25
Minningar 25
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. ÁGÚST 2010
✝ Benedikt varfæddur á Hvilft í
Önundarfirði þann 7.
júlí 1924. Hann lést
þriðjudaginn 20. júlí
sl.
Foreldrar Bene-
dikts voru Sigurður
Gröndal, rithöfundur
og yfirkennari í
Reykjavík, og Mikk-
elína María Sveins-
dóttir. Benedikt var
elstur sjö systkina.
Þau eru séra Halldór
Gröndal, nú látinn,
Sigurlaug Claessen, Ragnar Grön-
dal, Ragnheiður Gröndal, Þórir
Gröndal og Gylfi Gröndal, nú lát-
inn.
Eftirlifandi eiginkona er Heidi
Jaeger Gröndal. Þau áttu tvo syni.
Jón Gröndal, sem er giftur Dorot-
heu Emilsdóttur og
Einar Gröndal, sem
er giftur Guðrúnu
Guðmundsdóttur.
Einn sonur þeirra,
Tómas Gröndal, er
látinn og lætur eftir
sig ekkju, Milvi Link
Gröndal. Jón og Do-
rothea eiga þrjú
börn. Hauk Geir
Gröndal, giftur Jón-
asínu Jónsdóttur,
Heiðu Gröndal, gift
Christoph Lecomt
frá Frakklandi, og
Benedikt Karl Gröndal, í sambúð
með Örnu Ásgeirsdóttur. Einar og
Tómas eru barnlausir.
Benedikt verður jarðsunginn
frá Dómkirkjunni í dag, föstudag-
inn 13. ágúst og hefst athöfnin kl.
13.
Í meira en þrjá áratugi var Bene-
dikt Gröndal einn áhrifamesti for-
ystumaður Alþýðuflokksins, varafor-
maður í 11 ár og formaður 1974-1980.
Hann starfaði í 30 ár við Alþýðublað-
ið, þar af tíu ár sem ritstjóri, og var
þingmaður flokksins í 26 ár. Bene-
dikt var einkar heilsteyptur og vand-
aður og naut virðingar og trausts,
innan flokks sem utan. Formannsár
Benedikts voru erfið ár í sögu flokks-
ins. Alþýðuflokkurinn kom laskaður
út úr 12 ára ríkisstjórnarsamstarfi
við Sjálfstæðisflokkinn, fékk lélega
útkomu í kosningum 1971 og 1974 og
var áhrifalítill langt fram eftir 8. ára-
tugnum. En Benedikt lagði sig fram
við að styrkja innviði flokksins og
samheldni. Þegar róttæknibylgjur
áratugarins bárust hingað mætti
hann þeim með góðu samstarfi við
það unga fólk sem kom til liðs við Al-
þýðuflokkinn og endurnýjaði stefnu
hans með róttækri gagnrýni á
stjórnkerfið, efnahags- og kjara-
stefnu þáverandi stjórnarflokka,
flokksræði og ekki síst fyrirgreiðslu
og spillingu í stjórnmálum.
Árið 1978 vann flokkurinn stórsig-
ur undir forystu Benedikts og inn á
Alþingi kom stór hópur ungra jafn-
aðarmanna sem margir voru boðber-
ar róttækra umbótahugmynda. En
flokkurinn bar ekki gæfu til að þoka
þeim áleiðis í þeirri stjórn sem
mynduð var með Framsóknarflokki
og Alþýðubandalagi. Ríkisstjórnar-
samstarfið gekk brösuglega og var
stjórninni slitið eftir rúmt ár. Örlög
stjórnarinnar voru Benedikt þung-
bær en hann, eins og fjölmargir aðr-
ir, höfðu bundið mikla vonir við sam-
starf A-flokkanna. Hann var maður
sátta og málefnalegrar rökræðu,
ekki átaka eða undirmála. Árið 1980
ákvað hann að láta af formennsku í
Alþýðuflokknum og hvarf síðan af
þingi tveimur árum síðar til starfa
fyrir utanríkisþjónustuna. Þar kom
menntun hans og yfirburðaþekking á
utanríkismálum að góðu gagni.
Ég kynntist Benedikt vel á þeim
fáu árum sem við sátum saman í
þingflokki Alþýðuflokksins. Það var
gott að leita til hans og lífsreynsla
fyrir mig að vinna undir forystu hans
á fyrstu árum mínum á Alþingi.
