Bændablaðið - 01.03.2012, Side 36
36 Bændablaðið | fimmtudagur 1. mars 2012
Árið 1998 greindist óvenjuleg
tegund riðu í sauðfé í Noregi,
síðar kölluð Nor98 riða, en hún
reyndist að mörgu leyti ólík hinni
hefðbundnu riðu sem lengi hefur
verið vandamál hér á landi. Þetta
nýja afbrigði riðu hefur nú fundist
í flestum löndum Evrópu, þar á
meðal Íslandi. Nor98 riðutilfellin
greinast yfirleitt í eldra fé, oft án
sjúkdómseinkenna og í flestum
tilvikum greinist bara ein kind í
hverri hjörð. Ýmislegt bendir til
að hér geti verið um sjálfsprottinn
sjúkdóm að ræða, þ.e. án utanað-
komandi smits. Hér á eftir verður
farið yfir helstu atriði sem einkenna
Nor98 riðu og hún borin saman við
hefðbundna riðu, sem til einföld-
unar er hér að jafnaði eingöngu
nefnd riða.
Sjúkdómurinn og smitefnið
Riða í kindum er smitandi tauga-
hrörnunarsjúkdómur og er einn af
svokölluðum príonsjúkdómum, en til
þeirra teljast einnig Creutzfeldt-Jakob
sjúkdómurinn í mönnum, kúariða í
nautgripum og svipaðir sjúkdómar
finnast í minkum og hjartardýrum.
Þessir sjúkdómar eru ólæknandi, með
langan meðgöngutíma og ekkert þekkt
bóluefni er til. Príonsjúkdómar eru
taldir vera af völdum smitandi pró-
teins, en eru ekki hæggengir veiru-
sjúkdómar eins og lengi var talið.
Príonpróteinið finnst á eðlilegu formi
í öllum spendýrum en við smit ræðst
príonpróteinið á umbreyttu formi á
príonprótein hýsils og breytir því í sína
mynd. Við það verður keðjuverkun og
uppsöfnun á óeðlilegu príonpróteini
í heilavef. Hið ummyndaða prótein
er einstaklega þolið og stenst t.d. öll
hefðbundin hreingerningar- og sótt-
hreinsiefni, en þolir hins vegar ekki
suðu undir þrýstingi eða meðhöndlun
með klór eða natríumhýdroxíði. Þetta
mikla þol smitefnisins er jafnframt
ástæðan fyrir langlífi þess í umhverf-
inu og gæti útskýrt sum tilfelli riðu
sem hafa greinst á bæjum þar sem
fé hefur verið skorið niður vegna
sjúkdómsins.
Príonsjúkdómar í sauðfé hafa hing-
að til eingöngu verið taldir smitandi. Í
mönnum geta þeir einnig verið erfða-
sjúkdómar af völdum stökkbreytinga
í príongeni en stór hluti tilfella sem
greinast í mönnum er af óþekktum
toga. Erfðauppbygging sauðfjár er
talin mikilvæg fyrir smitnæmi og hefur
sú vitneskja víða verið nýtt við kyn-
bætur til varnar sjúkdómnum. Vissar
arfgerðir af príongeninu eru algeng-
ari í riðufé en í heilbrigðu fé og hafa
áhættu- og verndandi arfgerðir verið
skilgreindar. Þrír staðir í príonprótein-
inu skipta mestu máli í sambandi við
smitnæmi, en komið hefur í ljós að
mikilvægi þeirra er mismunandi eftir
fjárkynjum og riðuafbrigðum. Árið
2002 var komið á skylduprófun innan
Evrópusambandsins á arfgerðum
príongensins til að kanna tíðni mis-
munandi arfgerða í mikilvægustu fjár-
kynjum hvers lands og til að skilgreina
áhættu- og verndandi arfgerðir. Mælt
er með að hvert land skipuleggi kyn-
bætur með hliðsjón af tíðni arfgerða
í hverju kyni, en almennar kröfur eru
þær að áhættuarfgerðum útrýmt og
auka skuli tíðni verndandi arfgerða.
Aukið eftirlit og næmari próf
Eins og áður segir greindist nýtt
afbrigði af riðu í Noregi 1998. Það sem
vakti athygli vísindamanna þar var
að sjúkdómseinkenni þessara tilfella
voru ekki einkennandi fyrir riðu og
ennfremur að þau sýndu annars konar
dreifingu vefjaskemmda og smitefnis
í heila. Fyrst var talið að tilfellin væru
einskorðuð við Noreg en síðar kom í
ljós að sams konar eða mjög svipuð til-
felli finnast í flestum löndum Evrópu
og víðar. Til að mynda hafa nýlega
greinst slík tilfelli á Nýja-Sjálandi og
í Ástralíu, en bæði löndin voru áður
talin laus við riðu. Athyglisvert er að
nokkur gömul riðusýni í Skotlandi
flokkast sem óhefðbundin tilfelli, sem
bendir til að þessi gerð riðu hafi verið
til lengi án þess að greinast.
