Bændablaðið - 01.03.2012, Qupperneq 22
22 Bændablaðið | fimmtudagur 1. mars 2012
Öflug ferðaþjónusta í Ríki Vatnajökuls
Ríki Vatnajökuls nær yfir
Suðausturland frá Lómagnúpi í
vestri að Hvalnesi í austri. Þetta
svæði er eitt það fallegasta og
sérstæðasta á landinu. Þar er að
finna skriðjökla sem ganga niður
á láglendið, falleg jökullón full
af ísjökum, hæsta tind og dýpsta
stöðuvatn á Íslandi, fágætar svart-
ar sandbreiður, litfögur fjöll og
djúpa dali á einu skemmtilegasta
göngusvæði landsins, fjölskrúðugt
fuglalíf, hreindýr og seli og besta
aðgengið að Vatnajökulsþjóðgarði.
Vatnajökull er einkennismerki
Austur-Skaftafellssýslu og hefur
markað líf íbúa frá upphafi byggðar.
Áður fyrr skapaði jökullinn hindr-
anir með beljandi jökulám og var sú
síðasta ekki beisluð fyrr en 1974 með
tilkomu brúar yfir Skeiðará. Núna
er Vatnajökull eitt helsta aðdráttar-
afl þessa svæðis fyrir ferðamenn og
grundvöllur þeirrar miklu uppbygg-
ingar sem hefur átt sér stað í ferða-
þjónustu og gerir Ríki Vatnajökuls
að einu fjölsóttasta og mikilvægasta
ferðaþjónustusvæði á landsbyggð-
inni.
Sérstaða í Ríki Vatnajökuls
Helsta sérstaða svæðisins er
Vatnajökull, sem er stærsti jök-
ull utan heimskautasvæðanna.
Hér er ennfremur suðursvæði
Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta
þjóðgarðs í Evrópu. Hér er einstak-
lega gott aðgengi að jökli og mikið
úrval af jöklatengdri afþreyingu.
Vatnajökull getur ennfremur af sér
krúnudjásn svæðisins, Jökulsárlón
á Breiðamerkursandi.
Jökulsárlón er einstakt náttúrufyr-
irbæri á heimsvísu og eftirminnileg-
asti áfangastaður á Íslandi á eftir Bláa
lóninu skv. könnun Ferðamálastofu
frá 2011. Siglingar á Jökulsárlóni eru
gríðarlega vinsæl afþreying og fóru
64.216 farþegar í siglingu þar árið
2010, sem er ca. tvöföldun frá árinu
2003. Árið 2011 fóru 67 þúsund
manns í slíka siglingu. Unnið hefur
verið að því að lengja opnunartíma
þjónustunnar eftir því sem veður
leyfir og var haldið áfram siglingum
út nóvember í fyrra. Forsvarsmenn
ferðaþjónustunnar við Jökulsárlón
telja varlega áætlað að um helmingur
gesta við lónið fari í siglingu, sem
þýðir að ekki færri en 134.000 manns
hafi lagt leið sína að Jökulsárlóni
árið 2011. Líklegt má þó telja að þeir
hafi verið fleiri. Jökulsárlón er eftir-
læti ljósmyndara og er mikið notað í
markaðssetningu á Íslandi sem ferða-
mannastað.
Sterkar andstæður í Ríki
Vatnajökuls eru á milli hvítra jökla
sem skera landið og svartra sanda
sem teygja sig eftir ströndinni.
Svartar sandstrendur eru fágæt sjón
og vekja mikla athygli erlendra
ferðamanna. Skeiðarársandur er
stærsti svarti jökulsandur á jörðinni.
Öflugt ferðaþjónustusvæði
Ríki Vatnajökuls var stofnað 2007
sem ferðaþjónustu-, matvæla- og
menningarklasi Suðausturlands.
Fyrirtækin sem stóðu að stofnun
klasans sáu hag í því að vinna saman
að því að gera Ríki Vatnajökuls að
einu öflugasta ferðaþjónustusvæði
Íslands.
Samstarfið birtist m.a. í miklu og
fjölbreyttu framboði af mat fram-
leiddum í héraði sem ferðamönnum
stendur til boða á veitingastöðum.
Það er mikilvægur partur af upplifun
og mælist mjög vel fyrir hjá ferða-
mönnum. Annað sem er mjög vin-
sælt meðal ferðamanna er að bragða
bjórinn Vatnajökul, sem er afrakstur
samstarfs Ríkis Vatnajökuls og Matís.
Bjórinn er bruggaður úr blóðbergi af
svæðinu og ísjökum sem eru veiddir
úr Jökulsárlóni og fluttir í Ölvisholt,
sem sér um bruggun bjórsins. Bjórinn
er aðeins seldur á veitingastöðum í
Ríki Vatnajökuls.
Árið 2010 voru 10,8% allra gisti-
nátta erlendra ferðamanna á lands-
byggðinni í Ríki Vatnajökuls. Miðað
við landið í heild voru þetta um 5,4%.
Mætti því áætla að um 5,4% af heildar-
gjaldeyristekjum vegna erlendra ferða-
manna hafi orðið til í Ríki Vatnajökuls.
Árið 2009 var heildarneysla erlendra
ferðamanna áætluð 111.906 milljarðar
króna, hlutur Ríkis Vatnajökuls í því
væri þá rúmir sex milljarðar miðað
við þessar forsendur. Þessar tölur sýna
ótvírætt mikilvægi Ríkis Vatnajökuls
sem ferðaþjónustusvæðis.
Veðurfar skapar þær aðstæður að
aðgengi til og frá Hornafirði er gott
allan ársins hring, hvort sem komið
er akandi eða fljúgandi. Svæðið
er það snjóléttasta á landinu að
Vestmannaeyjum undanskildum, og
vegir því oftast greiðfærir allt árið.
Flogið er á milli Hornafjarðar og
Reykjavíkur allt árið, sex eða sjö daga
vikunnar.
Ríki Vatnajökuls – allt árið
Ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu
hafa mörg hver bætt við sig rými eða
tækjum til að geta þjónustað fleiri
ferðamenn yfir háannatímann. Mjög
mikið er að gera hjá ferðaþjónustu-
fyrirtækjum yfir sumartímann en -
líkt og annars staðar - glíma þau við
miklar sveiflur í fjölda ferðamanna
eftir árstímum. Fyrirtækin eru með-
vituð um að forsenda uppbyggingar
ferðaþjónustu yfir veturinn er lengri
opnunartími og hafa sífellt fleiri fyrir-
tæki lengt opnunartímann eða hafa
nú opið allt árið til að byggja upp
heilsársferðaþjónustu með tryggu
framboði. Nú er fjöldi fyrirtækja í
Ríki Vatnajökuls með opið allt árið
og bætist stöðugt í hópinn.
Mynd / Þorvarður Árnason.
Mynd / Einar Rúnar Sigurðsson.
Mynd / Helga Davids.