Benedikt var traustur, yfirvegaður
og hlýr maður. Mér fannst alltaf sér-
stök reisn yfir honum og það reyndi
mikið á mannkosti hans og þraut-
seigju í ríkisstjórn 1978-1979. Þá var
stór hluti þingflokksins nýliðar sem
voru óþolinmóðir að koma í höfn bar-
áttumálum flokksins. Mikið mæddi
því á formanninum. Benedikt var
sannur jafnaðarmaður og barðist
alla tíð ötullega fyrir að hrinda í
framkvæmd hugsjónum jafnaðar-
manna. Hann minntist ætíð með
mikilli ánægju veigamikilla úrbóta í
velferðarmálum, einkum í málefnum
aldraðra, þegar hann leiddi minni-
hlutastjórn jafnaðarmanna um nokk-
urra mánaða skeið eftir að slitnaði
upp úr stjórnarsamstarfinu með Al-
þýðubandalagi og Framsóknarflokki
1979.
Um leið og ég kveð þennan heið-
ursmann þakka ég honum samfylgd-
ina og áratuga starf og mikilvægt
framlag til baráttu jafnaðarmanna
fyrir réttlæti og siðuðu samfélagi.
Ég sendi eftirlifandi eiginkonu hans,
sonum og öðrum aðstandendum hug-
heilar samúðarkveðjur nú þegar ævi
merks manns er lokið.
Jóhanna Sigurðardóttir,
formaður Samfylkingarinnar.
Sagt hefur verið að sama eigi við
um stjórnmálaforingja og herfor-
ingja. Þeir deyja ekki. Þeir líða brott.
Menn, sem verið hafa hluti af dag-
legri tilveru þjóðar sinnar og hverra
nafn hefur verið á allra vörum þoka
hægt og hljótt til hliðar. Minna
sjaldnar og sjaldnar á sig og taka
loks sæti í sögunni. Það sæti hefur
Benedikt Gröndal nú tekið. Það sæti
er vel skipað. Eins og sæti Benedikts
var þegar hann sat þar í amstri dag-
anna. Öll verk sín vann hann vel, af
heiðarleika, atorku og ósérhlífni en
einnig af kurteisi, velvilja og mann-
gæsku. Þannig skipaði hann sæti sitt
í lífinu. Þannig verður hans minnst í
sögunni.
Kornungur var ég þegar ég kynnt-
ist Benedikt. Þá var hann einn allra
glæsilegasti merkisberi jafnaðar-
stefnunnar á Íslandi, mjög vel máli
farinn, víðlesinn, ritfær en hóglátur.
Hann átti manna mestan þátt í að
velja mig sem arftaka sinn á rit-
stjórnarstóli Alþýðublaðsins. Frá
þeirri stundu og alla tíð síðan veitti
hann mér leiðsögn og stuðning sem
hvort tveggja var ómetanlegt ungum
manni. Í næstum tvo áratugi þar á
eftir lágu leiðir okkar saman í þing-
flokki og í ríkisstjórn. Þar vorum við
ekki alltaf sammála en aldrei erfði
Benedikt slíkt ósætti og vinir vorum
við allt til loka. Oft reyndi þó á þegar
hann sem formaður þurfti að takast á
við sér miklu yngri og óreyndari
menn í þingflokki Alþýðuflokksins á
árunum upp úr 1978. Það höfum við
séð síðar, ungir sem vorum þá, að oft
var hart að honum gengið og ekki
maklega.
Þolinmæði hans og jafnlyndi rask-
aðist þó aldrei og ekki erfði hann slík
átök við nokkurn mann. Þar máttum
við margt af Benedikt læra sem og
það að engum, hvorki samherja né
andstæðingi, var í nöp við Benedikt
Gröndal heldur þvert á móti. Sá mað-
ur átti sér marga andstæðinga en
engan óvin svo mér sé um kunnugt.
Um fáa menn er slíkt hægt að segja
og einna síst um stjórnmálamenn.
Þrátt fyrir áratuga starf á vett-
vangi stjórnmála þar sem menn
þurfa að standa berskjaldaðir og
þola hvers kyns aðkast var Benedikt
í eðli sínu hlédrægur maður sem ekki
naut sín best í fjölmenni – glæsi-
mennið sem hann var. A efri árum
dró hann sig því í hlé, fór lítt á
mannamót og lét lítið til sín heyra.
