Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 24.03.2011, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | fimmtudagur 24. mars 2011 Það fagsvið sem, ásamt erfða- tækninni, hefur aukist langmest að umfangi innan búfjárkynbótanna er rannsóknir sem tengjast mögu- leikum þess að beita erfðafræði í baráttu við búfjársjúkdóma. Því voru umfangsmiklir fundir um þessi efni á ráðstefnunni í Leipzig á síðastliðnu hausti og margt veru- lega áhugavert sem þar var borið á borð. Ástæðan fyrir síaukinni áherslu á slíkar rannsóknir tengist m.a. því að í þjóðfélaginu er meiri og meiri áhersla lögð á heilnæmi og öryggi í framleiðslu matvæla. Neytendur gera auknar kröfur um að afurðir, sem boðnar eru á markaði, komi frá hraustu og heilbrigðu búfé. Slíkir framleiðsluhættir skipta framleiðsl- una sífellt meira máli. Vandamál vegna lyfjaofnæmis er aukið áhyggjuefni, sem ýtir á að menn skoði alla möguleika til að draga úr lyfjanotkun í framleiðslunni og þar er ljóst að erfðabundin mótstaða er í sumum tilvikum áhugaverð- asti valkosturinn. Rannsóknartækni hefur víða þróast feikilega hratt á þessu sviði og þannig skapað áður óþekkta rannsóknarmöguleika. Þetta skapar að sjálfsögðu feikilega mikla nýja þekkingu. Sérstaða Íslands Um sumt er sérstaða okkar Íslendinga í þessu nokkur. Hana hefur lega landsins skapað. Vegna einangrunar og fleiri þátta búa íslenskir búfjáreigendur við miklu fáskrúðugri flóru sjúkdóma hjá búfé sínu en stéttarbræður þeirra í öðrum löndum. Reynslan hefur kennt okkur að mótstaða íslensks búfjár er lítil gagnvart fjölmörgum sjúkdómum, sem það hefur ekki verið í snertingu við í aldaraðir. Það getur mögu- lega um leið verið vísbending um erfðabundna mótstöðu, sem ekki hefur byggst upp í okkar stofnum vegna einangrunar. Um þetta fengu menn dýrkeypta reynslu hjá íslensku sauðfé fyrir átta áratugum með innflutningi Karakúlfjárins og sjúkdómanna sem því fylgdu. Þá kom fram mikill munur íslenskra fjárstofna í mótstöðu gegn mæði- veiki og Halldór Pálsson gerði þá sínar merku rannsóknir á því sviði, sem eru í reynd nánast upphaf rann- sókna á erfðabundinni mótstöðu vegna búfjársjúkdóma í heiminum. Erlendis eru þær viðurkenndar sem slíkar þó að þær virðist flestum Íslendingum gleymdar. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á það vopn sem við eigum mögulega í dag í Íslenskri erfðagreiningu, sem einni öflugustu rannsóknarstofnun í heiminum á sviði mannerfðafræði. Þar hefur umfang rannsókna aukist margfalt á við flest önnur rann- sóknasvið á síðasta áratug. Hin gríðarlega þekkingarupp- bygging á sviði mannerfðafræði hlýtur á næstu árum að flæða til annarra fagsviða og er líkleg til að skapa landvinninga öðru fremur á því sviði sem hér er til umfjöllunar. Flókinn ferill Nokkrir efnisflokkar eru umfangs- mestir á þessu sviði og verður aðeins vikið að sumum þeirra hér á eftir. Einnig voru þarna mjög áberandi rannsóknir, þar sem reynt er að greina það flókna sam- spil, sem hér er oftast um að ræða. Sjúkdómasvörun er oftast flókinn ferill þar sem fjölmargir þættir grípa inn. En auk einstaklingsins, sem