Fréttablaðið - 22.12.2012, Qupperneq 86
22. desember 2012 LAUGARDAGUR| MENNING | 62
1. Tvö orð og bæði vitlaust stafsett. Og send í vitlaust
númer. Það hlýtur að vera. Um stund
stari ég á skjáinn. Hvað á þetta að
þýða? Tækni er sannarlega undur.
Hún auðgar líf okkar, eykur sam-
skiptamöguleika og minnkar um-
heiminn. Hún hlýðir skapara sínum,
gerir það sem við segjum henni að
gera. Mér finnst ég hafa lesið þetta
einhvers staðar. Ég fletti til baka og
skoða aftur númerið í símanum. Ég
kannast ekkert við það. Sumt fólk
skiptir reyndar annað slagið um
númer og SIM-kort. Er Sigurbjörg að
stríða mér? Nei, það væri á skjön við
stöðuna.
2. DAUÐI EUFEMÍUBakgarðurinn minn í Live Oak
– Bexarhéraði í Texas– er ekki nema
svolítil spilda, rétt nægilega stór til
að rúma sígrænu eikina, runnarjóður,
sólbaðsbekkinn og dóttur mína sem
leikur sér að garðúðanum. Hitinn er
kæfandi og ég andvarpa reglulega
þar sem ég ligg í skugga trésins.
Stundum skvettist á mig vatns-
buna og ég hasta á Jackie sem er í
lillabláum sundbol og lætur eins og
garðúðinn sé foss eða gosbrunnur
eða öfug sturta. Hún sparkar upp
viðkvæmum jarðveginum, spyrnir
í hann og beinir úðanum of lengi
í sömu átt þannig að myndast
drullupollar. Fótleggirnir á henni eru
langir og grannir en búkurinn stuttur
og hún minnir mig stundum á engi-
sprettu.
3. Hinn fyrsti dagurHinn fyrsti dagur dregur
annað augað í pung og hvíta sæng
yfir höfuð eins og svefnpurka sem
vill kúra áfram. En það er kviknuð
hreyfing, glænýir hjólbarðar fylla
með fljótaskrift auða örk hlíðarinnar
sem kennd er við öskju; svolítil hæð
sem ísaldarjökullinn hefur farið
um höndum fyrir tíu þúsund árum
og skilið eftir grettistökin á víð og
dreif um holtið. Löngu seinna þegar
þorp reis á eyrinni við sjóinn varð
Öskjuhlíðin sjálfskipað útivistar-
svæði íbúanna og landsbyggðarfólk
sló niður tjöldum á hæðarkollinum
þegar það kom um langan veg til
bæjarins.
4. 1777Barnsmorð í Kollafirði
Á jólaföstu gisti vinnumaður af
Kjalarnesi, að nafni Bjarni Jónsson, á
Hóli í Kollafirði með son sinn fimm
vetra. Hélt hann brott að morgni
og bar barnið í poka. Litlu síðar
kom maður frá Hóli að honum með
barnið andvana í fjárhúsum, ekki
langt frá bæ. Sannaðist síðar að hann
hafði kyrkt drenginn í pokaopinu og
var hann dæmdur fyrir morð, klipinn
með glóandi töngum, öðrum brot-
legum mönnum til ótta og ögunar, og
að því loknu tekinn af lífi.
Bjarni bar því við, í votta viðurvist, að
drengurinn hefði verið haldinn illum
anda eða af hinu illa.
5. – Hefurðu komið til Feneyja?– Aldrei. En þú?
– Ekki ég heldur, en hefði ekki á
móti því að fara þangað, stíga niður
í gondól og bregða mér á leik um
síkin. Ég er viss um að þau eru eins
og völundarhús.
– Hvað veist þú um síki?
– Eitt og annað. Ég hef komið til
Amsterdam.
– Það er ekki það sama.
– Auðvitað ekki. En þú spurðir. Eigum
við að skreppa?
– Til Feneyja?
– Já.
– Ég veit ekki … langar ekki.
– Að heyra í þér! Láttu ekki svona …
þú hefðir gott af að … hrista upp í
þér. Feneyjar, það er rómantík! Ertu
kannski ekkert fyrir rómantík?
6. SvartidauðiÞað var bankað á herbergis-
hurðina. Ég leit upp. Mamma opnaði
dyrnar. Hún var mæðuleg á svip
– Komdu og talaðu við mig, Jón.
Hún var ekki reið. Ég hafði ekki gert
neitt af mér. Ég var meira að segja
búinn að vera óvenju rólegur. Ég
heyrði alltaf á tóninum í rödd hennar
þegar hún vissi upp á mig ein-
hverja sök, eins og þegar hún fann
sígarettur í vösunum mínum. Þá var
málrómur hennar þurr og hvass. En
í þetta sinn var hún greinilega ekki
reið. Hún var næstum því vinsamleg.
