Morgunblaðið - 24.12.2010, Blaðsíða 26
26 24. desember 2010
Á
tíunda áratug síðustu aldar
færðist það í vöxt að einka-
fyrirtæki styrktu menningar-
viðburði með fjárframlögum.
En jafnframt fór þess að gæta, að þau
vildu fá eitthvað fyrir sinn snúð. Þau litu
á framlög til menningar sem þátt í að
byggja upp jákvæða ímynd af fyrirtæk-
inu, söluvöru þess eða þjónustu. Og
kunnu því illa, ef fjölmiðlar fjölluðu um
þá viðburði án þess að geta styrktaraðila.
Á fyrstu árum 21. aldar jókust þessi
umsvif verulega og jafnframt krafan um
að það færi ekki fram hjá neinum hverjir
veittu fjárhagslegan stuðning. Raunar var
sú krafa orðin svo rík að jaðraði við
smekkleysi. Það breytti hins vegar ekki
því, að fjárstuðningur einkafyrirtækja
átti verulegan þátt í blómlegu listalífi.
Svo kom hrunið og líklegt að nokkur
tími líði þar til einkafyrirtækin verða
jafnumsvifamikil í menningunni og þau
voru orðin. Og ekki endilega víst, að það
sé eftirsóknarvert. Hvað voru fyrirtækin
að kaupa?
Eftir stendur menningargeiri í veru-
legri fjárþröng. Hefur eitthvað komið í
staðinn? Opinberir aðilar eru að skera
niður útgjöld, bæði ríki og sveitarfélög.
Þeir aðilar hafa ekki fyllt upp í það gat,
sem einkareksturinn skildi eftir sig við
hrun. Og engar opinberar umræður orðið
að ráði um fjármögnun menningar við
breyttar aðstæður, þótt ekki skuli gert
lítið úr þeirri rannsókn, sem fram hefur
farið á hlut hennar í landsframleiðslu.
Hvernig eru menningarviðburðir fjár-
magnaðir, ef undan er skilin starfsemi
stofnana á borð við Þjóðleikhús, Sinfón-
íuhljómsveit og Borgarleikhús? Það er
efnt til fjölmargra tónleika á ári hverju
svo og myndlistarsýninga, leiklist-
arstarfsemi er fjölskrúðug, bókaútgáfa
lífleg, en allt kostar þetta peninga.
Í flestum tilvikum ganga listamenn á
milli manna, opinberra aðila, einkaaðila,
leita í þá sjóði, sem til eru, og ná að safna
saman peningum, sem rétt duga og
stundum ekki til að greiða lágmarks-
kostnað við viðburði og of oft fá þeir lítið
eða ekkert í sinn hlut sjálfir.
Þetta er bakhliðin á menningar-
starfseminni. Við hin sjáum það, sem að
okkur snýr, og hrífumst, ef svo ber und-
ir. Í nóvember sat ég í Salnum í Kópavogi
og hlustaði á Víking Heiðar Ólafsson spila
á útgáfutónleikum og eins og jafnan áður
hrifust áheyrendur af leik þessa unga
manns, sem mundi ná meiri árangri í að
endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavett-
vangi en nokkur annar einstaklingur,
fengi hann tækifæri til. En það kostar
fjármuni að komast á blað á heimsvísu.
Fyrir nokkrum kvöldum sat ég og
hlustaði á disk, sem út kom á síðasta ári
og heitir Minning. Þar leika þau sam-
an á orgel og flautu, Hörður Áskels-
son og Guðrún Sigríður Birgisdóttir.
Þetta er undurfögur tónlist og óvenju vel
saman valin. Þetta volduga hljóðfæri,
orgelið í Hallgrímskirkju, og þetta við-
kvæma hljóðfæri, flautan, fara vel saman.
En það hefur tekið nánast það sem af er
þessari öld að koma disknum út.
