Morgunblaðið - 08.07.2011, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 08.07.2011, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. JÚLÍ 2011 ✝ Ragnar Han-sen múr- arameistari fæddist á Sauðárkróki 17. apríl 1923. Hann lést á Landspít- alanum föstudag- inn 1. júlí. For- eldrar hans voru hjónin Friðrik Han- sen kennari, vega- vinnuverkstjóri, oddviti og ljóð- skáld, f. 17.1. 1891, frá Sauðá við Sauðárkrók, d. 27.3. 1952, og Jósefína Erlendsdóttir Hansen, saumakona og klæðskeri, f. 2.11. 1894 á Beinakeldu, Torfu- lækjarhreppi, A-Hún. d. 19.11. 1937. Systkini Ragnars eru: Ás- gerður, Emma, Ástríður Björg, Kristján, Erlendur, Jóhannes, Björg, Guðmundur, Sigurður, Jósefína, Eiríkur, Friðrik og Þorbjörg. Fjögur elstu systkinin og Friðrik eru látin. Hinn 25. júlí 1953 kvæntist Ragnar Hjördísi Kristófers- dóttur, f. 20. okt. 1929, d. 30. júní 1998. Kjörforeldrar hennar voru Kristófer Eggertsson skip- stjóri, f. 28.11. 1892 í Gottorp, Þverárhr. V-Hún., d. 16.11. 1961, og Helga Eggertsdóttir, f. 6.9. 1894 í Kothúsum, Garði, Gerðahr., Gullbr., d. 29.5. 1967. Kynforeldrar hennar voru Steingrímur Stefánsson frá Galtará í Gufudalssveit og Þur- íður Eggertsdóttir frá Flateyri. aldri. Hann flutti að heiman 14 ára í kjölfar láts móður sinnar. Vann hann ýmis störf næstu ár- in. Lauk Héraðsskólanum á Laugarvatni 1941, iðnskólaprófi í Reykjavík og sveinsprófi í múraraiðn 1945. Meistarabréf fékk hann 1949 og bygging- arleyfi í Reykjavík 1950. Félagi í Múrarafélagi Reykjavíkur frá 1946-1981 og síðan í Múr- arameistarafélagi Reykjavíkur. Var um tíma gjaldkeri í Múrara- félaginu og fulltrúi í Iðnráði. Kennari í flísalögn á vegum Iðn- fræðsluráðs. Ragnar hefur unn- ið við flísar og múrverk í 62 ár. Var með sjálfstæðan rekstur og menn í vinnu árum saman og stofnaði síðar fyrirtækið Han- sen verktaka ásamt syni sínum. Ragnar var jafnan með stór verk, meðal annars Borgar- leikhúsið, hluta af Kringlunni, DAS í Reykjavík og Hafnarfirði, fjölmarga leikskóla, kirkjur og sundlaugar á höfuðborgarsvæð- inu. Einnig lagði hann flísar og grjót í Ráðhúsi Reykjavíkur, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Smáralind, Landspítala og ýms- um frystihúsum úti á landi. Það er óhætt að segja að eftir Ragn- ar liggi mörg stór verk sem hann vann af alúð og dugnaði. Síðasta opinbera verkið var flísalagning Smáralindarinnar þegar hann var 78 ára að aldri. Ragnar spilaði bridds í áratugi allt fram á síðasta dag og vann til margra verðlauna. Útför Ragnars fer fram frá Háteigskirkju í dag, 8. júlí 2011, og hefst athöfnin kl. 13. Börn Ragnars og Hjördísar eru: 1) Jósefína, f. 26. febr- úar 1953. Var gift Birgi Smára Karls- syni. Börn þeirra eru Ragnar Karl, Hjördís Helga, Jó- hanna Lilja og Sól- veig Dögg. 2) Helga, f. 6. okt. 1954, maki Guð- mundur Thor Guð- mundsson. 3) Friðrik, f. 6. febr. 1957, maki Katrín Ingadóttir. Börn þeirra eru Þorsteinn Ingi, Anna Lára og Ragnar. 4) Hulda, f. 26. apríl 1958. Börn hennar eru Berglind, Kristófer og Em- anúel. 5) Kristín Edda, f. 21. maí 1961, maki Hermann Þorvaldur Guðmundsson. Börn þeirra eru Guðmundur Davíð, Hulda María, Ragnar Hjörvar og Hjör- dís Björg. 