Fjöldi greindra Nor98 tilfella hefur
aukist mjög frá árinu 2002, en þá var
sett á laggirnar virkt eftirlit með riðu
í Evrópu sem má rekja til ótta við
hugsanlegt kúariðusmit í sauðfé. Riða
í sauðfé var lengi vel ekki talin vanda-
mál nema í örfáum löndum en nú eru
öll lönd innan Evrópusambandsins
skyldug til að skima reglubundið fyrir
riðu í sauðfé með það fyrir augum að
útrýma sjúkdómnum. Aukið eftirlit
varð til þess að riða greindist í löndum
sem aldrei höfðu þekkt þennan sjúk-
dóm en oft var eingöngu um að ræða
tilfelli sem líktust Nor98 og reyndar
er þetta riðuafbrigði stór hluti allra
riðutilfella sem nú greinast í Evrópu.
Á sama tíma og eftirlit með riðu var
aukið komu einnig fram næmari og
hraðvirkari aðferðir, sem byggjast á
einangrun smitefnis úr heilavef og
mælingu þess með ónæmisprófi, og
tóku þær við af hefðbundinni vefj-
alitun við skimun sláturhúsasýna.
Ólík birtingarmynd Nor98 riðu
Nor98 riða finnst að jafnaði í eldri
kindum, 4ra vetra eða eldri, en þær
kindur sem greinast með riðu eru yfir-
leitt 2ja-5 vetra. Einkenni hjá Nor98
kindum, ef einhver eru til staðar, geta
verið margvísleg, svo sem tin, skert
jafnvægi og breytt hegðun. Þekkt
einkenni riðu eins og kláði, svar við
klóri og skjálfti (riða), sjást hins vegar
ekki. Vefjaskemmdir og uppsöfnun á
smitefni í kindum með Nor98 riðu
koma helst fram í litla heila og heila-
berki, en samsvarandi svæði fyrir riðu
eru mænukylfa og heilastofn. Auk
þess finnst smitefni riðu oft í eitil-
vef en það er hins vegar ekki raunin
með Nor98. Að lokum má nefna að
áhætta tengd erfðum snýst við, þ.e.
Nor98 riða finnst í kindum sem bera
arfgerðir sem áður hafa verið tengdar
við vernd gegn riðu.
Þessi gerð riðu virðist lítið eða ekk-
ert smitandi og yfirleitt finnst bara eitt
tilfelli í hverri hjörð. Svo virðist sem
líkur séu ekki meiri á að finna fleiri
jákvæðar kindur í hjörðum þar sem
hefur greinst Nor98 riða heldur en ef
tekið er tilviljanakennt úrtak úr hópi
heilbrigðra kinda. Þekktir áhættuþættir
riðu, eins og flutningur á dýrum og
náin samskipti milli dýra, virðast
heldur ekki eiga við um Nor98 riðu.
Ýmislegt bendir til að þarna geti verið
um að ræða nokkurs konar sjálfsprott-
inn sjúkdóm, þ.e. án utanaðkomandi
smits, svipað og í tilviki Creutzfeldt-
Jakob sjúkdóms í mönnum. Þess ber
þó að geta að smittilraunir hafa sýnt að
hægt er að smita dýr með Nor98 riðu
þó ýmislegt bendi til að það gerist ekki
við náttúrulegar aðstæður.
Staðan á Íslandi
Á Íslandi er staðan ólík því sem lýst
hefur verið í Evrópu hvað varðar eftir-
lit með riðu. Hér hefur verið virkt eftir-
lit með riðu í sauðfé frá 1978 þegar
settar voru á laggirnar aðgerðir til að
stemma stigu við útbreiðslu sjúkdóms-
ins. Riða er talin hafa borist til lands-
ins seint á 19. öld, útbreiðsla og tíðni
sjúkdómsins náði hins vegar hámarki
um miðjan níunda áratug síðustu aldar
en þá hafði hann breiðst út um mestallt
land. Varnargirðingar, sem reistar voru
fyrir miðja síðustu öld til útrýmingar
á mæði-visnu, urðu þess valdandi að
nokkur landsvæði sluppu við riðu.
Þetta eru Strandir, Snæfellsnes, Öræfi
og Þistilfjörður, sem enn eru riðulaus.