er annað hvort flokkaður sjúkur eða heilbrigður, er einnig oft um að ræða sjúkdómsvald sem einnig hefur sitt erfðaefni, sem getur breyst, jafnvel mun hraðar en mögulegt er að gerist hjá einstaklingunum. Hér er sama hvort um er að ræða sjúkdóma af völdum veira, baktería eða sníkju- dýra. Þar bætist við að oft er um að ræða margvíslegt samspil mis- munandi sjúkdómsvalda þar sem minni slagkraftur eins eykur rými og möguleika annars. Því vekur svar við einu þrepi í ferlinum oftar en ekki tvær eða fleiri nýjar spurn- ingar að glíma við. Ormaveiki Íslenskir bændur búa góðu heilli við færri sjúkdómatengd vandamál en margir aðrir vegna víðfeðmi fram- leiðslunnar, en eitt af stóru rann- sóknasviðunum í sjúkdómabarátt- unni er hið ákaflega breiða svið margháttaðs ormasmits. Í löndum eins og Nýja-Sjálandi og Ástralíu er þetta sívaxandi vandamál í sauð- fjárframleiðslunni. Lengi var tekist á við það með ormalyfjagjöf, en einmitt hið flókna samspil hjá sjúk- dómsvaldinum hefur leitt til þess að þeir stofnar sem sýna mótstöðu gegn lyfjunum hafa stækkað sitt umráðasvæði. Rannsóknir fyrir nokkru síðan sýndu að hjá mörgum fjárstofnum var mögulegt að finna gríðarlega mikinn breytileika í erfðamót- stöðu gegn ormasmiti. Þarna voru kynntar rannsóknir sem sneru að því að greina hvaða þættir í lífsferli sníkilsins það væru sem aukin mót- staða beindist að. Það gæti skipt öllu um hvaða árangurs væri að vænta í lengd og hvaða aðferðum skyldi beita í baráttunni. Hér birtist einnig það vandamál að til að geta valið á grunni viðbragða við smitun þarf stofninn ætíð að vera undir smitá- lagi. Slíkt er augljóslega engin ósk- astaða. Þess vegna er miklu púðri eytt í rannsóknir í leit að erfða- mörkum, sem tengjast mótstöðu. Í þeim efnum hafa engir afgerandi landvinningar enn orðið. Margt sem fram hefur komið bendir samt til að vegna hins flókna samspils sé líklegt að slík áhrif verði oft mjög staðbundin og bundin einstökum búfjárstofnum. Á ráðstefnunni kynnti hópur vís- indamanna samt hugmyndir sínar um að slíkri leit þyrfti að beina mjög breitt og meira að hinum mikla mun milli búfjárstofna. Vonin um að finna mikla áhrifavalda í þessum efnum væri ef til vill öðru fremur í einangruðum búfjárstofnum í þriðja heiminum, sem lifað hafa af mikið harðrétti. Júgurbólgan Annað, jafnvel enn umfangsmeira rannsóknasvið innan sjúkdóma- erfðafræðinnar og það sem líklega hefur sterkasta tilvísun beint til framleiðslu hér á landi, er rann- sóknir sem tengjast júgurbólgu og þá fyrst og fremst hjá mjólkurkúm. Fjölmargar rannsóknaniðurstöður á því sviði voru þarna kynntar. Í flestum löndum hefur úrval fyrir aukinni júgurhreysti verið byggt á óbeinu vali á grunni frumutölu í mjólk. Aðeins á Norðurlöndunum, þar sem fyrir hendi eru skráningar á júgurbólgu, hefur valið verið miðað beint að henni. Um möguleika á árangri á þennan hátt í baráttunni efast enginn lengur og er þar t.d. mikið vitnað til norsku úrvalstil- raunanna, sem hafa sýnt hve mikla möguleika er þarna að finna. Hinar umfangsmiklu rannsóknir víða um heim hafa sýnt að öryggi á