Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1986, Blaðsíða 76
HALASTJARNA HALLEYS
Halastjarna Halleys verður næst sólu hinn 9. febrúar 1986. Þótt
afstaða hennar til sólar verði óhagstæð, sérstaklega á norðurhveli
jarðar, ætti hún að sjást greinilega frá fslandi í janúarmánuði. Hinn
1. janúar verður hún 19° yfir sjóndeildarhring í suðvestri við dagsetur í
Reykjavík. Útreikningar benda til þess, að hún verði þá orðin sýnileg
berum augum. Næstu daga nálgast hún ört sól og lækkar á lofti, en
birta hennar fer jafnframt vaxandi og halinn ætti að verða meira
áberandi. Eftir miðjan janúar fer tunglskin að spilia athugunarskilyrð-
um, auk þess sem halastjarnan er þá komin mjög nærri sól og hverfur
brátt í sólarbirtuna. Eftir að halastjarnan hefur farið framhjá sól
snemma í febrúar, sést hún best á suðurhveli jarðar.
Þeir sem eiga sjónauka (lítil! handsjónauki nægir) munu geta fylgst
með halastjörnunni löngu áður en hún verður sýnileg berum augum. í
töflunni hér á eftir er sýnd staða halastjörnunnar í stjörnulengd og
stjörnubreidd á nokkurra daga fresti. Með því að bera hnitin saman
við stjörnukortin í almanakinu má sjá, í hvaða stjörnumerki hala-
stjarnan er á hverjum tíma. Pá er sýnt í töflunni hve langt halastjarnan
er frá jörðu og hve björt hún verður. Birtuna er þó erfitt að áætla
fyrirfram, því að halastjörnur sýna oft óvæntar birtubreytingar.
Halastjarna Halleys gengur um sól eftir ílangri braut, eins og sýnt er
á meðfylgjandi teikningu. Teikningin er einfölduð að því leyti, að
brautin er sýnd í sama fleti og brautir jarðar og reikistjarna. Hið rétta
er, að brautarflöturinn myndar 18° horn við brautarflöt jarðar. Eins og
myndin sýnir, gengur halastjarnan um sólu í öndverða átt við reiki-
stjörnurnar. Brautin liggur inn fyrir braut jarðar (og raunar inn fyrir
braut Venusar, sem ekki er sýnd á myndinni) og út fyrir braut
Neptúnusar. Brautin spannar því allt sólkerfið, eða því sem næst.
Umferðartími halastjörnunnar er um það bil 76 ár. Hún sást síðast árið
1910. Þegar hún er lengst frá sól, er hún mjög hægfara, svo að hún
eyðir næstum því helmingi af hverjum umferðartíma fyrir utan braut
Neptúnusar. Þegar halastjarnan nálgast sól, eykst hraðinn geysilega,
og tíminn sem hún dvelst innan jarðbrautar er skemmri en þrír
mánuðir.
Halastjarna Halleys er þekktust allra halastjarna, ekki vegna þess
að hún sé þeirra björtust, því að margar hafa sést miklu bjartari,
heldur vegna þess, að hún var fyrsta halastjarnan sem sannað var, að
kæmi aftur og aftur með reglubundnu millibili. Það var enski stjörnu-
fræðingurinn Edmond Halley, sem fyrstur reiknaði braut þessarar
halastjörnu árið 1696. Halley hafði séð halastjörnuna árið 1682 og
hann spáði því að hún myndi sjást aftur árið 1758. Sá spádómur
reyndist réttur, þótt Halley lifði ekki að sjá það. Tekist hefur að rekja
frásagnir af þessari halastjörnu í eldri heimildum með fullri vissu allt
aftur til ársins 87 f.Kr.
(74)