Vera - 01.09.1990, Blaðsíða 32

Vera - 01.09.1990, Blaðsíða 32
KVENNAUSTI HVAD NÚ? Á vorþingi Kvennalistans, sem haldið var í Garðabæ dagana 22—24 júní s.l., kom skýrt fram þörf — og vilji — Kvennalista- kvenna til að stokka upp og endurmeta starfsemi sína. Úrslit sveitastjórnakosn- inga í vor urðu Kvennalistakonum mikil vonbrigði og vöktu upp ýmsar spurningar um pólitíska stöðu listans. Auðséð var á umræðum vorþingskvenna að það er ekki einungis hin ytri staða sem þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar í kjölfar kosninganna heldur hin innri líka. Ýmsar blikur eru á lofti í Kvennalistanum og orð eins og skipulag/skipulagsleysi, kvenna- samstaða, samheldni, þröngt sjónarhorn, nýliðun og eymdarpólitík heyrðust oft þessa daga í Garðalundi. Farið var í saumana á kosningunum, undirbún- ingi, aðferðum og árangri. Fulltrúar kvenna- framboðanna um land allt sögðu frá reynslu sinni og veltu fyrir sér hvers vegna Kvennalist- inn fékk minna fylgi en vonir stóðu til. Kosn- ingastýrur kvörtuðu undan dræmri þátttöku í kosningabaráttunni sem fór allt of seint af stað. Sjá yrði til þess að þær konur sem skipa lista geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og tækju virkari þátt í kosningabaráttunni. Svo virðist sem taka verði tillit til ferminga, skírna, barneigna og annars sem er nánast alveg á herðum kvenna. Kosningar mega því ekki vera á háannatíma húsmæðra ef konur eiga að geta tekið þátt í kosningabaráttunni. Útvarps- og sjónvarpsfréttir um alþjóðafund kvenna hér að ári, leiddu af sér fjörlegar um- ræður um samstarf og samvinnu við KRFÍ og konur í stjórnmálaflokkum. Spurt var m.a. hvort Kvennalistinn væri ekki allt of kurteis í garð þeirra kvenna sem baða sig í sviðsljósi hans (Kvennalistans) en gjalda kvennahreyfing- unni ekki þá skuld sem þær eiga að gjalda. A laugardeginum var rætt um Kvennalistann, hugmyndir, áherslur og aðferðir og framtíðin lá konum þungt á hjarta. Elín Stephensen, Kristín Ástgeirsdóttir og Hansína Einarsdóttir voru með framsögur um efnið. Elín nefndi erindi sitt „Hnúkaþeyr" og reifaði þar vangaveltur norð- ankvenna um hvers vegna þær buðu fram 1982 og hvers vegna konur sem voru virkar þá skil- uðu sér ekki til starfa nú. Þeim hefur gengið illa að ná til yngri kvenna og almenningsálitið var gegn þeim frá upphafi. Kvennalistinn var sagð- ur óábyrgur og hafa gert sig sekan um alvöru- leysi (að fara ekki í ríkisstjórn 1988). Kvenna- listakonur á Akureyri ætla ekki að láta deigan síga heldur að fylgjast meö störfum nefnda og gagnrýna. F.lín lagði áherslu á að Kvennalista- konur mega ekki vera of viðkvæmar fyrir gagn- rýni, allra síst þeirri sem kemur innan frá. Kristín Ástgeirsdóttir kom víða við í fram- sögu sinni og hún og ]>órhildur Þorleifsdóttir lögðu fram 22 atriði til umhugsunar og um- ræðu. Kristín telur að þáttaskil hafi orðið haust- ið 1988 þegar Kvennalistanum bauðst að fara inn í ríkisstjórn. Ekki tókst nógu vel að koma því til skila hvers vegna þær fóru ekki í stjórn- ina og ,,við féllum á fjölmiðlaprófinu". Þrótt hefur síðan dregið úr Kvennalistanum vegna ytri og innri aðstæðna. Kristín ítrekaði að í upp- hafi hefði verið lögð áhersla á það sem