6) Kristófer Eggert, f. 28.7. 1963, maki Ruth Elfars- dóttir. Sonur þeirra er Friðrik Dagur. 7) Sólveig Björg, f. 15. sept. 1967. Dætur hennar eru Eva María og Sara Hjördís. 8) Ragnar Stefán, f. 22. apríl 1971, maki Anna Sigríður Gunn- arsdóttir. Dætur þeirra eru Hekla og Salka. Afkomendurnir eru orðnir 41 talsins. Vinkona Ragnars síðustu árin er Guðrún Sesselja Guðmunds- dóttir. Ragnar byrjaði í vegavinnu með föður sínum aðeins 9 ára að Elsku pabbi, það var gott að eiga athvarf hjá þér á þínu ynd- islega heimili. Þangað voru allir velkomnir í gleði og sorg. Þú hafð- ir að geyma yndislegan föður, góðan vin, afa, langafa og tengda- föður. Nærvera þín var einstök og það var hægt að segja þér frá öllu því þú áttir svo auðvelt með að setja þig í spor annarra. Þú kvaddir með því að opna fallegu brúnu augun þín og þakklætið skein úr þeim. Ég er sannfærð um að það hefur verið yndislegt fyrir þig að koma í faðm ömmu og mömmu. Ætti ég hörpu hljóma þýða, hreina, mjúka gígjustrengi, til þín mundu lög mín líða, leita þín, er einn ég gengi. Viltu, þegar vorið blíða vefur rósir kvölddögginni, koma til mín, kvæði hlýða, kveðja mig í hinzta sinni. Lífið allt má léttar falla, ljósið vaka í hugsun minni, ef ég má þig aðeins kalla yndið mitt í fjarlægðinni. Innsta þrá í óska-höllum á svo margt í skauti sínu. Ég vildi geta vafið öllum vorylnum að hjarta þínu. (Friðrik Hansen) Með söknuði kveð ég þig, elsku pabbi minn, og bið Guð að vernda þig og blessa. Þín dóttir, Jósefína Ragnarsdóttir. Mig langar að minnast föður míns í fáum orðum. Pabbi var einstaklega glað- lyndur og lagði mikla áherslu á að láta gott af sér leiða. Stundum fór greiðvirkni hans þó út í öfgar enda held ég að það finnist vart bónbetri maður. Hann átti það til að gera fólki greiða og vinna fyrir það án endurgjalds, þótt hann hefði hvorki tíma né orku til þess. Pabbi var vanur að vinna hörð- um höndum frá barnæsku og æskustöðvarnar voru honum afar kærar. Eftirfarandi atvik lýsir honum því vel. Árið 1946 átti pabbi mótorhjól, en varð fyrir því óhappi að ekið var á hann og hann fótbrotnaði. Pabbi varð því að leggjast inn á Landspítalann. Eft- ir ákveðinn tíma var honum farið að leiðast aðgerðaleysið mikið og tók hann því þá ákvörðun að út- skrifa sig sjálfur og fara í gifsinu alla leið norður í land á mótorhjól- inu. Hann var óstöðvandi ef hann tók ákvörðun, sama hversu mik- inn andbyr hann fékk. Þannig var pabbi allt lífið; þrautseigjan kom honum í gegnum allar hindranir. Pabba leiddist aldrei enda hafði hann alltaf nóg fyrir stafni og vann mikið alla tíð enda fyrir mörgum að sjá. Þótt hann væri í erfiðisvinnu frá barnsaldri talaði hann aldrei um að hann væri þreyttur. Það var ótrúlegt hvað hann hafði mikið þrek og lagði sig fram í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Pabbi lagði mikla áherslu á að við börnin fengjum hollan mat þar sem hann hafði svo oft verið á einhæfu og óhollu mataræði þegar hann starfaði meðal ann- ars í vegavinnu og á iðnskólaár- unum. Það var því ekki sparaður matur á heimili okkar. Við börn- in fengum mikið af ávöxtum