Birtingur - 01.12.1958, Page 57
Sýning Svavars
Það er svo um mörg hugtök, sem við temjum okkur, að við notum þau
varla nema með efasemdum. Þau hafa mótazt af ákveðnu viðhorfi, sem
síðar getur breytzt, og þá kemur gjarnan upp efinn um réttmæti þeirra.
Hvað er hlutlægni í list? Við höfum vanizt að nota það orð um þá tegund
listsmíðar, sem endurspeglar ytri sannindi þeirra hluta, sem listamaður-
inn velur sér að viðfangsefni. Hitt höfum við kallað óhlutlægt, þegar
listamaðurinn leitar að sannindum viðfangsefnisins í hugskoti sínu frem-
ur en með beinni athugun hinna efnislegu eiginda þess. Hlutlægni á sem
sagt að vera þýðing erlenda orðsins objectivitet, og í þeirri merkingu
höfum við notað það. En mönnum mun ósjaldan koma í hug, hvort hér
séu í rauninni ekki höfð endaskipti á réttri þýðingu, þegar um list er að
ræða. Því hvar endar sjón okkar og hvar tekur hugmyndin við? Og
hvort er okkur raunverulegra, það sem okkur hefur borið fyrir augu eða
hitt, sem hefur vaxið upp í huganum og er orðið okkur að veruleika,
öllum sannreyndum meiri? Erum við að svíkja sannleikann, þegar við
ieyfum okkur að hleypa þessum hugarmyndum fram, eða erum við að
þjóna honum, þegar við afneitum því sem okkur býr í huga, en veljum
í staðinn kalda ásjónu raunveruleikans? í gær greip ég niður í tvær
bækur og það hitti svo á, að í þeim báðum var sama staðnum lýst. I
annarri, Alþingisstaðnum forna eftir dr. Matthías Þórðarson, mætir
manni sannfræðileg lýsing Almannagjár, árinnar og vallanna. Hitt voru
kaflarnir í ísiandsklukku Kiljans, þar sem Snæfríður kemur til þingsins
á fund föður síns um bjarta nótt og leysir úr járnum Jón Hreggviðsson.
Þar standa Þingvellir í hugarspegli skáldsins, engu er lýst, en þó eru þeir
Þingvellir þúsund sinnum nær huga okkar en öll staðfræði til samans.
Eigum við að kalla þá mynd óhlutlæga, sem hefur svo mikinn sannleik
í sjálfri sér, að hún fer ekki úr vitund manns síðan? Nei, ég held að við
verðum að nota hugtakið með varkárni eða snúa því við.
Þessar hugrenningar komu upp, þegar ég var að skoða málverkasýningu
Svavars Guðnasonar, sem hann hélt nú í haust. Á sýningu þessari voru
myndir, — sumir munu eflaust segja óskiljanleg klessumálverk, — sem
geyma svo mikið í sér af náttúru Islands, litmagni hennar og rótfestu,
að manni virðist það öfugmæli að kalla þær óhlutlægar. Myndir þessar
eru þó ekki aðeins endurvarp ytri náttúru að lit og formskipun; það er
í þeim mikið skap, og að mér finnst, lífsviðhorf, sem er gott að hitta
Birtingur
55