Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 10
10 Bændablaðið | fimmtudagur 24. mars 2011 Lífeyrissjóður bænda með góða útkomu 2010 þrátt fyrir erfitt efnahagsumhverfi: 4,1% hrein raunávöxtun Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs bænda á árinu 2010 nam 4,1% og hrein eign sjóðsins er 22,6 millj- arðar króna í lok árs 2010. Hrein eign til greiðslu lífeyris hækkar um 4,3% en Lífeyrissjóður bænda er einn fárra sjóða, sem ekki hefur skert réttindi sjóðfélaga sinna eftir bankahrunið. Útkoma ársins 2010 eykur bjartsýni um að ná megi jafnvægi í tryggingafræðilegri stöðu innan fárra ára að mati Ólafs K. Ólafs, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs bænda. Sjóðurinn hefur nú til margra ára fylgt varfærinni fjár- festingarstefnu og mikil gæði eru í eignasafni sjóðsins. Ólafur segir að um framtíðina sé hins vegar erfitt að spá og velti á miklu að áfram verði unnt að ávaxta fjármuni með ásættanlegri ávöxtun og lágmarksáhættu. Hrein raunávöxtun 4,1% Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 22.620 milljónum kr. (m.kr.) í árs- lok 2010 og hækkaði um 4,3% frá fyrra ári. Nafnávöxtun var 7,1% og raunávöxtun nam 4,4%. Hrein raunávöxtun nam 4,1% á árinu 2010 en hún var 0,6% 2009. Við uppgjörið er venju samkvæmt stuðst við kaupkröfu en hrein raunávöxtun miðuð við markaðs- kröfu í lok ársins 2010 reyndist vera um 8%. Það endurspeglar gæði í eignasafni sjóðsins. Lífeyrisréttindi sjóðsins eru verðtryggð og hafa því hækkað í takt við hækkun vísitölu neysluverðs. Fjöldi sjóðfélaga, iðgjöld og lífeyrisgreiðslur Á árinu 2010 greiddu 2.822 sjóðfélagar 151 m.kr. iðgjöld til Lífeyrissjóðs bænda, sem er 6,1% aukning frá fyrra ári. Heildariðgjaldatekjur námu 509 m.kr., sem er 0,7% hækkun frá fyrra ári. Heildarlífeyrisgreiðslur námu 1.044 m.kr. til 3.507 lífeyrisþega, sem er 5,5% hækkun greiðslna frá árinu 2009. Lífeyrissjóðs bænda starfar samkvæmt lögum nr. 12/1999 um Lífeyrissjóð bænda og lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu líf- eyrisréttinda og starfsemi lífeyris- sjóða. Nánari reglur um framkvæmd laganna eru í samþykktum sjóðsins. Rekstrarkostnaður 0,2% af eignum Á árinu 2010 námu rekstrar- kostnaður og fjárfestingargjöld 93 m.kr. en voru 98,7 m.kr. árið áður, sem 7,8% lækkun milli ára. Rekstrarkostnaður nam 49 m.kr. eða 0,2% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Launakostnaður sjóðsins, þ.m.t. stjórnar og endurskoðunar- nefndar, nam 42,7 m.kr. árið 2010 og skiptist þannig að heildarfjárhæð launa voru 34,6 m.kr. og launatengd gjöld 8,1 m.kr. Stöðugildi voru 4,6 á árinu 2010. Gjaldmiðlasamningar Enn er óvissa hvernig gjaldmiðla- samningar verða gerðir upp við hina föllnu banka. Í ársreikningnum eru gjaldmiðlasamningar gerðir upp miðað við gengisvísitöluna 175. Árið 2009 var miðað við vísitölu á gjalddaga samninganna. Þessar breytingar leiða til þess að staða samninganna batnar um 359,4 m.kr. milli ára. Eignastýring hjá tveimur fyrirtækjum Rúm 90% af eignum sjóðsins eru í fjárvörslu hjá tveimur aðilum, annars vegar Jöklum-Verðbréfum og hins vegar hjá Eignastýringu Arion banka. Hlutverk sjóðsins er því eftirlit með starfsemi fjár- vörsluaðila, bæði að því er varðar fjárfestingarstefnu og einstakar fjár- festingar. Áhersla hefur verið lögð á að reglur um fjárfestingar þurfi í ríkari mæli að ná yfir gæði fjár- festinga og gagnsæi í viðskiptum. Mikilvægi fjárfestingarstefnunnar „Fjárfestingarstefnan og árangur fjárfestinga hefur mikil áhrif á hvort lífeyrissjóður gæti þurft að breyta réttindum, hvort heldur auka þau eða skerða, og skiptir því