Síðan 1986 hefur stefna stjórnvalda
verið að útrýma sjúkdómnum og
er öllu fé fargað á bæjum þar sem
riða greinist. Eftir sótthreinsun fjár-
húsa og tvö til þrjú fjárlaus ár geta
bændur endurnýjað fjárstofn sinn,
en eingöngu með fé frá riðulausum
svæðum. Riðutilfellum hefur fækkað
mikið þótt enn hafi ekki tekist að
útrýma sjúkdómnum en undanfarið
hafa einungis greinst örfá tilfelli ár
hvert. Athyglisvert er að í sumum til-
vikum er um endurtekna riðu að ræða,
þ.e. sjúkdómurinn kemur upp aftur
eftir sótthreinsun og fjárskipti.
Nor98 greind á Íslandi
Á Tilraunastöðinni að Keldum hafa
sýni úr sláturhúsum verið skimuð fyrir
riðu frá 1978, fyrst með vefjaskoðun
en frá 2005 með elísuprófi, ofurnæmri
aðferð til að greina riðusmitefnið.
Árlega eru prófuð nokkur þúsund
heilasýni úr fullorðnu fé sem slátrað
er, auk sýna úr kindum sem sýna ein-
kenni eða eru í áhættuhópum. Þessar
rannsóknir eru gerðar í samstarfi við
Matvælastofnun sem fer með eftirlits-
skyldu með sjúkdómnum.
Notkun nýrra skimunarprófa hér á
landi hefur leitt til greiningar á nokkr-
um tilfellum af Nor98 riðu, sem hefur
nú greinst á fjórum bæjum. Fyrsta til-
fellið greindist við skimun á heilbrigðu
sláturfé haustið 2004, en næstu tvö
tilfelli greindust 2007 og 2008 í kind-
um með sjúkdómseinkenni. Síðasta
tilfellið greindist í janúar á þessu
ári við skimun á sláturhúsasýnum.
Fyrstu tvö tilfellin voru innan riðu-
svæða á Suðurlandi, þriðja tilfellið
var í Miðfjarðarhólfi, þar sem riða
hafði ekki greinst áður, en síðasta
tilfellið var á Jökuldal og tilheyrir
Héraðshólfi, sem hefur verið riðu-
laust í 15 ár. Eftir niðurskurð var
skimað fyrir riðusmitefninu í þremur
fyrstu riðuhjörðunum og fannst eitt
jákvætt sýni til viðbótar í fyrstu
hjörðinni. Skoðun arfgerða príon-
gensins sýndi að íslensku Nor98 til-
fellin báru arfgerð sem er einkenn-
andi fyrir slík afbrigði riðu, en hefur
hins vegar verið tengd þoli gagnvart
hefðbundinni riðu í íslensku fé. Sú
arfgerð sem hefur sýnt mesta vernd
gegn riðu í erlendum sauðfjárkynj-
um og notuð er til kynbóta, finnst
ekki í íslensku fé, sem gæti stafað
af einangrun íslensku sauðfjár-
stofnsins í gegnum tíðina. Íslensku
Nor98 tilfellin eru lík svipuðum til-
fellum sem finnast erlendis, bæði
hvað varðar arfgerðir príongensins
og birtingarmynd smitefnisins. Hins
vegar er sjaldgæft að finna tvö tilfelli
í sömu hjörðinni af þessari gerð riðu
eins og raunin var hér í einu tilfelli.
Það gæti verið vísbending um smit
þótt einnig gæti verið um tilviljun að
ræða, en þess ber að geta að hjörðin
var frekar stór.
Lokaorð
Nor98 riða er um margt frábrugðin
þeirri riðu sem við þekkjum og ýmis-
legt bendir til að hér geti verið um
sjálfsprottinn sjúkdóm að ræða, þ.e.
að ekki sé um utanaðkomandi smit að
ræða sem valdi sjúkdómnum. Í ljósi
upplýsinga um eiginleika og faralds-
fræði þessa nýja afbrigðis má ætla
að þörf sé á að endurskoða viðbrögð
við þessum tilfellum er þau greinast
og væri það í samræmi við það sem
tíðkast í öðrum löndum.
Stefanía Þorgeirsdóttir,
sérfræðingur Tilraunastöð
Háskóla Íslands
í meinafræði að Keldum.