Var ekki lengur hluti af daglegri til-
veru, jafnvel ekki þeirra, sem um-
gengist höfðu hann hvað mest á at-
hafnaárum hans. Rödd hans var
hljóðnuð. Hann var fjarri. Og nú er
hann sjálfur horfinn úr heimi – liðinn
burtu – sestur í sæti sitt í Íslandssög-
unni. Þar er að mæta samtímamönn-
unum sem ásamt honum leiddu þjóð
sína á þeim árum þar sem sérhvert
nýtt ár fól í sér framför, nýja von og
nýja sigra. Það sæti í Íslandssög-
unni, sem lengi hefur staðið autt í
þeim hópi samtíðarmanna Bene-
dikts, er nú skipað.
Rökkursöngvarar hrunadansins
hófu ekki upp rödd sína fyrr en löngu
síðar.
Sjálfsagt fá þeir líka sæti í Íslands-
sögunni – en væntanlega annars
staðar.
Við Björk sendum Heidi og sonum
þeirra Benedikts svo og afkomend-
um öllum okkar innilegustu samúð-
arkveðjur.
Sighvatur Björgvinsson, fyrrv.
form. Alþýðuflokksins.
Nýgræðingi í blaðamennsku, sem
kom til starfa á Alþýðublaðinu
snemma vors 1962, var ekki í kot vís-
að. Þar var öflugt fréttalið undir
stjórn Gísla J. Ástþórssonar og
Björns Jóhannssonar og Benedikt
Gröndal, þingmaður og ritstjórinn,
sá um pólitíkina. Hann var jafnframt
einn af snjöllustu blaðamönnum
landsins. Á þessum árum var Al-
þýðublaðið eldisstöð fyrir aðra fjöl-
miðla. Slitróttar launagreiðslur
hröktu menn þaðan til annarra
starfa.
Þannig æxlaðist, að sá sem þetta
ritar fór fljótlega að sjá um þing-
fréttir og þá varð samstarf okkar
Benedikts bæði náið og gott. Bene-
dikt hafði verið tengdur Alþýðu-
blaðinu frá unglingsárum, er hann
skrifaði íþróttafréttir, seinna blaða-
maður, fréttastjóri og ritstjóri. Hann
var fjölhæfur fjölmiðlamaður og rit-
höfundur. Bækur hans um utanrík-
ismál (Stormar og stríð og Örlög Ís-
lands) voru brautryðjendaverk.
Hann skrifaði fleiri bækur og að auki
smárit, Alþingi að tjaldabaki (1981),
sem er firnagóð lýsing á störfum
þings og þingmanna. Í minningasjóði
Alþýðublaðsára geymist sú mynd, að
Benedikt kom jafnan niður á blað á
kvöldin og las próförk af leiðara
næsta dags. Vandvirkur var hann og
samviskusamur. Hann leiðbeindi
byrjanda við leiðaraskrif, strikaði út
og bætti um betur. Seinna sá ég að
líklega hefði hann í Harvard-námi
sínu kynnst biblíu stílista sem oft er
kölluð litla bókin (The Elements of
Style). Honum var lagið að skrifa
mannamál, útlista flókin efni með
einföldum hætti. Á sjöunda áratugn-
um skrifaði Benedikt fjölmarga leið-
ara í Alþýðublaðið um náttúruvernd,
sem var honum hjartans mál. Það
voru ekki margir á þeim árum, sem
höfðu skilning á því sem nú er á allra
vörum. Þessir leiðarar eru heimild
um framsýni hans og pólitíska víð-
sýni.
Benedikt átti sæti í útvarpsráði í
fimmtán ár. Formaður var hann í
þrettán.
Enginn einn maður átti jafnmik-
inn þátt í því að íslenskt sjónvarp
komst á laggirnar 1966 og Bendikt
Gröndal. Því hafa nú flestir gleymt,
að hann fékk samþykkt á Alþingi að
aðflutningsgjöld af sjónvarpstækj-
um (þá var Keflavíkursjónvarpið eitt
um hituna) skyldu renna til íslensks
sjónvarps. Þetta gerði líklega gæfu-
muninn. Benedikt var sannur holl-
vinur Ríkisútvarpsins og mótaði dag-
skrárstefnu þess og þróun með
margvíslegu móti.
Enn lágu leiðir okkar saman í
þingflokki Alþýðuflokksins, þegar
höfundur þessara lína varð arftaki
hans í Vesturlandskjördæmi.
Ferill Bendikts var þríþættur.
Hann var blaðamaður, þingmaður og
ráðherra og sendiherra. Líklega galt
hann þess nokkuð í stjórnmálum að
berjast ekki af nægilegri hörku fyrir
eigin frama, því hann var hlédrægt
ljúfmenni og líklega fremur ómann-
blendinn að eðlisfari. Hann skorti
hörku fyrir sjálfan sig, en beitti sér
þeim mun meira fyrir rétti þeirra,
sem minna mega sín. Um hann hefur
með réttu verið notað orðið manna-
sættir.
