Vera - 01.07.1987, Síða 46
UPPÁHALDS
BÆKURNAR
MÍNAR
Ég valdi bara bækur úr bókaskápnum mínum. Þær sem ég
þekki vel og vildi síst missa, en valið var ekki auðvelt. Ekki
vegna þess að það væru of fáar sem ég gæti nefnt sem
uppáhalds bækurnar mínar. Heldur vegna þess að þær voru
svo margar sem voru ( 2. sæti að það vafðist fyrir mér að
velja þar úr.
Smásögur hafa alltaf heillað mig. Þau hljóta að skipta
tugum smásagnasöfnin sem ég hef gleypt í mig um dagana.
En smásagnasafn Ástu Sigurðardóttur, Sunnudagskvöld til
mánudagsmorguns nefni ég hér. Sögur Ástu er mjög gaman
að lesa og greina út frá feminiskri bókmenntagreiningu og
verða sögur hennar vonandi seint tæmdar.
Það er ekki mikið sem ég hef lesið eftir Halldór Laxness.
Salka Valka höfðaði meira til mín á sínum tíma en t.d. Gerpla.
Salka Valka er llka enn sem komið er eina bókin eftir hann
sem ég hef lesið oftar en einu sinni og því nefni ég hana hér.
Ástkona franska lautinantsns er skemmtileg bók vegna þess
hve hún er mikið viðfangsefni höfundur gerir í því að láta
lesandann vita að hann er staddur í tilbúinni sögu. En notar
svo venjulega viktorianska ástarsögu sem auðvitað veröur
ekkert venjuleg í meðförum hans.
Jólaóratórían er fyrsta bókin sem ég man eftir að hafa lesið
þar sem tónlist og texti fléttast saman. Tónlist í bókum, eða
réttarasagt tónlist í byggingu bóka var ný hugmynd fyrir mig.
En auðvitað var hún ekkert ,,ný“ þessi tónlistarbygging kemur
jafnvel enn betur fram I bók Milan Kundera. Óbærilegur létt-
leiki tilverunnar, heillandi hugmynd jafnvel fyrir þá sem ekkert
vita um tónlist.
Svokallaðar sience fiction bækur hafa ekki höfðað til mín.
Þó ætla ég að nefna eina bók eftir höfund sem hefur skrifað
þannig bækur. Minningar einnar sem eftir lifði eftir Doris Less-
ing. Innileg en sterk saga um samband tveggja kvenna í
umhverfi sem gæti verið eftir að sprengjan hefur fallið.
Ég verð að nefna Sérherbergi eftir Virginiu Woolf, þótt hún
teljist ekki, strangt til tekið, í hópi skáldsagna. Hún er svo
merkileg sem hugmyndabrunnur og hefur haft varanleg áhrif
á lífsskoðun mína og ekki síst á það hvernig ég túlka bók-
menntasöguna.
Harmaminning Leonoru Kristínar I Bláturni er merkileg bók.
Perla meðal norrænna bóka. Litlu munaði að handritið lenti í
eldinum eftir lát Leonóru Kristínar og seinna týndist það og
gleymdist, en fanst óvænt aftur. Handritið fékkst aftur til Dan-
merkur 1920 en þá voru þrjúhundruð ár liðin frá fæðingu
Leonóru Kristínar.
Góðar unglingabækur eru góðar bækur og ekkert of al-
gengar. Ursula Le Guin hefur víst skrifað nokkrar. Ég nefni hér
þá einu sem ég hef lesið eftir hana og þýdd hefur verið á ís-
lensku, Galdramaðurinn. Sagan gerist á forsögulegum tíma
um það leiti sem drekar ævintýranna eru að deyja út og fjallar
um ungan galdramann sem er á flótta undan sjálfum sér jafn-
framt því sem hann leitar að sjálfum sér.
Fyrst ég er farin að nefna unglingabækur get ég ekki
sleppt því að nefna nokkrar barnabækur. Ég skrifa nokkrar
því mér er ómögulegt að gera upp á milli höfunda s.s. Maria
Gripe sem skrifaði söguna um Húgó og Jósefínu, Astrid Lind-
gren höfund Línu langsokks og sögunnar um bræðurnar
Ljónshjarta. Þær voru næstum lesnar upp til agna bækurnar
eftir Anne-Cath. Vestly um pabba, mömmu, börn og bíl og nú
um jólin bættist skáldkonan Vigdis Hjort í safn mitt af uppá-
halds barnabókahöfundum með sögunni um Birkir og Önnu.
Ævintýrum get ég bara ekki sleppt. Var alin upp á þeim og
minni þeirra greipast í vitundina og kallast sífellt á við lestur
annarra sagna. Riddarasögur miðalda og þjóðsögur allra
landa er hér óaðskiljanlegur hluti. í þennan forða ævintýra og
sagna er endalaust hægt að ganga, hann er í sífelldri endur-
skoðun og því alltaf nýr.
Elín Garðarsdóttir
Elln Garðarsdóttir er nemi á 3. ári í Almennri bókmenntafræði við Háskóla
íslands.
46