Hún var augljóslega með einhverjar
fréttir.
7. Í UPPHAFI SKAL ENDINN SKOÐA
Viltu ekki fara frá þessum manni?
Setningin skellur á hlustunum; hún
heyrir hvað amma segir en hverju á
hún að svara?
Jú? Nei. Hún getur ekkert sagt. Bara
horft í gaupnir sér eins og þegar
hún var lítil og hafði gert eitthvað
ógurlegt af sér.
Ég skil bara ekki hvernig þér datt í
hug að giftast honum. Ég skil ekki
einu sinni hvernig þú getur kysst
hann, hvað þá meir, segir amma og
horfir sorgmædd á dótturdóttur sína
sem situr andspænis henni. Álút með
svartan hárflóka ofan í augun sem
ljómuðu þegar hún var barn en eru
ekki einu sinni brún lengur heldur
sokkin ofan í doða, grá slikja liggur
yfir þeim og húðin er líka gráleit, á
vöngunum og undir hökunni grillir
í bólur.
8. Fæðingin er blóðug og kvala-full. Svo mælti Júrovskí. Já,
leyfið mér, félagar, að segja ykkur
aðeins frá Jakob Júrovskí. Það getur
ekki talist útúrdúr. Hann kom aftur
hingað til Sverdlovsk haustið ’34,
fyrir fimm árum, breyttur maður.
Margmáll hafði hann aldrei verið en
nú togaðist varla upp úr honum
orð. Jafnvel meðal kunningjanna
hélt hann sig til hlés. Og þagði. Og
ekki horfði hann lengur á okkur með
þessum stingandi svörtu augum sem
áður fyrr skutu fólki oft illyrmislega
skelk í bringu. Í margmenni hengdi
hann haus eins og sakamaður −
þannig hegða sér að vísu margir
íbúar þessarar borgar, alltof margir,
en þetta var sjálfur Júrovskí, fjandinn
hafi það! Og með hátterni sínu eyði-
lagði hann móralinn hjá mörgum.
9. 1. Blóð lagar1. apríl 2008, kl. 22.25
Ég gæti í sjálfu sér stokkið fram á við,
frekar en lóðbeint niður. Þannig gæti
ég slegið höfðinu utan í eitthvert af
handriðunum á móti– gatan er það
þröng. Höfuðmeiðsl væru áhugaverð,
jafnvel nauðsynleg í þessu tilviki, en
aðferðin er vafasöm. Hér er mjög
auðvelt að misreikna sig. Ef kraftur-
inn er of mikill gæti ég lent öfugum
megin við ókunnugt handrið og varla
grætt nema brotna mjöðm. Það væri
alls ekki nóg. Auk þess þætti mér
niðurlægjandi að brölta á fætur innan
um rykuga sólstóla eða þurfa að fá
einhvern til að tosa mig á fætur. Ég
finn það mjög skýrt, ég þarf meira.
10. Svört húsin standa þétt, líkt og þau séu að hnappa sig
saman gegn hafáttinni. Grasflatirnar
í kring, sem voru þökulagðar í fyrra,
eru gular. Sjórinn grár svo langt sem
augað eygir. Niðri á sjávarbakkanum
er kaffihúsið. Á sumrin eru þar stólar
fyrir utan, en nú er allt lokað, og enn
langt í ferðamannatímann. Ég bý í
einu af svörtu húsunum. Stundum
gengur illa að fá nægilegan hita á
ofnana. Ég sit við gluggann með
ritvélina (vil alls ekki nota tölvu við
að skrifa) og hamra á hana, en lít
öðru hverju út á sjóinn. Stundum sé
ég bát, og þá merki ég með blýanti
á blað sem liggur við hliðina á
ritvélinni.
Þekkir þú handbragðið?
1. Árni Þórarinsson: Ár kattarins ● 2. Kristín Eiríksdóttir: Hvítfeld. ● 3. Pétur Gunnarsson: Íslendingablokk. ● 4. Stefán Máni: Húsið ● 5. Álfrún Gunnlaugsdóttir: Siglingin um síkin. ●
6. Jón Gnarr: Sjóræninginn. ● 7. Auður Jónsdóttir: Ósjálfrátt. ● 8. Sigurjón Magnússon: Endimörk heimsins. ● 9. Sigurbjörg Þrastardóttir. Stekk. ● 10. Gyrðir Elíasson: Suðurglugginn.
Svör
Fjölmargar skáldsögur koma út þessi jólin. Fréttablaðið tók saman upphaf tíu þeirra svo
lesendur gætu spreytt sig á fimi sinni við það að þekkja stílbragð íslenskra rithöfunda.