Að leiðarlokum eru Bendikt Grön-
dal þökkuð löng kynni, leiðsögn í
starfi bæði í blaðamennsku og pólitík
og traust vinátta alla tíð. Heiðu og
sonum þeirra sendum við Eygló ein-
lægar samúðarkveðjur.
Eiður Guðnason.
Þegar Benedikt Gröndal settist í
baráttusæti A-listans við bæjar-
stjórnarkosningarnar í Reykjavík í
janúar 1950 var hann þegar orðinn
kunnur sem útvarpsmaður og frétta-
stjóri Alþýðublaðsins. Stór hópur
ungs fólks var þá að vaxa upp í Al-
þýðuflokknum og verkalýðshreyf-
ingunni, en þótt þar væri margur
efnismaðurinn á ferð fannst mér
hann skera sig úr, bæði vegna
menntunar sinnar, glæsimennsku og
þess persónulega þokka, sem ein-
kenndi hann alla tíð. Hann var sagn-
fræðingur frá Harvard-háskóla og
blaðamennska og rithneigð voru
honum í blóð borin. Með honum kom
því að mörgu leyti nýr andblær með-
al ungs fólks í stjórnmálunum. –
Við alþýðuflokksmenn áttuðum
okkur snemma á því hvílíkt foringja-
efni hann var og þóttumst sjá að færi
allt að vonum ætti hann eftir að
verða formaður Alþýðuflokksins,
þingmaður og ráðherra. Allt gekk
það eftir. – Í flokknum naut hann
vinsælda og trausts eins og glöggt
kom fram á flokksþingum er hann
var ætíð einróma kjörinn í þær trún-
aðarstöður sem hann gaf kost á sér í.
Þegar hann var kjörinn formaður og
tvívegis varaformaður var eindregin
samstaða um kosningu hans, þótt
viðsjár væru stundum að öðru leyti
miklar á þingunum. – Benedikt var
maður friðsamur og ekki deilugjarn,
hvorki innanflokks né utan, en bæri
þá atburði að höndum að hann hlyti
að láta þá til sín taka hafði hann bæði
gáfur og skap til þess. Er hægt að
nefna ýmis dæmi því til staðfesting-
ar. Snemma á ferli sínum sameinaði
hann flokkinn að baki sér í alvarlegri
deilu við þáverandi formann og lagði
þar með grundvöll að þeim starfs-
friði sem honum var svo nauðsynleg-
ur. Að það skyldi takast hafði síðan
úrslitaáhrif á aðild flokksins að þeim
ríkisstjórnum sem í hönd fóru.
Benedikt hefði, að réttu lagi, átt að
taka sæti í ríkisstjórn miklu fyrr en
raun varð á, bæði í minnihlutastjórn
Emils Jónssonar og í Viðreisnar-
stjórninni. Til þess hafði hann alla
burði. En skilning skorti á gildi end-
urnýjunar og yngingar í þingflokki
og ríkisstjórn þótt ekki hefði það far-
ið fyrir brjóstið á honum. Samt fór
svo að hann átti bæði eftir að gegna
embættum utanríkisráðherra og for-
sætisráðherra og það með sóma. –
Benedikt bar djúpa virðingu fyrir
Alþingi, þótti vænt um það og vildi
veg þess sem mestan. Hann var al-
vörustjórnmálamaður sem hægt var
að bera traust til og virðingu fyrir. –
Góðu heilli átti hann eftir að starfa
sem ambassador að utanríkismálum
og alþjóðamálum mörg síðustu ár
ævi sinnar og kom þá glöggt fram
hve mikils hann var metinn, til dæm-
is er hann gerðist sáttasemjari í al-
varlegri fjölþjóðadeilu er honum
tókst að leysa. –
Í Alþýðuflokknum átti hann stór-
an þátt í stefnumótun, þeir Gylfi Þ.
voru fremstu hugmyndafræðingar
hans. Hann komst til æðstu metorða
í stjórnmálum og vann öll sín verk
með sóma. Við minnumst hans því
með þökk og virðingu og sendum
Heidi og fjölskyldunni einlægar sam-
úðarkveðjur.
Sigurður E. Guðmundsson.