grunni vals út frá frumutölu skilar talsvert meiri svörun en beint úrval á grunni júgurbólgu vegna talsvert hærra arfgengis frumutölumæl- inganna. Hins vegar er frumutalan aðeins óbein mæling. Það er tíðni júgurbólgunnar sem stefnt er að því að lækka og erfðafylgni júgurbólgu og frumutölu er í langflestum rann- sóknum fundin á bilinu 0,60–0,70. Vísbendingar eru einnig um að við val á grunni frumutölu kunni að verða breytingar á hvaða stofnar júgurbólgu hafi mest áhrif. Þetta tengist því að meira og meira er farið að skilgreina júgurbólguna sem feril yfir mjólkurskeiðið. Þar koma til mismunandi stofnar af sýkingu á mismunandi tímabilum. Með því að búa til margskonar nýja mælikvarða á grunni frumut- ölumælinganna hefur mönnum tekist að skilgreina betur sjúkdóma- áhættu á mismunandi tímabilum mjólkurskeiðsins og fá með ýmsum af þessum mælikvörðum örugg- ari mælingar (hærra arfgengi) en fyrir bein meðaltöl fyrir mjólkur- skeiðið eins og mest hefur verið notað. Margar slíkar rannsóknir voru kynntar þarna og ekki síður fjöldi rannsókna þar sem leitað er út frá erfðatækni að merkisvæðum (QTL) sem nota mætti við úrval gegn júgurbólgunni. Mikill fjöldi mismunandi svæða hefur fundist í ólíkum kynjum víða um heim. Hins vegar er ekki hægt að segja að tekist hafi að finna nein slík merkisvæði, sem hafi mikil og alhliða áhrif hjá flestum kynjum. Aukin þekking á hinum flókna ferli sjúkdómsins hefur þannig sannfært menn betur og betur um að líkur á að slíkt sé að finna eru hverfandi. Vegna þess hve þetta er flókinn ferill er um að ræða mikinn fjölda erfðavísa, sem flestir hafa hver og einn hverfandi áhrif við að stýra ferlunum. Skráning gripa, með eða án júgurbólgu, verður ætíð sam- safn af feikilega miklum fjölda þátta og það m.a. skýrir að hluta það sem allar rannsóknir sýna, að þegar eiginleikinn er mældur á þann hátt er arfgengi mjög lágt. Minna má á að Snorri Sigurðsson kynnti nýverið enn nýja hlið og nýtingu erfðatækninnar í júgurbólgubarátt- unni hér í blaðinu, þ.e. við grein- ingu vágestsins sjálfs, júgurbólgu- bakteríanna. Frumutalan hefur um nokkurt árabil verið notuð hér á landi sem mælikvarði á júgurhreysti í ræktun- arstarfinu. Eiginleikinn hefur ekki haft það mikið vægi að eðlilegt sé að vænta þess að sjá stórfelld áhrif þessarar ræktunar í stofninum. Auk þess hefur lengi verið safnað upp- lýsingum um júgurbólgutíðni með mjaltaathugun. Fram hafa komið örfá naut sem sýnt hafa óeðlilega háa tíðni júgurbólgu hjá dætrum sínum og hafa þau að sjálfsögðu ætíð verið fjarlægð úr ræktunar- starfinu. Aftur á móti hafa vart komið fram naut, sem sýnt hafa áberandi mikið jákvætt útslag í þessum efnum. Mitt mat er hins vegar að við höfum góðu heilli tæplega séð í íslenska kúastofninum það feikilega sterka neikvæða sam- band afkastagetu og júgurhreysti, sem þekkt er hjá mörgum erlendum kúakynjum. Riðuveikin Að síðustu skal aðeins minnt á enn eitt stórt svið, sem ég hef áður rætt um, sem er beiting arfgerðagrein- inga í baráttu við riðuveiki. Með tilkomu kúariðunnar voru í löndum EB byggð upp ótrúlega umfangs- mikil