Fyrir nokkrum mánuðum sá ég kvik-
myndina Brim, sem leikhópurinn, sem
kennir sig við Vesturport, stendur að. Sá
leikhópur hefur skapað sér algera sér-
stöðu í íslenzku leikhúsi. Kvikmyndin
veitir þjóð, sem lifir á fiski, tækifæri til að
kynnast lífi sjómanna nú á tímum, sem er
mikilvægt vegna þess að tengslin við sjó-
inn hafa rofnað of mikið. Brim vekur
spurningu um, hvort hægt sé að sýna á
kvikmynd líf sjómanna á árabátum fyrir
rúmlega hundrað árum, sem Jón Kalman
Stefánsson rithöfundur lýsir í stórkost-
legri bók, Himnaríki og helvíti. Og ég vil
leyfa mér að skilja svo að lýsi lífi þeirra,
sem sóttu sjóinn á árabátum úti fyrir
Vestfjörðum undir lok 19. aldar og
kannski í byrjun 20. aldar. Þeir eru
margir af minni kynslóð sem sjá afa sinn
fyrir sér í þeirri bók.
Við eigum um þessar mundir óvenju-
lega hæfileikaríka leikarastétt og kvik-
myndagerðarmenn, sem mundu valda
slíku verkefni. En það kostar peninga.
Hvenær sjáum við líf Jóhannesar Kjar-
vals, sem fæddist í einni fátækustu sveit
landsins en náði að sýna tilfinningar ís-
lenzku þjóðarinnar til lands síns og nátt-
úru þess í málverkum, sem eru orðin
þjóðargersemar, á leiksviði eða í kvik-
mynd? Hvenær kynnumst við lífi og bar-
áttu Sigurbjarnar Einarssonar biskups,
mesta andlega leiðtoga íslenzku þjóð-
arinnar á okkar tímum, á leiksviði eða í
kvikmynd?
Allt er þetta spurning um að rækta
menningararfleifð þjóðar okkar og koma
henni til skila til nýrra kynslóða en það
kostar peninga.
Þeir peningar munu ekki – og eiga ekki
– að koma frá bönkum og stórfyrir-
tækjum, sem vilja kaupa sér ímynd. Þeir
eiga að koma úr sameiginlegum sjóðum
landsmanna. Við vorum fátæk þjóð, þeg-
ar bygging Þjóðleikhússins hófst. Við
vorum fátæk þjóð, þegar Hallgrímskirkja
var teiknuð. Báðar þessar byggingar risu.
Við erum rík þjóð í dag í alþjóðlegum
samanburði, þrátt fyrir tímabundnar
hremmingar. Ein bezta leiðin út úr þeim,
tilfinningalega, fyrir þjóðina er að rækta
arfleifðina, efla menninguna og gera
beztu listamönnum okkar – sem eru öfl-
ugustu sendiherrar þjóðarinnar út á við –
kleift að nýta hæfileika sína okkur öllum
til ánægju og þjóðinni til framdráttar.
Aðstæður kalla á mótun nýrrar menn-
ingarstefnu, sem byggist á þjóðlegri
menningararfleifð og hæfileikum lista-
manna samtímans en nýtir þá nýju
tækni, sem gerir okkur kleift að gera
menninguna að almannaeign en ekki
áhugamáli hinna fáu.
Við eigum á nýju ári að sameinast um
að leggja fram verulega aukna fjármuni
til menningar. Fátt stuðlar fremur að
fæðingu hins Nýja Íslands, sem við öll
viljum en er ekki innan þeirrar seilingar,
sem við héldum.
Aðstæður kalla á mótun nýrrar menningarstefnu
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@mbl.is
Þ
að getur verið erfitt hlutskipti að eiga afmæli á
aðfangadegi jóla – degi sem öll önnur manns-
börn eiga líka. Nema menn líti þannig á að
verið sé að halda upp á fæðingu þeirra og til-
veru alla! Lítum á nokkur vel valin afmælisbörn dagsins.
Nokkrir merkir stjórnmálamenn eru fæddir á að-
fangadag. Fyrsta skal nefna Törju Halonen Finnlands-
forseta. Hún er 67 ára í dag. Sumsé fædd sama ár og
höfðingi okkar þjóðar, Ólafur Ragnar Grímsson. Á al-
þjóðavettvangi er Halonen líklega þekktust fyrir áhuga
sinn á mannréttindamálum.
Ed Miliband, sem kjörinn var formaður Verkamanna-
flokksins í Bretlandi á árinu, á líka afmæli í dag. Hann er
41 árs sem telst ekki hár aldur hjá formanni í stjórn-
málaflokki. Hvað ætli Ed fái að þessu sinni í afmælisgjöf
frá bróður sínum, David?
