Bændablaðið - 31.08.2004, Page 22

Bændablaðið - 31.08.2004, Page 22
22 Þriðjudagur 31. ágúst 2004 Oddur Gunnarsson, bóndi á Dagverðareyri við Eyjafjörð, er að byggja 70 kúa fjós á jörð sinni. Hann kveðst ekki hafa verið tilbúinn til þess að hætta búskap þrátt fyrir að hafa ásamt eiginkonu sinni, Gígju Snædal, rekið öflugt kúabú í nær fjóra áratugi auk þess sem áhugi sé fyrir hendi hjá dóttur sinni og tengdasyni, sem vinna við búið með þeim, að gerast aðilar að því. Oddur segir kynslóðaskipti í kúabúskapnum ekki sjálfgefin. Hátt verð á framleiðslurétti geri nýjum einstaklingum erfitt um kaup á bújörðum hvort sem þeir komi úr fjölskyldum mjólkurframleiðenda eða annars staðar að. Hann er gagnrýninn á afskipti mjólkurstöðva af viðskiptum með framleiðslurétt og einnig á íhlutun og inngrip banka í rekstur fyrirtækja, sem hann segir meðal annars hafa valdið miklum vandræðum á kjötmarkaðnum hér á landi að undanförnu. Gamla fjósið ónothæft Oddur segir grunnninn að ákvörðuninni um að ráðast í fjósbygginguna þann að fjósið á Dagverðareyri sé orðið 34 ára gamalt, hefðbundið básafjós án mjaltabáss eða aðstöðu til að koma honum fyrir. Hlaða sem byggð var við fjósið á sínum tíma hafi ekki reynst hentug fyrir skepnuhald og hugmyndir um að nýta hana sem hluta af fjósi því verið lagðar til hliðar. "Fyrir um ári komu í ljós sprungur í strengjasteyptu burðarvirki fjóssins og nánari athugun leiddi í ljós að nær allir burðarbitarnir yfir haughúsinu voru ónýtir, stálbitum og stoðum var komið fyrir undir bitununum á liðnu hausti til þess að tryggja að gólfið félli ekki niður. Af þessum ástæðum öðrum fremur var ráðist í að láta teikna nýtt 70 legubása fjós, sem gert er ráð fyrir að hýsi eingöngu mjólkurkýr. Auðvelt er að breyta tveimur þriðju hlutum eldra fjóssins, þeim hluta þess sem haughúsið er ekki undir, í rými fyrir geldar kýr og gripi í uppeldi og hugmyndin er að ráðast í þær breytingar þegar byggingu nýja fjóssins verður lokið." Oddur segir að gert sé ráð fyrir haughúsi undir legubásahluta nýja fjóssins en kveðst hafa skoðað vandlega bæði kosti þess og galla að byggja haughús undir nýja fjósið fremur en að koma mykjutanki fyrir. "Staðsetning fjóssins er með þeim hætti að erfitt hefði orðið að staðsetja tankinn út frá skipulagslegu sjónarmiði, aðeins um 90 metra frá þjóðvegi, og það var heldur ekki fýsilegur kostur að koma honum fyrir nánast á bæjarhlaðinu." Mjaltabás en ekki mjaltaþjón Aðspurður kveðst Oddur hafa ákveðið að koma svonefndum Tanden mjaltabási fyrir í fjósinu frekar en að stíga stóra skrefið til fulls, eins og hann kemst að orði og fá sér "róbot" eða mjaltaþjón. Sú tækni sé vissulega að ryðja sér til rúms hér á landi en í sínum huga séu ákveðnar spurningar sem enn sé ósvarað til dæmis um mjólkurgæði og hversu mikill vinnusparnaðurinn verði ef miðað sé við bú með einn mjaltaþjón. Eftir að hafa leitað tilboða í fjósbygginguna gerði Oddur samning við Límtré á Flúðum um burðarvirki ásamt klæðningu og við Virkni ehf. á Akureyri um að steypa haughúsið og aðra byggingavinnu. Innréttingar, loftræsting og flórsköfur koma frá Vélavali í Varmahlíð og mjaltabúnaður og fóðurbásar frá Vélaveri. Ætlunin er að sjálf byggingin rísi nú í ágúst og ef allt gengur eins og til er ætlast ætti að verða hægt að flytja í nýja fjósið í október sem Oddur segir kjörstöðu eins og málum sé háttað vegna skemmda í eldra fjósinu. Ekki tilbúinn að hætta Oddur kveðst geta spurt sjálfan sig að því hvað það eigi að þýða fyrir mann á sínum aldri, orðinn 61 árs, að fara út í þessa framkvæmd. "Ég var ekki alveg tilbúinn til þess að hætta búskap og selja