Bændablaðið - 11.02.2010, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 11.02.2010, Blaðsíða 7
7 Bændablaðið | fimmtudagur 11. febrúar 2010 Kæru lesendur! Eins og kom inná við gerð fyrsta þáttar míns, óskaði ég eftir efni frá ykkur lesendum. Nokkurt efni hefur mér borist, en hvergi þó nægjanlegt. Laust trúi ég, að ekki fáist fólk við kveðskap víðar en á Norðurlandi. Hvað með Vesturland og Vestfirði, eða Austur- og Suðurland. Bænarefni þessi sendi ég ykkur lesendum í von um viðbrögð, svo auðga megi efni þáttarins. Þorra blóta flestir þessar mundir, og því tilvalið að hafa nokkurn brennivínsblæ á vísum þessa þáttar. Til eru dæmi þess, að drykkjumenn séu gleðigjafar. Ólína Jónasdóttir orti um eitt slíkt tilfelli: Vínið hrindir frá þér frið, fremd í skyndi dvínar. Samt er yndi að sitja við sálarlindir þínar. Þormóður Pálsson frá Njáls stöð- um yrkir lofsamlega um tárið: Vínið skýrir deiglu dýra, deyfðin flýr af brá. Ástir býr og elur hýra ævintýra þrá. Kristján frá Djúpalæk sór þess eið, í gamni þó, að bragða ekki vín í tiltekinn tíma. Innan fárra daga orti hann þó: Svartar nætur, sólin gránuð, samfelld þorstahlíð í fang. Sé ég lífs míns lengstan mánuð liðast áfram snigilgang. Meira að segja Hermann Jón- asson ráðherra yrkir hlýlega til Bakkusar: Ýmsir fara illa á því og skal þar að vikið, kvennafar og fyllirí flestir spara of mikið. Misjafn reynist mönnum dagurinn eftir þunga brennivínsdrykkju. Að loknum dansleik orti Páll H. Jónsson frá Mýri: Næsta dag er dásamleg dagssól þjóðir vekur, tregaþrunginn táraveg timburvagninn ekur. Fáir hafa ort Bakkusi betur en Haraldur frá Kambi í Deildardal: Enn ég bragða brennivín bestu heimsins gæði hiklaust þó að heilsa mín, hangi á veikum þræði. Bjarnþór Þórðarson frá Borg ar- nesi, kom eitt sinn öli hresstur til vinkonu sinnar. Tók hún hon um fremur fálega. Bjarnþór orti: Fyrrum sæta seimaskorðin sálu vermdi og kætti lund. Nú er hin sama Eygló orðin eins og snúið roð í hund. Sveinn Hannesson frá Elivog um orti vísur til minningar um hinn fræga kvæðamann Árna Frímann Árnason, er kallaður var gersemi. Þar er að finna þessa vísu: Þó við byndi Bakkus ást bæri lyndisgalla, heilsteypt mynd af manni sást milli syndafalla. Einhverju sinni sem oftar, var Jóhannes á Gunnarsstöðum vínlaus. Hringdi hann þá í mig, og bað mig bjarga sér. Fátt veit ég sárara að sjá, en vin minn vínlaus- an. Launaði hann fyrir sig með þessari vísu: Árni í Felli yrkja kann þó ekki á honum beri, ef sett er ögn af sykri í hann og svolítið af geri. En vott af samvisku mátti þó greina í Jóhannesi, þegar hann í jólakorti stuttu síðar sendi mér þessar vísur, fullur iðrunar: Oft mig hefur áður meir andagiftin snortið, þegar niður læt ég leir leka á jólakortið. Ennþá hvílir algjör smán yfir verkum mínum, frá því að ég flöskulán fékk úr sjóði þínum. Ekkert hef ég ennþá greitt, og það verður snúið, því flöskunni hef ég alveg eytt og innihaldið búið. Sumarið eftir, kom ég í Gunn- arsstaði. Hugðist ég heilsa upp á Jóhannes. Var hann þá af bæ, sennilega þótt óþægilegt að mæta mér eftir það sem á undan gekk. Grimmúðlegir smalahundar vörðu bæinn, og gekk ég frá að sinni. Síðar, er Jóhannes fregnaði af ferð minni, sendi