Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2002, Síða 174
172
Kristján Árnason
2.6 Hugsanleg írsk áhrif
Fræðimenn hafa að sjálfsögðu leitt hugann að írskum áhrifum á mál-
ið og menningarsamskiptum Ira og norrænna manna. Meðal þeirra er
Marstrander (1915) sem hefur gert ítarlega athugun á norrænum töku-
orðum í írsku og telur að samskipti norrænna manna og íra eða Skota
hafi hafist býsna snemma. Hann telur (tilvitnað rit, bls. 4 o. áfr.), að til
hafi verið norsk-írsk blendingsþjóð, sem gekk undir nafninu Gall-
Gáidel. Þetta telur hann að samsvari orði sem notað er í Orkneyinga-
sögu og hefur myndina Gaddgeðlar og er notað um héraðið Galloway
á Skotlandi.
Helgi Guðmundsson, sem á hinn bóginn fjallar um vestræn áhrif
á norræna menningu (1997) gerir einnig talsvert úr þeim áhrifum, en
telur þó ekki að orðið hafi nein sérstök málblöndun á Irlandi eða á
skosku eyjunum. Tökuorð hafi borist „með norrænumælandi mönn-
um vestan um haf. Þessi gelísku orð hafa verið í norrænu máli, sem
var talað í norrænum nýlendum fyrir vestan Noreg, máli, sem kallað
hefur verið úthafsnorræna" (tilv. rit, bls. 167). Hér er ekki um að ræða
neina blöndun, heldur tökuorð inn í mál sem, eftir því sem hér er
haldið fram, var þegar skýrt afmarkað og byggði á talsvert langri
hefð.
En þótt ekki hafi orðið mikil blöndun er ástæða til að staldra við
það hlutverk sem norræn menning á skosku eyjunum kann að hafa
leikið á fyrstu tímum. Margt bendir til þess að þar hafi verið talsvert
menningarlíf, einkum tengt jörlunum. Hér má minna á að að fyrsta
háttatalið, Háttalykill inn fomi, er ortur þar af Rögnvaldi jarli og Halli
breiðmaga Þórarinssyni um miðja 12. öld. Rögnvaldur jarl var gott
skáld, eins og vitað er, og Guðrún Nordal (2001:30-31) telur að í
Orkneyjum hafi verið líflegt andrúmsloft. Samkvæmt Orkneyinga
sögu var Halli Þórarinssyni vel tekið þegar hann kom til Orkneyja, en
giskað hefur verið á að hann hafi verið af ætt Síðu-Halls, eins og
Rögnvaldur, en einnig hefur verið stungið upp á því að hann hafi ver-
ið Oddaverji. Guðrún telur raunar að náin tengsl hafi verið milli Odda
og Orkneyja á 12. öld. Allt þetta bendir til þess að menningarsamgöng-
ur hafi verið býsna líflegar um Noregshaf á þessum tíma, og að málið,
miðillinn sem hélt þessu saman, hafi verið tiltölulega staðlaður.