fullvirðisrétt og jörð. Jörðin er mjög vel fallin til mjólkurframleiðslu, aðeins í um 12 kílómetra fjarlægð frá mjólkursamlagi og hér er kjörlendi til ræktunar og kúabúskapar, öll tún og ræktun eru samfelld, alls um 100 hektarar þótt það sé ekki allt nýtt sem tún í augnablikinu, nokkur hluti túnana er umlukinn skjólbeltum sem eru alls um þrír km að lengd og nýtast þau mjög vel sem skjól fyrir búpening og gróður." Oddur er með nokkrar spildu undir korni auk þess sem hann hefur haft fyrir fasta reglu að vinna upp og endurrækta á bilinu fimm til tíu hektara á hverju ári. Hann segir þá vinnu skila sér mjög vel, graslag verði annað, heyið kraftmeira og túnin einnig mjög slétt, sem skili sér í minna viðhaldi véla. "Ég tel að margir bændur hafi vanmetið gildi endurræktunarinnar," segir Oddur sem kveðst búinn að endurvinna mikinn hluta túnanna þrisvar og einhver stykki fjórum sinnum á nær fjögurra áratuga tímabili." Dýrt greiðslumark hindrar kynslóðaskipti Þótt Oddur hafi unnið alla starfsævi sína sem mjólkurframleiðandi hefur hann ræktað um 70 hektara skóg á landi sínu og einnig starfað mikið að félagsmálum. Hann tók þátt í starfi félagsskapar kúabænda og átti um tíma sæti í stjórn landssamtaka þeirra auk þess að starfa að sveitarstjórnarmálum um langt skeið, meðal annars sem oddviti í átta ár, fyrst Glæsibæjarhrepps og síðar Hörgárbyggðar eftir sameiningu þriggja sveitarfélaga norðan Akureyrar. Þá var hann í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga í 30 ár. Þótt hann hafi nú dregið sig að nokkru í hlé frá félagsstörfum og beint starfskröftum sínum að nýju af fullum þunga að búrekstrinum eru honum málefni landbúnaðar og landsbyggðar hugleikin sem fyrr. Hann segir að kynslóðaskipti eða aðilaskipti á jörðum sé eitt mesta áhyggjuefnið í landbúnaði nú."Þegar greiðslumarkið er komið í það verð sem raun ber vitni má segja að nánast ógerlegt sé fyrir byrjendur að festa kaup á jörð með greiðslumarki hafi þeir ekki aðgang að því á annan hátt. Ef kaup á jörð með um 150 þúsund lítra framleiðslurétti, sem ég tel algera lágmarksstærð út frá rekstrarlegum forsendum kostar greiðslumarkið eitt á bilinu 35 til 40 milljónir á núverandi markaðsverði. Ef við göngum síðan út frá því að jörðin með áhöfn, mannvirkjum og tækjabúnaði kosti sambærilega upphæð, sem ekki er óeðlileg viðmiðun, erum við að tala um allt að 70 til 80 milljón króna fjárfestingu. Framleiðsla 150 þúsund lítra af mjólk á ársgrundvelli stendur vart undir fjármagnskostnaði af þessari upphæð sé gengið út frá því að stærstur hluti fjárins sé tekin að láni. Af þessum ástæðum óttast ég að svo geti farið, og það ber aðeins á því nú þegar, að góðar bújarðir leggjast í eyði með þeim hætti að framleiðslurétturinn er seldur burt ásamt bústofni og tækjakosti og jarðirnar síðan seldar eignamönnum úr þéttbýlinu, sem sumir að minnsta kosti telja stöðutákn í að eiga jörð þótt þeir nýti hana ekki nema aðeins að litlu leyti. Ég tel að verði þróunin með þessum hætti geti það orðið varasamt fyrir landbúnaðinn og byggðirnar þegar til lengri tíma er litið." Afurðastöðvar sprengja upp kvótaverðið Oddur segir ástæðu til að velta því fyrir sér af hvaða ástæðum verðið á greiðslumarkinu sé svo hátt. "Það skýrist vissulega að einhverju leyti af meiri eftirspurn en framboði. Ég tel þó eina af ástæðum þess þá að mjólkurframleiðslusvæðin eru að keppa um framleiðsluna og takast á um þann framleiðslurétt sem er til skiptanna. Ef þessi viðskipti hefðu aðeins farið fram á milli bænda sjálfra þá hefði verðið ekki spunnist upp með þessum hætti sem við þekkjum. Ég álít að ef aðeins eitt