hann þessa vísu: Við fólkið Árni fór á mis, flúði í einum grænum, þegar ‘ann hitti helvítis hundana á bænum. Umsjón: Árni Jónsson kotabyggd1@simnet.is Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAM Sveitarfélög landsins eru 77 tals ins þessa stundina og hefur fækkað verulega á undanförn- um áratugum. Fjöldi þeirra náði hámarki á sjötta áratug síðustu aldar þegar þau töldust vera 229. En betur má ef duga skal og Kristján Möller ráðherra sveit- arstjórnarmála hefur slegið því fram að helst þyrfti að fækka sveitarfélögum niður í um það bil 17, það sé forsenda þess að hægt sé að efla þetta stjórnsýslu- stig nægilega til þess að gera því kleift að taka við verkefnum frá ríkisvaldinu sem flestir eru sam- mála um að betra sé að sinna í nærsamfélaginu. Nú stendur yfir fundaherferð á vegum ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem reynt er með markvissum hætti að kanna hug heimamanna til þess að sameina sveitarfélög. Eins og fram hefur komið í fréttum undirrituðu ráðherra og Halldór Halldórsson formaður sambandsins yfirlýsingu sl. haust um að leita leiða til frek- ari sameiningar sveitarfélaga og er fundarherferðin liður í því starfi. Skipuð var nefnd til þess að leiða þetta starf og hefur hún haldið fundi víða um land. Einn fundurinn var haldinn í Menntaskólanum í Borgarnesi í síðustu viku og þar var blaðamaður Bændablaðsins meðal fundargesta. Sameining fyrir 2014? Aðdragandi þessa starfs voru yfir- lýsingar sem bárust frá fjórðungs- þingum Vestfjarða og Austfjarða þess efnis að áhugi væri á að sam- eina þessa fjórðunga sinn í hvort sveitarfélagið. Í umræðum um þær sameiningar kom fram sú skoðun að atkvæðagreiðslur meðal íbúa væru afar seinvirk og ómarkviss aðferð við sameiningu og að hún hefði ekki skilað þeim árangri sem þyrfti. Nú væri rétti tíminn og tæki- færið til að reyna nýjar leiðir. Ráðherrann og forysta sveit- arfélaganna í landinu ákvað að fylgja þessu eftir með nefndarskip- un og er gert ráð fyrir því að nefnd- in skili tillögum um næstu skref nú á vordögum. Þær tillögur munu væntanlega fela í sér nýja skipt- ingu landsins í sveitarfélög byggða á óskum og hugmyndum fólksins í landinu. Ætlunin er að leggja til- lögurnar fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust eða jafnvel aukaþing strax í vor ef vel gengur. Þegar sambandið hefur lagt blessun sína yfir hina nýju skipan verður lagt fram frumvarp á Alþingi næsta vetur sem gerir ráð fyrir því að sameining sveitarfélaga eigi sér stað fyrir kosningarnar 2014. Fram kom á Borgarnessfundinum að þetta starf er unnið í nánu samráði við þá sem vinna að Sóknaráætlun 20/20 um eflingu atvinnulífs og samfélags um allt land. 7.000 manns lágmark Það er ýmislegt sem rekur á eftir því að sveitarfélög stækki eða taki með öðrum hætti höndum saman um að taka að sér fleiri verkefni en nú er raunin. Fyrir liggur að næstu verkefni sem ríkið hyggst flytja til sveitarfélaga eru málefni fatlaðra sem flutt verða árið 2011 (sá flutn- ingur er raunar hafinn í tilrauna- skyni og gefst vel) og málefni aldr- aðra sem flytjast ári síðar. Næstu verkefni verða væntanlega rekstur heilsugæslu og framhaldsskóla. Það segir sig sjálft að sveitar- félög