Vera - 01.03.1988, Qupperneq 44

Vera - 01.03.1988, Qupperneq 44
hofgyðju í heimi sem hulinn er sjónum manna en er þó innsti kjarni alls. Þar ríkir hið fullkomna jafnvægi allra krafta náttúrunnar, þar vex Askurinn og þaðan sést of heima alla. Móðir náttúra er hin æðsta gyðja og allir lúta hennar lögmálum, þar til friðurinn er rofinn. Óðinn, persónugerfingur hins harða og karllega í heiminum, spillir friðinum. Hann hundsar vald gyðjunn- ar og ber vopn inn í helgasta vé hennar. Græðgi hans í vald ræður gjörðum hans og hann rænir gullkerinu. Loka, æskuvin Gunnlaðar, vélar hann í fóstbræðralag við sig. Loki sem áður þjónaði gyðjunni og rúmaði í sér bæði kvenlega og karllega reynslu þjónar nú Óðni hinum nýja herkonungi. Sagan af þessum átökum er sagan sem Dís segir móður sinni þegar hún heimsækir hana í fangelsið. í upphafi taldi móðirin (hún ber ekkert nafn í bókinni) Dís dóttur sína geðveika að halda fram þessari sögu. En þegar á líður fer hún að trúa henni. Móðirin ásakar svo sjálfa sig um svik, svik við hið upprunalega, svik við reynslu sína og kyn. Hún sér að hún hefur verið of fljót til að dæma og draga ályktanir af ,,staðreyndum“ sem ekkert endilega voru sannar. En hún er ein um að trúa þessari sögu dóttur sinnar. Frá þeim sem um mál Disar fjalla er ekki skilnings að vænta. Fyrir þeim liggur málið Ijóst. Lögreglumenn, lögfræð- ingur, geðlæknir, dómari, fangavörður og sendiherra. Allt karlmenn, allir kerfis- menn og kerfið getur ekki samþykkt sögu Dísar, því hún ræðst að dýpstu rótum þess. Efast um þann sann- leik sem kerfið heldur fram. Dís meira að segja hafnar þeim línulega tíma sem kerfið byggir á, kallar hann gervitíma. Munnleg frásögn hennar er dæmd til að hverfa með henni inn á geðveikrahæli og falla í gleymsku eins og hundruðir munnlegra sagna hafa gert í tímans rás. Þegar móðirin hefur gert sér Ijóst að orð hennar um sannleik sögunn- ar ná ekki eyrum þeirra sem dæma, kemur tækifæri til að halda sögunni á lofti upp í hendurnar á henni. Það er trú hennar að glatist sagan þá glatist allt það sem hún nú hefur öðlast nýjan skiln- ing á. Hún hefur tækifæri til að yfirgefa land sektar. Hún ætlar ekki að brjótast gegn sinni eigin hrynjandi. Tengd skáldskapnum og lífinu rís úr eldi nýtt land í brjósti hennar ,,. . . tvö tré á ströndu." (s. 196) Ný sköpun, nýr heimur, nýtt land hefur verið numið. Elín Sögur íslenskra kvenna 1879—1960 Mál og menning 1987 Ritstjóri Soffía Auöur Birgisdóttir Fyrir síðustu jól kom út hjá Mál og menningu stórbókin Sögur íslenskra kvenna 1879—1960. í bókinni eru verk tuttugu og tveggja kven- rithöfunda; sex heilar skáld- sögur og 23 smásögur. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur valdi sögurnar og skrifaði eftirmála þar sem hún skiptir þessum árum niður i fjögur 20 ára tímabil og segir frá ævi skáldkvennanna, helstu viðfangsefnum hverrar fyrir sig, og endar á að taka saman aðalþemu kven- rithöfunda á hverju tímabili. Aftast í bókinni er höfunda- skrá þar sem útgefin verk skáldkvennanna eru talin upp, svo og heimildir um þær. í allt er bókin 980 síöur. Eftirmáli Soffíu heitir „Skyldan og sköpunarþráin" og ég er henni sammála um að togstreitan á milli skyld- unnar og sköpunarþrárinnar séu algengasta viðfangsefni sagnanna í þessari stórbók. Flestallar kvenpersónurnar í sögunum standa, eða hafa staðið, frammi fyrir því að velja á milli troðinna slóða og ótroðinna í lífinu. Þessari togstreitu svara skáldkon- urnar á misjafnan hátt, sem eðlilegt er. Fórnin er skil- yrðislaus í „Seint fyrnast fornar ástir“ Torfhildar Hólm og í Gestum Kristínar Sigfúsdóttur er niðurstaða verksins sú að „Lögmál lífsins heimtar skilyrðislausa fórn.