Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 12
12 Bændablaðið | fimmtudagur 24. mars 2011
Utan úr heimi
Nýverið var haldið árlegt fagþing
nautgriparæktarinnar í Danmörku
en þingið, sem á dönsku kall-
ast „Kvægkongress“, var haldið
í bænum Herning á Jótlandi. Á
fagþinginu, sem var opið öllu
áhugafólki um nautgriparækt, voru
tekin fyrir bæði pólitísk og fagleg
málefni nautgriparæktarinnar og
voru haldnar margar samhliða
málstofur þá tvo daga sem þingið
stóð. Meðfylgjandi er síðari hluti
umfjöllunar um þessa ráðstefnu.
Heilbrigði og kynbætur
Í þessari málstofu voru flutt afar
mörg fróðleg erindi en að mati
undirritaðs stóðu þó tvö upp úr.
Annað fjallaði um þær aðferðir
sem beita má til þess að hlúa betur
að hinni verðandi mjólkurkú með
því að sinna smákálfinum vel og
var þar fullyrt að með því að leggja
meira á sig við kvíguna á fyrstu
dögum ævinnar sé hægt að uppskera
1.000 lítra í auknum meðalafurðum!
Skýringar á þessu liggja fyrst og
fremst í réttri fóðrun kálfanna
strax frá fyrsta degi, sér í lagi var
bent á mikilvægi þess að tryggja
kálfinum bæði góðan brodd (með
miklu magni mótefna – mælt með
flotmæli) og nóg af honum! Full
ástæða er til þess að hvetja bændur
og ráðunauta til að kynna sér þetta
erindi á heimasíðu fagþingsins (sjá
í greinarlok).
Nýtingarmöguleikar
á kyngreindu sæði
Hitt erindið var einkar áhugavert
og fjallaði um nýtingarmöguleika
á kyngreindu sæði við kjötfram-
leiðslu. Danskir ráðunautar leggja
sérstaka áherslu á að sæða fyrst og
fremst kvígur með hinu kyngreinda
sæði og tryggja þannig stutt kyn-
slóðabil. Á móti hinum fæddu
kvígukálfum (90% öryggi á kyni)
er svo sett upp ræktunaráætlun fyrir
hinar slakari kýr og þær þá sæddar
með holdanautasæði, jafnvel einnig
kyngreindu svo nokkuð tryggt sé að
nautkálfar fæðist eftir þær sæðingar.
Með þessu móti tryggja búin sér
bæði öflugar erfðaframfarir í mjólk-
urframleiðslu og hámarka nýtingu
burðanna á búinu í heild. Þessi
kyngreiningartækni er í dag komin
á það stig að möguleikarnir við
skipulag ræktunar hafa stóraukist
og dagljóst að þeir kúabændur sem
tileinka sér notkunarmöguleikana til
fullnustu geta náð miklum árangri.
Fóðrun
Í málstofunni um fóðrun var að
þessu sinni lögð nokkur áhersla á
nýtingu á grasi, bæði sem votheyi
og til beitar. Danir leggja núna
sérstaka áherslu í ráðgjöf sinni á
heimaframleiðslu á próteini, s.s.
með notkun belgjurta með grasi,
þar sem hún hefur jákvæð áhrif á
próteininnihaldið í fóðrinu og fyrir
vikið má spara kaup á dýru próteini í
fóðurblöndum. Vandamálið er hins-
vegar ójafnvægi í vaxtarhraðanum
þar sem belgjurtirnar fara svo hægt
af stað á vorin. Í tveimur af annars
mörgum fróðlegum erindum voru
þessi vandamál skoðuð sérstaklega
svo og leiðir til þess að ná hámarks
árangri. Helstu niðurstöðurnar
sýna að bændur geti náð miklum
og góðum árangri með heimafram-
leiðslu á próteini, en vanda þurfi vel
til verka. Svo virðist sem rauðsmári
sé heppilegastur fyrir hin fjölbreyttu
skilyrði sem eru í Danmörku, auk
þess sem hann „fyrirgefur“ heldur
meiri ónákvæmni í vinnubrögðum.
Nautakjötsframleiðsla
Undanfarin ár hefur nautakjöts-
framleiðsla í Danmörku verið styrkt
með sk. gripagreiðslum en frá og
með árinu 2012 breytast styrk-
irnir verulega og því fylgir bæði
óvissa og óöryggi fyrir bændurna.
Í yfirgripsmiklu erindi um fram-
tíðarmöguleika nautakjötsfram-
leiðslunnar kom fram að danski
markaðurinn tekur við u.þ.b. 40%
nautakjötsframleiðslunnar, nærri
30% eru flutt út til Þýskalands og
um 8% til Ítalíu. Önnur lönd flytja
minna inn af dönsku nautakjöti.
Þar sem um 60% framleiðslunnar
fara til útflutnings eru bændur
áhyggjufullir vegna fyrirhugaðra
breytinga og var því lögð áhersla
á að varpa sýn á framtíðina í fram-
leiðslunni. Svarið við óvissunni er
sókn á heimamarkað, sem skilar
hærra verði en erlendir markaðir,
en svigrúmið er til staðar þar sem
mikið er flutt inn af nautakjöti
frá bæði Þýskalandi og Hollandi.