á borð við Árneshrepp á Ströndum, Akrahrepp í Skagafirði eða Skorradalshrepp í Borgarfirði axla slíkar byrðar ekki ein og út af fyrir sig. Nefndin sem nú er að störfum miðar raunar við það í störfum sínum að til þess að tak- ast á við málefni fatlaðra þurfi að mynda þjónustusvæði sem er ekki fámennara en sjö þúsund íbúar. Akranesbær er rétt undir þeim mörkum með um 6.500 íbúa. Síðasta stóra skrefið sem stig- ið var í flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga var grunnskólinn og flestir telja að það hafi verið mikið gæfuspor, skólinn hafi eflst og orðið eðlilegri partur af sam- félaginu. Sá flutningur sýndi hins vegar glöggt þann vanda sem smæð íslenskra sveitarfélaga skapar. Smærri sveitarfélög eiga mörg hver í mesta basli með rekstur skólanna og þurfa að reiða sig á framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þess að dæmið gangi upp. Á fundinum var nefnt dæmi um ónefnt sveitar- félag sem fær 62% tekna sinna úr Jöfnunarsjóði. Því var kastað fram í hálfkæringi hvort ekki væri sann- gjarnt að sjóðurinn skipaði þrjá menn af fimm í sveitarstjórn til þess að gæta hagsmuna sinna. 1, 2 eða 3 sveitarfélög? Ljóst er að umræðum á fundinum að nefndarmenn eiga úr vöndu að ráða, ætli þeir sér að finna einhvern samnefnara þeirra skoðana sem uppi eru um skipan sveitarstjórna. Í landshlutunum tveimur sem urðu tilefni átaksins, Vestfjörðum og Austfjörðum, hafa heyrst margar gagnrýnisraddir á það að steypa þeim í eina heild. Á Vestfjörðum benda menn á að ekkert vegasam- band sé stóran hluta ársins milli norður- og suðurfjarðanna og sett hefur verið fram tillaga um að skipta fjórðungnum frekar í þrennt, þriðji hlutinn yrði þá aust- anverð Barðastrandasýsla og hluti Strandasýslu, jafnvel með samruna við Dalabyggð. Á Austfjörðum kom fram hug- mynd um að hafa tvö sveitarfélög: Firðina og Héraðið. En þá kom upp vandinn með Seyðisfjörð, hvar á hann heima í slíkri skipt- ingu? Einhver benti á hvort ekki væri nærtækast fyrir Seyðfirðinga að sameinast því sveitarfélagi sem þeir væru í mestum samskiptum við, Þórshöfn í Færeyjum. Þótt það sé hugsað sem spaug vísar það þó til þess að kannski sé réttast að hugsa sig út fyrir þá kassa sem við erum vön. Til dæmis virðast gömlu kjördæmamörkin frá 1959 enn sitja ansi fast í mönnum, ekki síður en gömlu sýslumörkin. Á fundinum voru greinilega skiptar skoðanir um skiptingu Vest- ur lands en þar eru nú tíu sveitar- félög. Enginn fer í grafgötur um sjálfstæðisvilja íbúa Skorradals og svipaða sögu má segja um Helga- fellssveitina. Báðir þessir hreppar munu örugglega lenda í vandræð- um þegar ráðherra gerir alvöru úr því að flytja frumvarp um að hækka lágmarksfjölda í sveitar- félögum. Hann er nú 50 og Kristján Möller hefur varpað fram þeirri hugmynd að talan verði hækkuð í 1.000. Hann skýrði frá því að þegar hann nefndi þetta fyrir tveimur árum hefðu flestir brugðist við með því að spyrja: af hverju ekki enn fjölmennari sveitarfélög? En það eru greinilega upp ýmsar hugmyndir um sameiningu sveitar- félaga á Vesturlandi. Á fundinum var nefnd sú hugmynd að sameina allan landshlutann í eitt sveitar- félög, öðrum leist betur á að skipta honum í tvennt, þrennt eða jafnvel