samein- ar konur, þ.e. reynslan og menningin, en litið fram hjá því sértæka og hinum mismunandi hópum sem konur fylla. Sjónarhornið í mál- flutningnum væri of þröngt, hann beindist all- ur að konum á aldrinum 25—55, sem eru úti- vinnandi vel menntaðar mæður í sambúð sem búa í þéttbýli. Ef Kvennalistinn ætlar að vinna fyrir allar konur, verður hann að tala til allra kvenna en gerir það ekki. Hún lagði áherslu á að íslenskar konur verða allra kerlinga elstar og kvenímyndin myndi breytast verulega ef gömlu konurnar væru dregnar betur fram í dagsljósið. Kristín velti því fyrir sér hvort til væru ákveðin tabú í kvennahreyfingunni, þ.e. einhver mál sem snerta konur en væri ekki tekið á. Of dökk mynd Kristín lagði mikla áherslu á að Kvennalista- konur vissu ekki nóg um íslenskar konur og því gæti verið að þær drægu upp of dökka mynd af stöðu þeirra. Það væri nauðsynlegt að vita hvernig íslenskum konum líður, hvað þær eru að hugsa og hvað þær vilja. Það þyrfti að hafa það í huga að það er munur á forgangsmálum kvenna eftir aldri, hjúskaparstöðu og búsetu. Lýðræðið innan Kvennalistans (en Kvenna- listakonur forðast að greiða atkvæði en reyna að komast að samkomulagi um öll mál) virkar ekki að sögn Kristínar því þær þaulsetnustu taka oft ákvarðanir að lokum. Krafan um sam- eiginlega skoðun er því sterk. Kom vel fram í umræðum hve erfitt Kvennalistakonum finnst að lenda í minnihluta innan listans. Hún sagði lfka konur vega misþungt innan listans og vera skipt í hópa og falin verkefni í samræmi við það (hugmyndafræðingarnir, kaffikonurnar, þær með skemmtilegu hugmyndirnar o.s.frv.). Þessa skiptingu ætti að varast og reyna að stokka upp. Þessi umræða tengist útskiptingar- reglu Kvennalistans sem byggir m.a. á þeirri skoðun að þó svo að reynslan skipti miklu máli þá tæmist fólk af hugmyndum og orku eftir ákveðinn tíma. Kristín segir Kvennalistakonur of gagnrýnis- lausar á stofnanir þjóðfélagsins, þó svo að þær (stofnanirnar) viðhaldi feðraveldinu. Hún segir stofnanatrúna vera í andstöðu við kvenfrelsis- hugmyndir og það verði að breyta stofnunum eða byggja nýjar upp frá grunni (það megi þó aldrei líðast að almannafé sé notað til að auka misrétti milli manna). í lokin benti Kristín á nokkrar leiðir í kvenna- baráttunni: Vinna einar utan kerfis sem þrýsti- hópur, fara einar inn í kerfið og breyta því innan frá (eins og Kvennalistinn gerir) eða byggja upp nýtt samfélag, kvennanetið, óháð samfélaginu, sem yrði nokkurs konar rfki í ríkinu. Hún sagði að konur ættu að byggja upp eigin fyrirtæki, skóla, banka o.s.frv. og styðja og styrkja hver aðra, þar til ekki verður fram hjá þeim horft sem afli í samfélaginu. Erindi Kristínar vakti miklar umræður sem blossuðu upp aftur og aftur allt þingið. Hiin hélt því fram að það færi ekki fram pólitísk um- ræöa í Kvennalistanum, bara í þingflokknum þar sem ákvarðanir væru teknar. Hún spurði hvað pólitísk hreyfing sem aldrei ræðir pólitík væri að gera og hvernig hún ætti að lifa? í kjölfar erindis hennar var rætt um nýliðun eða frekar skort á nýliðun í hreyfingunni. Margar kvört- uðu undan því hve erfitt er fyrir nýjar konur að 32

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.