og þess háttar sem aðrir spöruðu við sig á þessum tíma. Þegar hann var ekki að vinna þeystist hann með okkur börnin út um allt. Honum fannst mikilvægt að við færum út í náttúruna til að kynnast landinu og dýralífinu. Þær fáu frístundir, sem hann átti, fóru í ýmsar ferðir um land- ið með okkur fjölskylduna, eink- um til Sauðárkróks til systkina sinna, þar sem við gistum, eða í sveitir þar í kring. Minningarnar um þessar ferðir eru margar og skemmtilegar. Stundum fórum við í styttri ferðir út fyrir bæinn og tjölduðum, veiddum fisk, skoðuðum fugla og egg eða fór- um í fjallgöngur. Á þessum árum voru engir bílstólar notaðir fyrir börn og því var auðvelt að hlaða átta börnum í einn bíl. Fólki brá hins vegar oft í brún þegar pabbi opnaði fyrir okkur bílinn og hleypti öllum börnunum út, enda sjaldgæft að fólk ætti svo mörg börn. Stoltastur af öllu var hann af barnaláninu. Pabbi fór oft með okkur í kvikmyndahús á sunnudögum, en var þá jafnan svo þreyttur að hann svaf meðan sýning kvikmyndarinnar stóð yfir. Hann hafði einstaklega gaman af því að heimsækja æskuslóðirnar og systkini sín á Króknum. Á síðari árum kann- aðist hann við fáa á götunum þar, en í kirkjugarðinum hvílir fólkið sem hann þekkti. Von mín er sú að nú sé pabbi í faðmi ástvina sinna og njóti hvíld- arinnar frá daglegu amstri og annríkri ævi. Ég þakka föður mínum fyrir að vera okkur það sem hann var. Hann var okkur frábær fyrirmynd. Sólveig Björg. Þakka þér, elsku pabbi minn, fyrir lífið sem þú gafst mér, ég hef verið lánsöm að hafa eignast föð- ur sem þig. Þú varst allt í senn faðir, vinur og félagi okkar krakk- ana. Þú gerðir þér far um að þekkja börnin þín sem best og kynnast vinum okkar og jafnvel foreldrum þeirra. Pabbi var mikill náttúruunn- andi og elskaði að fara með okkur í útilegur, uppá fjöll í eggjaleit, fuglaskoðun, í ber og verja tíma með okkur úti við, hvort heldur var að sumri eða vetri. Sumrin voru þvílík ævintýri fyrir okkur krakkana og vorum við mjög oft á ferðinni, sérstaklega til Sauðár- króks þar sem pabbi ólst upp. Pabbi var mildur maður sem vildi allt fyrir alla gera. Hann kenndi okkur snemma að bera umhyggju fyrir náunganum og þau góðu gildi að hjálpa öðrum sem minna máttu sín. Hann hafði alltaf opið heimili sitt fyrir gesti og gangandi og elskaði að hafa fólk í kringum sig. Pabbi var einna stoltastur yfir barnaláni sínu; þó hann hafi byggt mörg mannvirki, sagði hann hverjum sem heyra vildi að hann ætti 8 börn og engum gat leynst það hversu stoltur hann var yfir þeim. Ég minnist þess að hann hafði alltaf tíma fyrir börnin sín. Hann nýtti hvern einasta frítíma sinn til að vera með okkur. Pabbi lifði líf- inu til fulls og síðasta ferðin var á æskustöðvarnar Sauðárkrók, þremur vikum fyrir andlátið. Minningin um alla þá sögustaði og allt það sem við gerðum er það dýrmætasta sem ég á. Elsku pabbi minn, þú ferð aldr- ei úr hjarta mínu. Þín dóttir, Hulda Hansen. Ætti ég hörpu hljómaþýða, hreina, mjúka gígjustrengi, til þín mundu lög mín líða, leita þín, er einn ég gengi. Viltu, þegar vorið blíða vefur rósir kvölddögginni, koma til mín, kvæði hlýða, kveðja mig í hinsta