fleiri hluta. Tvískipting gæti verið þannig að hin gamla Borgarfjarðar- og Mýrasýsla yrði að einu sveitar- félagi og Snæfellsnes og Dalir að öðru (nema Dalamenn horfi frekar til norðurs). Þetta mun væntanlega skýrast þegar nefndin leggur fram tillögur sínar. Reynslusögur af Snæfellsnesi Á fundinum flutti Kristinn Jónas- son bæjarstjóri í Snæfellsbæ erindi um reynsluna af sameiningu á utan- verðu Snæfellsnesi sem átti sér stað árið 1994. Hann var áægður með árangurinn en leyndi því ekki að ýmislegt hefði komið upp á sem menn hefðu orðið að takast á við og leysa úr. Það sem vakti athygli undirrit- aðs í máli Kristins var það sem hann sagði um loforð sem gefin væru í aðdraganda sameiningar. Bað hann sveitarstjórnarmenn ein- dregið um að vara sig á að lofa því að þetta eða hitt héldist óbreytt eftir sameiningu. – Landslagið breyt- ist svo mikið eftir sameiningu, öll vinnu brögð og áherslur. Réttast væri að líta á svæðið sem á að sameina sem ónumið land þar sem engin stjórnsýsla er fyrir hendi og spyrja sig hvernig maður myndi skipuleggja þetta svæði ef sú væri raunin, sagði hann. Kristinn sagði líka að erfitt væri að veita sömu þjónustu um allt sveitarfélagið. Tók hann sem dæmi snjómokstur, hann hæfist alltaf á Ólafsvík af þeirri einföldu ástæðu að þar væri áhaldahúsið og tækin. Þjónustan yrði óhjákvæmilega allt- af minni í dreifbýlinu. Hins vegar hefði stjórnsýslan batnað mikið við sameininguna. Fagfólki hefur fjölgað og þjónustan við íbúana aukist. Svo merkilega vildi til að eina þjónustan sem hefði verið dregið úr í sveitarfélaginu væri sú sem ríkið stæði að: póst- urinn, heilsugæslan og Landsbank- inn. Líka sameinað í höfuðborginni Eins og áður sagði voru skoð- anir skiptar meðal fundarmanna um hvernig bæri að skipa sveitarstjórn- um á Vesturlandi. Flestir þeirra sem tóku til máls að loknum framsögu- erindum voru sveitarstjórnarmenn og þeir skutu sumir hverjir föstum skotum hver á aðra. Sveinbjörn Eyjólfsson í Borg ar- byggð skammaði til dæmis kollega sína í sveitarstjórnum fyrir skort á samstöðu. Eina leiðin til að efla sveitarstjórnirnar væri að stækka þær en þegar það bæri á góma væri allt of algengt að sveitarstjórnar- menn legðust í vörn fyrir sérhags- muni en fórnuðu því sem mik- ilvægara væri. Kristján Möller hélt lokaræð- una og sagði meðal annars að nú væri brýnni ástæða en oft áður til þess að sameina sveitarfélög og gera rekstur þeirra hagkvæmari og skilvirkari. Okkur bæri að fara betur með peninga þegar minna væri til af þeim. Og hann huggaði fundarmenn með því að taka fram að vissulega væri til umræðu að sameina sveitarfélög á höfuðborg- arsvæðinu. Þar þyrfti þó að hyggja að því að búa ekki til eitt risastórt sveitarfélag sem bæri höfuð og herðar yfir öll önnur. –ÞH Verða sveitarfélögin orðin 17 árið 2014? Fundaherferð ráðuneytis sveitarstjórnarmála hefur það markmið að hlusta eftir vilja fólksins og áhuga á sameiningu sveitarfélaga – eina leiðin til að styrkja stöðu þeirra, segir ráðherra og margir taka undir Frá fundinum í Borgarnesi. Fremstur til hægri er Flosi Eiríksson formaður nefndar um sameiningu sveitarfélaga. Mynd | Skessuhorn/hb

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.