Sláturiðnaðurinn leggur nú mikla
áherslu á að tryggja vitund neyt-
enda um dönsk vörumerki í nauta-
kjöti og framundan er mikið mark-
aðsátak, í samstarfi við danskar
afurðastöðvar í mjólkuriðnaði, þar
sem þessi vörumerki verða kynnt
á mjólkurfernum.
Undanfararnir
Þessi málstofa var einna áhuga-
verðust, þó ekki væri fyrir aðrar
sakir en að þarna voru á ferð fjórir
kúabændur sem allir flokkast sem
undanfarar í þeim skilningi að þeir
eru í fararbroddi varðandi ýmsar
nýjungar og rekstur búa sinna,
hver á sinn hátt. Einn bóndinn
sagði frá rekstri sínum með 400
Jersey-kýr sem hann hefur allar
geldar á sama tíma, í 6 vikur, en
hann rekur bú sitt skv. nýsjálenskri
mjólkurframleiðslustefnu. Annar,
sem er með stórt kúabú og á hlut
í öðru ásamt svínabúi í Rússlandi,
sagði frá reynslu sinni og þeirri
skoðun að sá sem gerir bara eins
og hann er vanur, muni aldrei ná
hinum besta árangri sem völ er á!
Sá þriðji ræddi um áherslur sínar
við stjórnun á mannskap, en hann
hefur að jafnaði þrjá verknámsnem-
endur hjá sér. Fjórði bóndinn sem
sagði frá reynslu sinni er með líf-
rænt kúabú með 140 kúm og hefur
náð eftirtektarverðum árangri í bæði
fóðurframleiðslu, beitarstjórnun og
með afurðir (>10.000 kg orkuleið-
rétt mjólk).
Framangreind samantekt er ein-
ungist örstutt yfirlit um hluta af
fjölmörgum erindum sem voru flutt
á fagþinginu, en hægt er að skoða
glærur flestra erinda á heimasíðu
fagþingsins:
http://www.landbrugsinfo.dk/
Kvaeg/Dansk-Kvaeg-kongres/
Sider/Startside.aspx
Snorri Sigurðsson
Auðlindadeild
Landbúnaðarháskóla Íslands
Frá fagþingi nautgriparæktarinnar
í Danmörku – Seinni hluti
Hlífðarföt og
öryggisbúnaður
fyrir fjórhjól, mótorhjól og vélsle›a
Borgartún 36
105 Reykjavík
588 9747
www.vdo.is
HLÍFÐARFÖT
AGV HJÁLMUR
SIXSIONE BRYNJA
Nýtt, hollenskt fjós í Akbraut í Holtum:
Glæsilegt básafjós með
mjaltabás fyrir 10 kýr
„Erum í skýjunum með nýja fjósið,“ segir Daníel Magnússon kúabóndi
Daníel Magnússon og Anna Júlía
Helgadóttir í Akbraut í Holtum
hafa tekið í notkun nýtt og
glæsilegt 740 fermetra básafjós
með mjaltagryfju fyrir 10 kýr.
Húsið er hollenskt og reist af
Landstólpa.
Kýrnar fóru fyrst inn í fjósið
8. mars og hefur gengið með þær
eins og í sögu síðan. Í fjósinu eru
32 básar, 15 legubásar, kálfastía,
sjúkrastía og fleira, auk góðrar
vinnuaðstöðu fyrir heygjöf.
„Við erum í skýjunum með fjós-
ið, ég hefði ekki trúað því fyrirfram
hvað þetta er mikil breyting fyrir
okkur og skepnurnar. Kúnum líður
svo vel að það heyrist varla baul í
þeim. Vinnuaðstaðan er líka frábær
svo ekki sé minnst á mjaltabásinn,
sem er með þeim fullkomnustu hér
á landi,“ sagði Daníel.
Kúabúið í Akbraut hefur verið
með nythæstu búum landsins síð-
ustu ár og vonast Daníel til að nytin
eigi eftir að verða enn betri í nýja
fjósinu.
Heildarkostnaður við fjósið
er 115 til 120 milljónir króna og
greiðir Landsvirkjun helming þeirr-
ar upphæðar vegna bóta til Daníels
vegna fyrirhugaðrar Holtavirkjunar
í landi hans. Hann segir annars
að samningurinn á milli hans og
Landsvirkjunar sé trúnaðarmál.
Gamla fjósið í Akbraut var frá
um 1950 og löngu orðið úrelt. Í nýja
fjósinu eru nú 27 mjólkandi kýr en á
búinu er 105 þúsund lítra mjólkur-
kvóti. Samhliða nýja fjósinu létu
Daníel og Anna Júlía byggja nýtt
íbúðarhús fyrir sig frá SG húsum,
sem þau fluttu inn í desember sl.
/MHH
Anna Júlía Helagdóttir smellti kossi á sinn mann og óskaði honum til
hamingju með nýja fjósið, sem hann hefur látið sig dreyma um í 25 ár.
Daníel og Anna Júlía í nýja mjaltabásnum, sem þau gefa sína bestu einkunn. Mjaltakerið er af gerðinni SAC og
kemur frá Jötni Vélum á Selfossi. Mynd | HMM
Svona lítur nýja fjósið í Akbraut út, 740 fermetra hús.