Benedikt Gröndal fæddist á heim-
ili ömmu okkar og afa að Hvilft í Ön-
undarfirði 7. júlí 1924. Okkar kynni
hófust ekki að neinu marki fyrr en í
aðdraganda alþingiskosninga 1956,
þegar Benedikt var 32 ára og ég 17
ára. Þá höfðu Alþýðuflokksmenn í
Mýra- og Borgarfjarðarsýslu leitað
til hans með ósk um að hann gæfi
kost á sér til framboðs fyrir flokkinn
í kjördæminu, sem hann og gerði og
náði þá inn sem landskjörinn þing-
maður. Benedikt varð síðan þing-
maður Alþýðuflokksins á Vestur-
landi 1959 til 1978. Þingseta hans
fyrir Vesturland stóð því samfellt í
22 ár. Hann lauk síðan þingmennsku
sinni fyrir Alþýðuflokkinn í Reykja-
vík 1982. Benedikt var varaformaður
Alþýðuflokksins 1952-54 og 1965-74.
Síðan formaður flokksins 1974-80.
Hann var mikill jafnaðarmaður, sem
beitti sér af hógværð en þó festu fyr-
ir málstaðnum. Hann var sterkur
fundarmaður og öflugur í rituðu
máli. Hann var mannasættir og
blandaði aldrei saman hagsmunum
flokksins og persónulegum hags-
munum. Hann leiddi Alþýðuflokkinn
í kosningunum 1978, þegar flokkur-
inn vann glæsilegasta kosningasig-
urinn í sinni sögu. En því miður tókst
ekki í öllum ákafanum að fylgja þeim
sigri eftir. Hann stýrði minnihluta-
stjórn Alþýðuflokksins um fjögurra
mánaða skeið 1979-80, á miklum
átakavetri í íslenskum stjórnmálum.
Það hefði ekki öllum tekist við þessar
aðstæður. Benedikt Gröndal miklað-
ist ekki af verkum sínum. Og það
gerði hann ekki þegar hann var
spurður í sjónvarpsfréttum 8. febr-
úar 1980 hvað réttlætti setu minni-
hlutastjórnar Alþýðflokksins. Hann
svaraði af lítillæti: „Við komum fram
á þessu stutta þingi, sem haldið var
rétt fyrir jólin, veigamiklum umbót-
um á lífeyri gamla fólksins. Það
finnst mér réttlæta þetta fjögurra
mánaða tímabil.“ Ég veit að það var
honum mikils virði alla tíð að eiga
þátt í því að laga stöðu þeirra sem
minna máttu sín. Jafnaðarmenn á
Vesturlandi minnast með þakklæti
þeirra 22 ára sem Benedikt gegndi
þingmennsku fyrir kjósendur á
Vesturlandi. Allan þennan tíma naut
hann mikils trausts, jafnt meðal for-
ystufólks Alþýðuflokksins á svæðinu
sem og almennra kjósenda. Hann fór
ekki fram með hávaða og slagorðum,
heldur af hóværð, prúðmennsku og
lítillæti. Því var ætíð á hann hlustað.
Benedikt var heimagangur á heimili
foreldra minna á Akranesi meðan
þau lifðu. Auk frændseminnar, en
hann var systursonur föður míns, þá
deildu þau saman hugsjón jafnaðar-
stefnunnar. Samskipti foreldra
minna og Benedikts voru alla tíð
byggð á gagnkvæmu trausti og ein-
lægri vináttu, sem ég veit að þau
mátu alla tíð mikils.
Kæra Heidi, við Ása sendum þér
og fjölskyldu þinni innilegar samúð-
arkveðjur og biðjum guð að blessa
minningu Benedikts Gröndals.
Sveinn G. Hálfdánarson,
Borgarnesi.
Benedikt Gröndal
✝
Okkar ástkæri,
BJÖRN ÍVAR KARLSSON
skurðlæknir
frá Heiðarhvammi,
Vestmannaeyjum,
lést fimmtudaginn 29. júlí.
Útförin fór fram í kyrrþey frá Landakirkju miðviku-
daginn 4. ágúst.
Fjölskyldan þakkar þeim sem sýndu honum hlýhug og virðingu
í veikindum hans.
Þökkum fyrir auðsýnda samúð.
Helga Jónsdóttir,
Didda Scheving Björnsdóttir,
Karl Björnsson, Kolbrún Tryggvadóttir,
Björn Ívar Karlsson,
Berglind Karlsdóttir,
Elfa Karlsdóttir,
Tryggvi Geir Ingvarsson,
Snorri Björnsson, Hörn Guðjónsdóttir,
Tómas Helgi Snorrason,
Hörður Snorrason,
Hildur Snorradóttir,
Guðjón Kristinn Snorrason.