sjóðfélaga miklu máli. Fjárfestingarstefna ákvarðar jafnframt þá áhættu og mögulegar sveiflur í ávöxtun. Reynslan hefur sýnt að virk stýring innan verðbréfa- flokka skiptir litlu máli miðað við ákvörðun um hlutföll eignaflokka sem ákveðin eru í fjárfestingar- stefnu. Við mat fjárfestingarstefnunnar þarf lífeyrissjóðurinn að taka afstöðu til grundvallarspurningar hvert samspil áhættu og ávöxtunar sjóðsins eigi að vera. Svarið felst m.a. í aldurssamsetningu sjóð- félaga, markmiðum og áhættuþoli sjóðsins. Í ríkari mæli er horft til skuldbindinga sjóðsins og reynt að lágmarka líkur á því að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga. Þar skiptir miklu máli líftími skuldbindinga, þ.e. meðalaldur sjóðfélaga. Því er mikilvægt að fjárfestingarstefnan sé byggð á samspili eigna og skuld- bindinga, sem endurspegla réttindi sjóðfélaga í framtíðinni. Fjárfestingarstefnan veitir svigrúm til að draga enn frekar úr fjárfestingaráhættu þar sem vægi ríkistryggðra bréfa hefur verið aukið. Hins vegar verður lífeyris- sjóðurinn að nýta vel þau tækifæri sem bjóðast til aukinnar ávöxtunar,“ segir Ólafur. Tryggingafræðileg staða batnar Tryggingafræðileg athugun fyrir Lífeyrissjóð bænda 2010 sýndi 8,8% halla á áföllnum skuldbind- ingum, var 10,4% 2009, og 11,9% á heildarskuldbindingum, var 13,3% 2009. Staðan batnaði því miðað við fyrra ár og er innan þeirra marka sem lög kveða á um. Nýjar töflur 2009 um lífslíkur þar sem gert er ráð fyrir lengri meðalævi en áður, hækkuðu skuldbindingar sjóðsins og höfðu neikvæð áhrif á trygg- ingafræðilega stöðu. Engar skerðingar hjá Lífeyrissjóði bænda Lífeyrissjóður bænda er einn fárra sjóða, sem ekki hefur skert réttindi sjóðfélaga sinna. Á árinu 2010 var Lífeyrissjóður bænda einn fjögurra almennu sjóðanna sem ekki skertu réttindi sjóðfélaga sinna. „Útkoma ársins 2010 eykur bjartsýni um að ná megi jafnvægi í tryggingafræðilegri stöðu innan fárra ára. Lífeyrissjóðurinn hefur nú til margra ára fylgt varfærinni fjárfestingarstefnu og mikil gæði eru í eignasafni sjóðsins. Um fram- tíðina er hins vegar erfitt að spá og veltur á miklu að áfram verði unnt að ávaxta fjármuni með ásættan- legri ávöxtun og lágmarks áhættu.“ Um mótframlag bænda Lög um sjóðinn kveða á um að mótframlag á móti iðgjöldum bænda skuli greitt af sjóðfélögum nema samið sé um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Ríkissjóður hefur greitt framlag til sjóðsins vegna sauðfjár- og mjólkurframleiðslu. Framlag ríkisins á fjárlögum ársins 2010 var lækkað um 45% frá árinu 2009 eða um 147 m.kr. Til við- bótar komu síðan 294 m.kr. á fjár- aukalögum 2010 þar sem fram kemur að með þessari viðbótarfjárveitingu muni framlög ríkissjóðs til sjóðsins falla niður frá og með árinu 2011. Af 8% mótframlagi sjálfstætt starfandi bænda, mun helmingur þess verða greiddur með framan- greindu framlagi frá og með árs- byrjun 2011 á meðan það endist. Eftir það munu bændur greiða fullt mótframlag eins og aðrir atvinnu- rekendur. Ólafur segir að í umræðu á árinu 2010 hafi komið fram sá misskiln- ingur að lækkun á mótframlags- greiðslum úr ríkissjóði leiddi til þess að skerða þyrfti greiðslur til sjóðfélaga. „Þetta er einfaldlega rangt. Skylduaðild allra að lífeyrissjóði og 8% vinnuveitandaframlag er lögbundið og skiptir þá engu hvort menn starfa sjálfstætt eða hver greiðir mótframlagið. Falli greiðslan úr ríkissjóði niður þurfa bændur einfaldlega sjálfir að greiða 8% hlutann eins og aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur. Málið er því ekki lífeyrismál heldur hreint kjaramál. Það hefur hins vegar ekk- ert með lífeyrisréttindi að gera.