greiningarkerfi á sauðfé til að stefna að markvissum breytingum á arfgerðum príongensins, sem sýnt hafði verið fram á að hefði afger- andi áhrif á þróun riðuveikinnar hjá sauðfé. Nú, þegar veruleg reynsla er fengin á þessar aðgerðir, er for- vitnilegt að skoða hvað gerst hefur. Þarna gerði hópur franskra vísindamanna grein fyrir kerfi þeirra Frakka, sem líklega er það umfangsmesta í nokkru landi. Umfang greininganna er gífurlega mikið og geymir gagnabanki þeirra nú greiningar fyrir um 670 þúsund gripi. Þeir hafa nú nánast alveg útrýmt áhættuarfgerðinni (VRQ), sem var meginmarkmiðið. Slíkir hrútar voru um 8% árið 2002 en eru nú alveg horfnir. Meginhluti stofnsins er nú með verndandi arfgerð (ARR), en eins og margir lesendur þekkja hefur því miður ekki tekist að finna þessa arfgerð hjá íslensku sauðfé þó að hana virðist vera að finna hjá nánast öllum sauðfjárkynjum öðrum hvar sem er í heiminum. Vegna þess að betur og betur er orðið ljóst að riðuafbrigði eru fleiri og ekki sýna öll sömu svörun gagnvart príon- arfgerðunum, hafa vísindamenn nú mótað þá stefnu að ekki beri að gera stofninn arfhreinan með mót- stöðuarfgerð heldur skuli hlutlausu arfgerðinni (ARQ) einnig viðhaldið í fjárstofnunum. Þegar þessum stórfelldu áætl- unum var hleypt af stokkunum fyrir um áratug voru það öðru fremur tvö atriði sem vöktu menn til umhugs- unar. Annars vegar að mögulega væru þessar arfgerðir tengdar öðrum, að einhverju leyti mikil- vægum framleiðslueiginleikum og gætu aðgerðirnar því þannig haft varanleg áhrif á aðra mikil- væga eiginleika. Rannsóknir hafa skilað þeirri niðurstöðu að engin slík tengsl sé að finna og er það raunar alveg í takt við rannsóknir í mörgum öðrum Evrópulöndum. Hins vegar hefur komið í ljós, eins og hlaut að gerast, að tímabundið hægði á úrvalssvörun fyrir aðra eiginleika en þau áhrif eru skamm- vinn og bundin upphafsárum áætl- unarinnar. Hitt var það að þetta gæti þrengt erfðagrunn stofnsins. Þetta hafa Frakkarnir skoðað verulega mikið og ekki fundið minnstu vís- bendingar um slíkt. Útrýming áhættuarfgerðar Margir þekkja að í framhaldi af þessum ákvörðunum hjá EB var ákveðið að móta stefnu í ræktunar- starfinu hér á landi. Okkar vandamál er að vísu, eins og þegar er nefnt, að virkustu mótstöðuarfgerðina (ARR) hefur ekki tekist að finna hér á landi. Ákveðið var að stefna að útrýmingu áhættuarfgerðarinnar hér á landi með útilokun slíkra hrúta frá notkun á sæðingastöðvunum. Þessu hefur nú verið beitt í rúman hálfan áratug hér á landi og greinileg áhrif þess virðist þegar mega greina í stofninum. Þessi leið kallar hins vegar aðeins á arfgerðagreiningu á eitthvað á annað hundrað gripum á hverju ári. Sjúkdómar í búfé ræddir á ráðstefnu í Leipzig: Erfðafræði beitt í baráttu við búfjársjúkdóma Reynslan hefur kennt okkur að mótstaða íslensks búfjár er lítil gagnvart fjölmörgum sjúkdómum, sem það hefur ekki verið í snertingu við í aldaraðir. Jón Viðar Jónmundsson landsráðunautur í sauðfjárrækt Bændasamtökum Íslands jvj@bondi.is Mjólkurframleiðsla

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.