Líf og starf
Þ
að er ánægjulegt hversu mjög
ræktunarstarfið í nautgripa-
ræktinni er inni í umræðunni
um þessar mundir. Ræktunarstarfið
í nautgriparæktinni er eins og í
annarri búfjárrækt hér á landi, rekið
á félagslegum grunni og þannig
eru allir kúabændur þátttakendur
og afraksturinn á hverjum tíma í
hlutfalli við það hversu margir
eru virkir þátttakendur. Á unda-
förnum misserum hefur markvisst
verið unnið að því að auka og efla
aðkomu kúabænda að ræktunar-
starfinu. Gagnagrunnurinn HUPPA
hefur auðveldað alla skýrslugerð
og veitt hverjum og einum marg-
víslegar upplýsingar um eigið bú
á aðgengilegu formi og stöðugt er
verið að bæta þar í. Sett hafa verið
opinber sameiginleg ræktunarmark-
mið fyrir kúakynið, sem móta eiga
framtíðina: Þar er lögð áhersla á:
Heilbrigðar, frjósamar og
endingargóðar kýr.
Sterkbyggðar og háfættar
kýr með mikla afurðagetu.
Að viðhalda erfðabreyti-
leika til að tryggja lang-
tímaframfarir.
Ræktunarmarkmið íslenska
kúakynsins tekur til margra eigin-
leika þar sem ákveðið jafnvægi er
milli afurðaeiginleika og annarra
eiginleika sem tengjast lífsþrótti og
endingu gripanna. Í nýlegri yfir-
litsgrein eftir Ágúst Sigurðsson og
Jón Viðar Jónmundsson er gerð
úttekt á árangri ræktunarstarfsins í
nautgriparækt frá því að núverandi
kynbótaskipulag var tekið upp. Það
er niðurstaða höfunda að í heild
megi segja að árangurinn sé vel
viðunandi og síðasta áratug í sam-
ræmi við væntingar. Erfðaframför
er í öllum þeim eiginleikum sem
valið er fyrir og mikil erfðaframför í
afurðaeiginleikum og júgri og spen-
um. Aukning skyldleikaræktar, sem
ávallt er fylgifiskur úrvals, hefur
orðið veruleg á síðustu árum og þó
virk stofnstærð sé ennþá viðunandi
þarf að grípa til öflugri aðgerða en
hingað til í því skyni að tempra
skyldleikaræktaraukninguna.
Það kemur þó skýrt fram í áður-
nefndri yfirlitsgrein að unnt er að
gera mun betur en nú með skil-
virkari þátttöku bænda í ræktunar-
starfinu. Það hversu mikið er um
notkun heimanauta tefur verulega
mögulegar erfðaframfarir, eykur
vandamál tengd skyldleikaræktar-
aukningu og skaðar heildarhags-
muni greinarinnar. Það að einstöku
kúabændur kjósa að standa utan
skýrsluhaldsins hefur einnig sömu
áhrif.
Þannig er alveg sama hversu öfl-
ugar aðferðirnar eru sem við notum
og kerfin fullkomin sem við beitum,
að án virkrar þátttöku bænda og
samstöðu um ræktunarstarfið mun
árangurinn ávallt verða óviðunandi.
Það er því gleðilegt að umræðan
um ræktunarstarfið er svo virk eins
og hún er um þessar mundir og þá
getum við einnig glaðst yfir því
að niðurstöður skýrsluhaldsins í
desember sýna að aldrei áður hefur
jafnhárri 12 mánaða meðalnyt verið
náð eins og hjá Ólafi og Sigurlaugu
í Hraunkoti en þar skiluðu kýrnar
8.340 kg. Nú í janúar gerist það enn-
fremur í fyrsta sinn að meðalafurðir
í einu héraði fara yfir 6.000 kg en
kýrnar á Snæfellsnesi skiluðu 6.119
kg samkvæmt síðasta uppgjöri og
er það met.
Að reka ræktunarstarf í búfé
á félagslegum grundvelli hefur
bæði kosti og galla. Slíkt fyrir-
komulag er til þess fallið að lág-
marka kostnað við ræktunarstarfið
auk þess sem það virkjar bændur
sem þátttakendur í starfinu. Á móti
kemur að ef það mistekst að vekja
áhuga og virkja bændur til fullrar
þátttöku í öllum þáttum ræktunar-
starfsins verður árangurinn ekki sá
sem vænta má.
Fjóstíran
Nýtt afbrigði riðu:
Nor98 riða - smitandi eða sjálfsprottinn sjúkdómur?
Ræktunarstarfið til umræðu
Riða í kindum er smitandi taugahrörnunarsjúkdómur og er einn af svoköll-
uðum príonsjúkdómum, en til þeirra teljast einnig Creutzfeldt-Jakob sjúk-
minkum og hjartardýrum
Magnús
B. Jónsson
Ráðunautar í nautgriparækt
Gunnfríður
E. Hreiðarsdóttir