“ Sjóðfélagalán, þrjár tegundir lána Sjóðfélagar eiga rétt á lánum úr sjóðnum í samræmi við veðmörk eigna, að hámarki 25 m.kr. til allt að 40 ára. Heildarfjárhæð útistandandi lána var 1.623 m.kr. í lok árs 2010, jókst um 11,3% á árinu. Allt að 10 milljónir óverðtryggðar til fimm ára Sjóðurinn hefur í mars 2011 ákveð- ið að auka lánamöguleika sjóð- félaga sinna með því að bjóða upp á óverðtryggð lán til fimm ára. Hámarkslánsfjárhæð er 10 m.kr. Vextir lánanna taka mið af vöxtum óverðtryggðra lána sem Seðlabanki Íslands birtir, nú 5,25%, auk álags sem ákveðið er af stjórn sjóðsins, nú þrjú prósentustig. Í mars verða vextir lánanna því 8,25%. Sjóðurinn veitir jafnframt verð- tryggð lán til allt að 40 ára með breytilegum eða föstum vöxtum. Breytilegu vextirnir eru 5% og lán með ákvæðum um fasta vexti bera 5,5% vexti. Sjá nánar heimasíðu sjóðsins www.lsb.is. Ólafur K. Ólafs, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bænda. Eins og fram hefur komið hefur Lífeyrissjóður bænda fylgt varfærinni fjárfestingarstefnu undanfarin ár. Hefur það skilað sér í því að sjóðurinn hefur ekki þurft að skerða lífeyrisréttindi eins og fjölmargir aðrir lífeyris- sjóðir í kjölfar efnahagshrunsins. „Við erum nú að uppskera af því hvað við höfum fylgt var- færinni stefnu undanfarin ár,“ segir Skúli Bjarnason, stjórnar- formaður Lífeyrissjóðs bænda sem tilnefndur er í stjórn sjóðs- ins af Hæstarétti Íslands. Hann segir að þrátt fyrir þennan góða árangur, þá sé samt erfitt að glíma við endalausa neikvæðni manna sem séu helteknir af því að vekja upp drauga fortíðar þegar nafn sjóðsins ber á góma í fjölmiðlum. Emerald Air uppvakningurinn Draugurinn sem Skúli nefnir er „Emerald draugurinn“ sem svo mætti kalla en hann á rætur að rekja í 16 ára gamlar fréttir. Sumarið 1995 bárust fregnir af tapi Lífeyrissjóðs bænda vegna lána til írska flugfélagsins Emerald Air Ltd. sem varð gjaldþrota. Leiddi það til brotthvarfs þáverandi fram- kvæmdastjóra lífeyrissjóðsins úr starfi og málshöfðunar gegn honum. Um 97 milljónir króna höfðu þá verið lánaðar til írska félagsins í tengslum við eignar- haldsfélagið Activa sem nokkrir íslenskir aðilar stofnuðu 1994. Var LSB jafnframt stofnhluthafi í Activa. Framkvæmdastjóri LSB var þá kjörinn stjórnarformaður Activa og var síðan kosinn inn í stjórn Emerald Air við kaup Íslendinganna í félaginu. Í gögnum Héraðsdóms Reykjavíkur frá þeim tíma kemur fram að umræddar lánveitingar hafi átt sér stað án samþykkis og vitneskju þáverandi stjórnar líf- eyrissjóðsins. Ólíðandi „Það er ólíðandi að þetta mál skuli stöðugt vera notað til að sverta sjóðinn og nú síðast var þessu haldið við af Guðmundi Ólafssyni, sem hefur ekki bara verið kynntur til sögunnar sem hagfræðingur heldur einnig sem hagspekingur. Hann hefur talað um þetta sem ljótasta dæmið í sögu lífeyrissjóðanna. Þegar þetta var gert upp á sínum tíma reyndist það hins vegar vera um eitt prósent af eignum sjóðsins. Beri svo hver sem er það saman við alla skandalana sem dunið hafa yfir fjölmarga aðra lífeyrissjóði, sem hafa ekki bara tapað milljörðum á undanförnum árum heldur millj- arðatugum. Það er því óþolandi, þegar sannarlega er verið að fara gætilega í rekstri og sýna góðan árangur, að menn þurfti endalaust að sitja undir dylgjum um þetta sextán ára gamla mál,“ segir Skúli Bjarnason. /HKr. Uppvakning á 16 ára gömlum draug úr fortíð Lífeyrissjóðs bænda: Ólíðandi málflutningur segir stjórnarformaður Skúli Bjarnason, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs bænda.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.