sinni. Lífið allt má léttar falla, ljósið vaka í hugsun minni, ef ég má þig aðeins kalla yndið mitt í fjarlægðinni. Innsta þrá í óskahöllum á svo margt í skauti sínu. Ég vildi geta vafið öllum vorylnum að hjarta þínu. (Friðrik Hansen) Mig langar að minnast föður míns, Ragnars Hansen, með nokkrum orðum. Pabbi var okkur systkinum góð fyrirmynd með þrautseigju sinni og dugnaði. Allt- af var skemmtilegt að ræða við hann, hvort sem það var um stjórnmál sem voru honum afar hugleikin eða náttúrulækningar sem var sameiginlegt áhugamál okkar beggja. Pabbi hefur gefið okkur systkinum ríkulegt vega- nesti út í lífið og í raun lagt grunn- inn að lífi okkar. Hann hafði alltaf nóg að gera fram á síðasta dag. Pabbi var félagslyndur og hafði áhuga á ótal mörgu. Hann tók það upp hjá sjálfum sér að stoppa upp fugla aðeins 10 ára að aldri og átti heilmikið safn af uppstoppuðum fuglum. Einnig blés hann úr eggj- um og átti glæsilegt eggjasafn sem hann geymdi uppi í efstu hillu í geymslunni á æskuheimili mínu. Þótti okkur krökkunum gaman að fá að skoða öll eggin sem voru samviskusamlega merkt og vel gengið frá öllu. Pabbi unni nátt- úrunni og kenndi okkur að ganga um hana af virðingu. Við eigum margar góðar minningar frá ein- stökum stundum með honum úti í náttúrunni; í fjallgöngu, að skoða fagra steina eða þegar við tjöld- uðum við fallegan læk. Pabbi leit- aðist við að vera með okkur í frí- stundum sínum og var óþreytandi að finna upp á einhverju skemmti- legu um helgar. Skódinn okkar var til dæmis ógleymanlegur. Þar sem foreldrar mínir höfðu fyrir stórri fjölskyldu að sjá, var nýr bíll ekki efst í forgangsröðinni. Þegar bíllinn var orðinn lélegur og jafnvel þannig að gat var kom- ið í gólfið og pollarnir farnir að láta finna fyrir sér, múraði pabbi bara upp í götin. Hann kunni ráð við öllu og tókst á við lífið af ein- stakri jákvæðni og baráttuvilja. Það er ótrúlegt hvernig pabbi komst yfir allt sem hann tók sér fyrir hendur, enda forkur dugleg- ur og kraftmikill. Pabbi var með eindæmum hæfileikaríkur og þótti efnilegur námsmaður og vel greindur. Hann dreymdi um langskólanám en aðstæðurnar leyfðu það ekki. En hann gerði gott úr öllu og sá alltaf björtu hliðarnar. Mótbyr var eitthvað sem hann tókst á við af festu og bjartsýni. Ég hef alltaf verið svo hrifin af myndinni af pabba þar sem hann stendur á höndum uppi á snúrustaurnum við Kirkjuhvol, sem var æsku- heimili hans á Sauðárkróki. Myndin sýnir hversu góður fim- leikamaður pabbi var og hve mikl- um styrk hann bjó yfir. Skila- boðin, sem hann gaf okkur afkomendum sínum, voru að heið- arleiki væri dyggð og að við ætt- um að vanda okkur við allt sem við tækjum okkur fyrir hendur. Með virðingu og þakklæti kveð ég föður minn. Minning hans er sem ljós í lífi okkar afkomenda hans. Þín dóttir, Kristín Edda. Vorið 1937 var kalt í Skagafirði og greri seint. Ungur drengur, sem hafði um sinn unnið við mæðiveikigirðingar í firðinum, hélt heim til Sauðárkróks til að fermast. Að hátíð lokinni fór hann aftur til vinnu sinnar. Þarna frammi í firðinum hófst ævistarf piltsins. Var hann þó ekki ókunnugur vinnu af ýmsu tagi