Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2002, Síða 222
220
Guðrún Kvaran
sem birtist fyrst 1941 í Tímariti Máls og menningar og var síðar end-
urprentuð í Vettvángi dagsins (1962:213-214).
Ekkert orð er skrípi ef það stendur á réttum stað. Beri orð í sér hinn rétta
lit, sem til þarf að fullkomna geðblæ setníngar í skáldriti, — ef það er
eina orðið sem fær léð greininni þennan blæ að hundrað hundruðustu, þá
er það hið eina rétta orð —jafnvel þótt það heiti „tildragelsi“, „pípí“ eða
„bumbulpe", sem Þórbergur Þórðarson notar á sérstökum stöðum. Það
er ekki þar með sagt, að slíkt orð sé eða eigi að vera alment mál, það
miðlar kanski í eitt einstakt skifti, eða fáein tiltekin skifti í einni bók, ná-
kvæmlega því sem það á að miðla og ekkert orð getur miðlað annað á
þeim stað. Þannig eru orð til í bókum, sem aðeins eiga heima á einum
stað, í einu sambandi og síðan hvergi framar.
Þannig notaði Halldór kattarabblagið á einum stað og síðan hvergi
framar og sama á við um fjölda annarra orða í verkum hans.
Ég ætla ekki að ræða um stafsetningu Halldórs Laxness í því sem
á eftir fer heldur um orðaforðann í skáldverkum hans, annars vegar um
dönsk tökuorð og hins vegar „íslenskt alþýðumál“. Að sjálfsögðu
verða hvorugu atriðinu gerð tæmandi skil, en ætlun mín er að benda á
hversu miklu er úr að moða í verkum Halldórs Laxness fyrir þann sem
einhvem áhuga hefur á orðaforða tungumálsins og orðfræði yfirleitt.
Við athugun mína studdist ég við orðstöðulykil að skáldverkum Hall-
dórs Laxness, sem unnið var að við Orðabók Háskólans, og útgáfur
þær sem vísað er til em hinar sömu og liggja að baki honum.
2. Um orðaforðann í verkum Halldórs Laxness
2.0 Inngangur
Lítið hefur verið fjallað um orðaforðann í verkum Halldórs Laxness,
eigin verkum eða þýðingum, og hvert hann var sóttur. Vitað er að hann
leitaði víða fanga. Meðal annars þaulþekkti hann orðabók Sigfúsar
Blöndals og nýtti sér hana til hins ítrasta. Hann fékk orðasöfn að láni,
m. a. frá Þórbergi Þórðarsyni eins og segir frá í greinasafni Vilmundar
Jónssonar landlæknis (1985:308) og hann safnaði líka sjálfur orðum á
ferðum sínum um landið og skráði í vasabækur orðfæri, sem hann
ekki þekkti, og nýtti efnið síðar í verkum sínum. Hann mat afar mik-