Þegar horft er til fjarlægari slóða kemur upp úr dúrn-
um að Hamid Karzai, forseti Afganistans, er einnig
fæddur á þessum degi. Fagnar 53 ára afmæli sínu í dag.
Hann komst til valda árið 2001 þegar stjórn talibana var
steypt af stóli en tók formlega við forsetaembættinu
þremur árum síðar. Karzai er umdeildur maður og að
minnsta kosti fjórum sinnum hafa menn freistað þess að
ráða hann af dögum. Án árangurs.
Af afmælisbörnum dagsins úr menningarlífinu má
nefna skáldsagnahöfundinn og spennudrottninguna
Mary Higgins Clark sem heitir raunar fullu nafni Mary
Theresa Eleanor Higgins Clark Conheeney. Og hafiði
það. Clark, sem er 83 ára í dag, hefur ritað ógrynni bóka
um dagana og fjölmargar þeirra verið þýddar á íslenska
tungu. Illa verður maður svikinn ef sú nýjasta verður
ekki í einhverjum jólapökkum í kvöld.
Tónlistarmenn eiga vitaskuld sína fulltrúa í hópi jóla-
barna. Fyrstan skal þar nefna sjálfan Lemmy Kilmister,
forsprakka málmbandsins goðsagnakennda Motörhead
og einn af brautryðjendum þeirrar eðlu stefnu. Hvort
sem menn trúa því eður ei er Lemmy 65 ára gamall í dag.
Ætli kappinn telji ekki í Ace of Spades af því tilefni?
Annar merkur þungarokkari fæddist á þessum degi,
Munataka Higuchi, trommuleikari japönsku sveit-
arinnar Loudness, en hann lést langt fyrir aldur fram
2008 af völdum krabbameins. Blessuð sé minning hans.
Af mýkri músíköntum skal nefndur hjartaknúsarinn
frá Púertó Ríkó, Ricky Martin. Hann fæddist á því ágæta
ári 1971 og heldur því upp á 39 ára afmæli sitt í dag.
Martin á frækinn feril að baki í poppheimum og hefur
selt um sextíu milljónir platna. Geri aðrir betur! Árið
sem er að líða var viðburðaríkt hjá Martin en snemma
vors gerði hann sér lítið fyrir og kom út úr skápnum.
Fáum brá víst við þau tíðindi.
Annar hjartaknúsari heldur 36 ára afmæli sitt hátíð-
legt í dag, nefnilega Ryan Seacrest, útvarpsmaður og
kynnir í amerísku stjörnuleitinni. Seacrest, sem er með
hressari mönnum, er sagður þekkja ofboðslega margt
frægt fólk. Sama dag og Seacrest kom í heiminn í Banda-
ríkjunum leit Marcelo Salas fyrst dagsins ljós í Síle.
Hressilega rættist úr honum en Salas gerði garðinn
frægan sem knattspyrnumaður, meðal annars með Lazio
og Juventus á Ítalíu. Jæja þá, alla vega Lazio.
Annar kunnur sparkandi á afmæli í dag, Tyrkinn Yıld-
ıray Bastürk, sem fæddist árið 1978. Frægðarsól hans
hefur raunar lækkað hratt á lofti og á þessu ári náði hann
aðeins að leika einn hálfleik með Blackburn Rovers í
ensku úrvalsdeildinni. Hann var þar til reynslu en félag-
ið ákvað að semja ekki við hann til frambúðar. Grind-
víkingar, Bastürk er sumsé á lausu.
Fallega fólkið á líka sína fulltrúa í hópi afmælisbarna
dagsins, þannig er Riyo Mori, fegurðardrottning heims-
ins 2007, 24 ára í dag. Hún er frá Japan.
Öllu þessu fólki er óskað til hamingju með afmælið og
ykkur hinum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
orri@mbl.is
Þau eiga af-
mæli í dag! ’
Hvað
ætli Ed
fái að
þessu sinni í
afmælisgjöf frá
bróður sínum,
David?
Á þessum degi
24. desember (ýmis ár)
Ricky Martin
Tarja HalonenEd Miliband Ryan Seacrest
Lemmy KilmisterHamid Karzai Riyo Mori
Mary Higgins Clark Marcelo Salas