því að hann hafði bæði unnið að sveitastörfum og verið kúskur í vegavinnu mörg sumur. En eftir þetta sá hann fyrir sér sjálfur og naut ekki framar fjárhagsstuðn- ings frá fjölskyldu sinni eða öðr- um. Og starfsdagurinn varð lang- ur. Honum lauk ekki fyrr hann var kominn á áttræðisaldur. Ragnar Hansen var frábær dugnaðarmaður og verklagni hans annáluð. Með eigin aflafé í sjóði komst hann í Héraðsskólann á Laugarvatni og stundaði þar nám í tvo vetur. Hann var náms- maður góður og vel íþróttum bú- inn, hafði hug á að verða íþrótta- kennari en gat ekki látið þann draum rætast sakir fjárskorts. Tilviljun ein réð því að hann lærði múrverk. Og hann varð ekki ein- ungis góður fagmaður og afar af- kastamikill heldur nánast lista- maður á sínu sviði. Það sýna verk hans víða um land og nægir að nefna flísalagnir í Ráðhúsi Reykjavíkur og Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Draumurinn um kennsluna brást að vísu en Ragn- ar reyndist afburðamaður í því starfi sem lífið færði honum og okkur er nær að halda að hvar sem hann hefði komið að verki hefði hann skarað fram úr. Þó að Ragnar hefði jafnan mik- ið umleikis í störfum sínum var hann hlýr og styrkur heimilisfað- ir. Hann eignaðist góða konu og með henni átta vel gefin og mynd- arleg börn. Niðjar þeirra hjóna eru nú yfir fjörutíu. Nokkur síð- ustu æviárin átti hann góða vin- konu sem var honum gleðigjafi og stoð þegar á móti blés. Ragnar Hansen var greindur eins og hann átti kyn til, skýr og rökvís. Minni hans var trútt og frásagnargáfan einstök eins og greinilega mátti heyra í nokkrum útvarpsþáttum þar sem hann sagði frá gömlum vinnubrögðum og venjum, t.a.m. flekaveiði við Drangey. En þó var hitt meira um vert hversu góður og heilsteyptur maður hann var. Drengurinn, sem bjargaðist án fjárstyrks og stuðnings frá unglingsárum til ellidaga, gerðist hjálparhella margra og var þá traustastur er mest á reyndi. Hann gat af eðl- islægum heilindum tekið undir með Stephani G.: „hvar sem mest var þörf á þér, þar var best að vera.“ Og þeir Skagfirðingarnir tveir, Klettafjallaskáldið og reyk- víski múrarinn, voru líkir um margt, ekki aðeins elju og dugnað heldur og óhvikula samstöðu með lítilmagnanum og drauminn um réttlæti og jafnrétti. Okkur finnst erfitt að kveðja Ragnar. Við höfum ekki kynnst betri og traustari manni. Björg kveður bróður sem var henni afar kær og þá styrkastur er hún þurfti mest á að halda. Niðjum hans biðjum við blessunar Guðs og óskum þeim til hamingju með að hafa átt slíkan föður. Guð gefi honum raun lofi betri. Björg og Ólafur Haukur. Gott er sjúkum að sofna, meðan sólin er aftanrjóð, og mjallhvítir svanir syngja sorgblíð vögguljóð. Gott er sjúkum að sofa, meðan sólin í djúpinu er, og ef til vill dreymir þá eitthvað, sem enginn í vöku sér. (Davíð Stefánsson) Þegar mér barst andlátsfregn Ragnars Hansen síðastliðinn föstudagsmorgun get ég ekki sagt að fregnin hafi komið mér á óvart. Baráttan við manninn með ljáinn var stutt og snörp, finnst okkur sem eftir stöndum, en vafalaust hefur Ragnar oft verið verri til heilsunnar undanfarið ár en hann vildi vera láta, enda var það