Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2002, Page 159
Umræðugreinar, athugasemdir og flugur
Upptök íslensks ritmáls
KRISTJÁN ÁRNASON
0. Inngangur*
Oft er gert ráð fyrir að elsta íslenskt mál hafi orðið til við blöndun
norskra mállýskna hér á landi upp úr landnámi (sbr. t. d. Hans Kuhn
1969:111-113, Hrein Benediktsson 1964:26 og Helga Guðmundsson
1977:316-17).1 Hér er væntanlega fyrst og fremst átt við talmálið, og
þetta hljómar í sjálfu sér ekkert ósennilega, þótt erfitt virðist að sanna
nokkuð um það í smáatriðum vegna skorts á beinum heimildum. En ef
við leiðum hugann að ritmálinu og reynum að tengja tilurð þess við
þessa söguskoðun virðist nokkur vandi á höndum.
Ef gert er ráð fyrir, eins og oftast er gert, að allt ritmál sé í upphafi
byggt á talmáli og endurspegli það, oft í talsverðum smáatriðum, virð-
ist þessi túlkun leiða til mótsagnar. Mótsögnin er í þessum dúr: Heim-
ildirnar sýna okkur að nokkum veginn sama ritmál var notað í Noregi
og á íslandi á 12. og framan af 13. öld. Ef við gerum ráð fyrir að þær
norsku mállýskur sem fluttust til íslands hafi blandast þar og orðið
grunnur að íslensku ritmáli, og ef ritmálið í Noregi er það sama og á
Islandi, verðum við að gera ráð fyrir að hin íslenska blanda norskra
mállýskna hafi verið flutt aftur til Noregs í formi ritmáls. Þetta er auð-
vitað fáránleg niðurstað miðað við pólitískt ástand á þessum tíma. Þótt
íslenskt ritmál og bókmenntir hafi vissulega verið gróskumiklar, verð-
* Þessi grein er að hluta til unnin upp úr erindi sem var flutt á málstofu um mál-
fræði í Háskóla íslands veturinn 2001-2002. Ég þakka þátttakendum í málstofunni
gagnlegar athugasemdir og einnig ónafngreindum ritrýni og ritstjóra Islensks máls.
1 Raunar er Helga ekki grunlaust um að myndin geti verið ögn flóknari, því hann
segir (tilv, rit bls. 317): „Við þetta má ... bæta, þótt óvíst sé, að hafi verið til sameigin-
legt kvæða- og sagnamál samsett úr ýmsum mállýskum, eins og dæmi eru annars stað-
ar> getur verið að það hafi átt einhvem þátt í [þeirri] mállýzkujöfnun [sem átti sér stað].“
íslenskt mál 24 (2002), 157-93. © 2003 íslenska málfrœðifélagið, Reykjavík.