“ (329) Það kveöur við annan tón hjá t.d. Theodoru Thoroddsen í „Spjaldvefn- aði“ þar sem fórnin leiðir til brjálæðis og hjá Henríettu frá Flatey i „Huldum hörmum“ þar sem sjálfsfórn ömmunnar leiðir óhamingju yfir þrjá ættliði og er óbein orsök dauða dótturinnar. Brjálæði og dauði eru hins vegar beinar afleiðingar sjálfstæðis og virkni í „Móður snillingsins" eftir Ólöfu frá Hlöðum og í „Vondu veikinni" eftir Ólafíu Jóhannsdóttur. í Frostnótt í maí eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur er aðalpersón- an, litla stúlkan, látin gjalda þess að móðir hennar eign- aðist hana með giftum manni í kjölfar þess að hún fór ótroðnar slóðir og menntaði sig. Sjálfstæðinu fylgir frelsi hjá öðrum skáldkonum eins og Svönu Dún þegar kona í „Hillingum" hendir hringnum sínum í sjóinn: „Hún hefur reynt að losa mylnusteininn af hálsi sér. Nú liggur hann á mararbotni. Hún er frjáls, hún ætlar að byrja að lifa lífinu á ný /. . . / Það skímar af degi.“ (574). Stúlkan í „Utangarðs" eftir Guðrúnu H. Finnsdóttur uppsker líka hamingju og frelsi af sjálf- stæði sínu þó þar sé ekki tekið jafn sterkt til orða. Móðurástin er þema sem oft kemur fyrir í þessum sögum og að því mér virðist er hún tvenns konar: Annars vegar birtist hún í draumnum um soninn sem er móður sinni allt eins og í „Draumn- um“ eftir Ástu Sigurðardótt- ur, „Hillingum" eftir Svönu Dún og „Móður snillingsins*‘ eftir Ólöfu frá Hlöðum; og hins vegar sem það afl sem sættir konurnar við allt eins og sögukonan í „Almari Brá“ eftir Huldu reynir að sann- færa okkur um: „Frá þeirri stundu að ég varð móðir gat ég lifað lífinu og þolað allt I. .. I Móðir getur aldrei valið um vegi /. . . / Ég veit ekkert, sem sættir menn við allt, nema foreldraást." (384). Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar kemur togstreitan milli skyldu og sköpunarþrár kvennanna einna skýrast í Ijós í þessari sögu því ungi maðurinn Almar Brá, per- sónugervingur skáldskap- arins, krefst samneytis við kvenhetjuna. Hún þráir að segja honum frá þrám sínum en bæði siðferðið og eigin vanmáttur verða þess vald- andi að þögult huldufólkið fær eitt að heyra harma hennar. Þessi þögn er mjög áleitin: „Hvernig á hugur minn að rúma eld sinn og unað? Á allri jörðu er enginn, sem ég trúi fyrir auðlegð minni nema hann, sem ég má ekki elska“ (377). „Mér finnst ég eiga undraverðan auð, sem ég má ekki ráða yfir; mannlífið leyfir mér það ekki“ (387). „Ég hef reikað alein um fagrar kirkjur, svalað sál minni við lindir himneskra samhljóma, staðið hugfangin frammi fyrir lista- verkum — og fundið að þar átti ást mín heima I... I Almar, hvar er sá „lundur lognfara", sem guðirnir unna okkur að mætast í? —Hvergi á jörðu“ (384). Sáttfýsi móðurástarinnar kafnar i þessari brennandi þrá eftir sameiningu við listina og vonlausum neyðarópunum þegar bæði guð og menn loka þeim vegi. Gildi fórnarinnar fór minnkandi með árunum hjá kvenrithöfundum og telur Soffía að á tímabilinu 1920—'40 hefjist leitin að nýrri kvenmynd sem hefur frelsi til að velja og haína. Þessi nýja kvenmynd skýrist milli 1940 og ’60 og „fram koma konur sem reyna að brjótast úr viðjum hefðbund- ins kvenhlutverks og fórnar; listakonur, menntakonur, einstæðar mæður og svo mætti lengi telja. Enn er það samt togstreitan milli skyldu og langana sem ríkir í velflestum sögunum” (967). Ætli það sé enn skyldan og sköpunarþráin sem takast á í sögum íslenskra kvenna eftir 1960? Svala Þormóðsdóttir 44

x

Vera

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.