ekki hans stíll að kvarta eða láta hafa fyrir sér. Ég minnist silfurhærðs snagg- aralegs manns, sem ætíð kom til dyranna eins og hann var klædd- ur, manns sem hafði byrjað ungur að vinna og vann langt fram yfir sjötugt. Við hittumst nokkuð oft í fjölskylduboðum og þar sem Skagafjörður ól okkur bæði í æsku var alloft rætt um ýmislegt á þeim slóðum. Hjá honum fékk ég t.d. lýsingar af vegavinnu í hér- aðinu og þann kost sem vega- vinnumenn fyrir miðja síðustu öld lifðu við. Væri það efni í heila bók og hrædd er ég um að núverandi aldamótakynslóð þætti kosturinn sá rýr og einhæfur. Ragnar sagði vel frá, talaði mjög gott mál og virtist eiginlegt að fræða þá sem á hlýddu. Hann hafði ákveðnar skoðanir á þjóðmálum og verka- lýðsmálum og kvað þá stundum fast að orðum. Ef eitthvað bar á góma sem spaugilegt var minnist ég innilegs hláturs hans sem náði til augnanna. Nú verða þessar samverustundir ekki fleiri að sinni en eftir stendur góð minning um mann sem tók þátt í að reisa mörg af húsum höfuðborgarinnar og víðar. Má með sanni segja að hann hafi, ásamt sinni kynslóð, komið okkur út úr torfkofunum í steinsteypuna. Í Breiðholtslaug- inni er flísalögð málsgreinin „Syndur sem selur“. Það er verk Ragnars. Satt að segja hafði ég aldrei tekið eftir hvað stóð þarna fyrr en hann spurði mig glettinn á svip hvort ég vissi hvað stæði á veggnum. Þegar ég fer með afas- telpurnar hans í laugina lesum við alltaf það sem þar stendur og þá segja þær: „Ragnar afi minn gerði þetta.“ Þannig lifa minning- arnar um hann víða í verkum hans, en ekki síður fyrir hversu heilsteyptur maður hann var. Aðstandendum öllum vottum við hjónin okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ragnars Hansen. Sigurjóna Björgvinsdóttir. Ragnar Hansen Ég man fyrst eft- ir Guðrúnu í vefnað- arvörudeildinni á efri hæð kaup- félagsins hér á Höfn. Við kynntumst þó ekki fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég flutti aftur austur. Guðrún var lítil, grönn og snaggaraleg kona. Hún var ekki allra, en hún var sannarlega vin- ur vina sinna. Í Guðrúnu eignaðist ég góðan félaga, ömmu og frænku. Allt í einum pakka, ef svo smá segja. Enda hægt að tala um allt við hana, hlæja sig máttlausa með og líka gráta við öxlina á henni ef þessi þurfti. Hún var mikill húmoristi og dásamlegt að sjá blikið í augun- Guðrún Sveinsdóttir ✝ Jóhanna Guð-rún Sveins- dóttir fæddist 15.10. 1932 á Reynivöllum í Suð- ursveit. Hún lést 21. júní 2011. Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey. um á henni þegar henni leið vel. Ég minnist henn- ar með hlýju og þakklæti. Tár í augum mínum ættu að vera vegna þakkar fremur en dapurleika, því ég þekkti þig ekki sem hluta af sög- unni heldur samlanda sem horfði upp á sama himin og sigldi yfir sama hafi í örstuttum tíma á jörð sem okkur var gefinn. Þú varst yndi, sterk og heit grófst upp fræplöntu úr frosinni mold sem þakti hjarta mitt og hlífðir henni þar til blómkrónur bárust. Í kulda á norðureyju held ég fast í blómið þangað til himinninn opnast einnig fyrir mér. (Toshiki Toma) Inga Rún Guðjónsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.