Litli Bergþór - 01.06.1993, Blaðsíða 3

Litli Bergþór - 01.06.1993, Blaðsíða 3
Ritstjómargrein Um þessar mundir er Ungmennafélag Biskupstungna 85 ára, en þaö var stofnað á sumardaginn fyrsta 23. apríl 1908. "Veður var kalt og mættu því fáir - um 30 alls", eins og segir í fundargerðinni. Þessi fundur var upphafið á miklu félagsstarfi. Það var raunar ótrúlega fjölbreytt og umfangsmikið strax á fyrstu árunum. Verulegur þáttur í því var fundarstarfið. Þar var auk málefna félagsins rætt um hin ólíkustu mál. Má sem dæmi nefna byggingu barnaskóla, kvenréttindi, dýravernd, ættjarðarást, starfsval, bóklestur, tollamál, stofnun tóvinnuverksmiðju, ættarnöfn, þegnskylduvinnu, helgidagavinnu, meðhöndlun fjármuna, ferðamannaland, fólksflutningar og hugsjónir æskumannsins. Unnið var að ýmsum málum svo sem skógrækt, handavinnu, málvöndun, kartöflurækt. Hjálpað var til þar sem erfiðleikar steðjuðu að, skemmtanir haldnar og farið í útreiðartúra. Farið var að gefa út handskrifað blað, Baldur, á þriðja starfsári og var útkoma þess regluleg í ein 30 ár. Þessi fjölbreytni bendir til þess að mikil þörf hafi verið fyrir stofnun félagsins. Búnaðarfélag hafði verið stofnað rúmum 20 árum áður, en það starfaði á ólíku sviði. Á árum áður en Ungmennafélagið var stofnað höfðu verið stofnuð svipuð félög, Unglingafélag Eystritungunnar og Málfundafélag Ytritungunnar, og voru þau í raun sameinuð í Ungmennafélaginu. Um svipað leyti var Glímufélagið Teitur við líði, en starfsemi þess lagðist fljótlega niður. Ungmennafélagið var því eitt um starf að almennum félagsmálum fyrstu áratugi þess. Kvenfélagið var svo stofnað 1929, stúkan Bláfell starfaði um tíma, Hestamannafélagið Logi kom svo 1959 og á síðasta áratug Lionsklúbburinn Geysir. Öll þessi félög vinna að einhverju leyti að sömu málefnum og Ungmennafélgið í upphafi. Líklega má segja að rökin fyrir stofnun þeirra hafi að einhverju leyti verið sú að einstakir hópar hafa viljað leggja meiri áherslu á ýmsa þætti félagsstarfs en gert var í Ungmennafélaginu. Þau eru einnig öll afkvæmi síns tíma á þann hátt að hliðstæð félög voru stofnuð víða um land um svipað leyti. Vert er að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort kraftar til félagsstarfs séu of dreifðir í ekki fjölmennara samfélagi með því að vera með svo mörg félög. Þessu getur að vísu enginn breytt með neinskonar valdboði. Allir sem eru fúsir að leggja á sig að starfa að félagsmálum þurfa að fá tækifæri til þess á þeim vettvangi sem þeir kjósa. Einu viðbrögð ungmennafélaga við einhverskonar samkeppni um félagsmenn er að gera starf félagsins áhugavert fyrir sem flesta. Allmiklar breytingar hafa orðið á starfi Ungmennafélagsins á síðustu árum. Því var skipt í deildir árið 1990. Markmiðið með þeirri breytingu var að gefa félögum betra tækifæri til að einbeita sér að sínum áhugamálum í félagsstarfinu. Ekki er annað að sjá en þessi breyting hafi þjónað sínum tilgangi. Starf deildanna hefur verið töluvert. íþróttadeildin hefur starfað af miklum þrótti, leikdeildin töluvert þegar grundvöllur hefur verið fyrir og skógræktardeildin nokkuð. Upp á síðkastið hafa verið nokkrir erfiðleikar í starfi aðalstjórnar. Um þessar mundir er verið að kippa því í lag. Vonandi tekst það. Þetta gæti þó verið viðvörun um að félagar, sem bera hag og framtíð Ungmenna- félagsins fyrir brjósti, þurfi að taka þátt félagsstarfinu. Ef til vill þarf að fá fleiri, sem hafa verulega reynslu í félagsmálum, til að taka að sér ýmis störf fyrir félagið. Ekki gengur að ætlast til að aðrir vinni verkin Ungmennafélagið er einn af traustustu hornsteinum menningarlífs í þessari sveit í fortíð, nútíð og framtíð. Enginn hefur staðið að jafn fjölbreyttu félags- og menningarlífi síðustu 85 árin, og ekki er sjáanlegt að nokkur geri það í næstu framtíð. Því ber að leggja áherslu á vöxt og viðgang þess. A. K. Litli - Bergþór 3

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.