fyrirtæki tæki á móti allri mjólkurframleiðslu í landinu þá myndi verð á greiðslumarkinu falla verulega nær samdægurs nema þá að sveitarfélögin færu að keppast um að greiða fyrir mönnum um kaup á framleiðslurétti til þess að viðhalda mjólkurframleiðslu á einstökum jörðum eða tilteknum svæðum innan þeirra." Sveitarfélög mega ekki fara í kvótaviðskipti Oddur segist ekki þekkja til þess að sveitarfélög hafi komið að viðskiptum um framleiðslurétt mjólkur en kveðst þó ekki vilja fortaka að slíkt geti hafa átt sér stað. "Öll utanaðkomandi áhrif, hvort sem þau koma frá afurðastöðvum, sveitarfélögum eða öðrum aðilum utan bændastéttarinnar leiða til hækkunar á verði framleiðsluréttarins umfram það sem verða myndi ef bændur væru eingöngu að versla sín á milli. Oddur kveðst telja mjög varhugavert fyrir sveitarfélögin að blanda sér í kvótakaup í landbúnaði. Hann segir ætíð umdeilanlegt hvort eða með hvaða hætti sveitarfélög eigi að blanda sér í almennan atvinnurekstur. Þeirra hlutverk sé að skapa atvinnulífinu og atvinnuþáttum aðlaðandi umhverfi en ekki að styrkja atvinnurekstur með beinum hætti eða gerast sjálf þátttakendur í honum nema þá til mjög skamms tíma og af sérstökum tilefnum eins og ef fyrirsjáanlegt sé að stórir atvinnurekendur hverfi á brott með tilheyrandi atvinnumissi fólks og tekjumissi viðkomandi sveitarfélags í kjölfarið. Bankar - ekki í óskyldri atvinnustarfsemi "Ég tel að það sama eigi að gilda um bankastarfsemin í landinu og sveitarfélögin að þessu leyti, þeir eigi ekki að vera í óskyldri atvinnustarfsemi," heldur Oddur áfram og segir að banna eigi bönkum og fjármálafyrirtækjum að eiga og reka fyrirtæki og það skorti ákvæði í löggjöf að því leyti. "Í sjálfu sér er ekki hægt að koma í veg fyrir að lánastofnanir leysi fyrirtæki til sín við gjaldþrot en þær verða að koma þeim í hendur nýrra rekstraraðila innan tiltekins tíma sé á annað borð um rekstrarhæfa starfsemi að ræða. Þetta hefur snert landbúnaðinn að undanförnu og skapað mikinn vanda á kjötmarkaðnum. Bankar hafa verið að reka fyrirtæki í kjúklinga- og svínarækt með tilheyrandi offramboði og verðlækkunum, jafnvel langt niður fyrir framleiðslukostnað sem erfitt er að ná upp að nýju. Bankarnir eru líka komnir inn á alvarlega braut þegar þeir eru farnir að reka fyrirtæki í samkeppni við viðskiptavini sína með allar upplýsingar um rekstur þeirra inni á borði hjá sér. Þetta hefur gerst í kjötframleiðslunni og gengur alls ekki upp." Oddur kveðst ekki vita til að þessi staða hafi komið upp í mjólkurframleiðslunni, að banki hafi beinlínis rekið kúabú. Hættan sé hins vegar fyrir hendi á meðan þessi þróun er ekki stöðvuð með lagaumgjörð. Oddur segir að ástandið á kjötmarkaðnum hafi ekki snert sig eða sinn búrekstur með beinum hætti þótt það hafi augljóslega haft áhrif á framleiðslu á nautgripakjöti. Hann kveðst aldrei hafa stundað kjötframleiðslu að neinu ráði heldur lagt megináherslu á mjólkurframleiðsluna enda ekki haft húsakost fyrir geldneyti umfram það sem þurft hafi vegna nauðsynlegs uppeldis. Þó falli alltaf til nokkuð af kjöti frá mjólkurframleiðendum. Kýr verði ekki eins gamlar og áður. Viðkoman sé örari og kjötið af þeim því allt annað hráefni til matargerðar en af eldri gripum. Kjöt af fyrsta kálfs kvígum gefi til dæmis nautakjöti ekkert eftir hvað bragð og önnur gæði varðar. Oddur á ekki von á að fara út í kjötframleiðslu í meira mæli en verið hefur þrátt fyrir fjósbyggingu og aukið rými. Nýja fjósið er fyrst og fremst hannað fyrir mjólkurframleiðslu eins og það eldra. - ÞI Ekki tilbúinn að hætta

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.