Læknablaðið - 01.06.1972, Page 25
LÆKNABLAÐIÐ
11
Hafi steðjinn skekkzt mikið, er mjög erfitt að gera við það. Er
hann þá venjulega tekinn út og lagður á ístaðið. Langi armurinn er
oftast klipptur af honum (sjá 11. mynd).
Ef svo stórt gat er á hljóðhimnu, að heyrnarbeinin sjáist vel,
þarf venjulega ekki að lyfta henni. Brúnir gatsins eru særðar og
búnar undir bætingu. En sjáist heyrnarbeinin ekki gegnum gatið, er
nauðsynlegt að lyfta hljóðhimnunni, ef grunur leikur á, að bein-
keðjan sé rofin.
Komi þá í ljós, að sambandið milli steðja og ístaðs sé rofið,
þannig að lítið eitt, t. d. einn eða tvo millimetra, vanti á langa steðja-
arminn, kemur til mála að brúa bilið með einhverjum hætti. Fjöldi
aðferða hefur verið notaður til þess, en með misjöfnum árangri, og
stöðugt koma fram nýjar tillögur. Sýnir það, að viðfangsefnið er
torvelt. Bilið hefur einkum verið brúað með stálvír, plasti, beini eða
brjóski (sjá 10. mynd).
a b c
10. mynd:
Þegar lítið vantar á langa steðjaarminn (processus longus), má t. d.
brúa bilið með vír (a), plastpípu (b), beini eða brjóski (c).
Vanti mikinn hluta steðjans, er reynt að tengja ístað og hljóð-
himnu á einhvern hátt. Plastpípu hefur t. d. verið komið fyrir milli
ístaðs og hamarskafts eða hljóðhimnu (sjá 11. mynd a). Slíkir að-
skotahlutir hafa reynzt varhugaverðir, einkum ef þeir hvíla á sjálfri
hljóðhimnunni, og hafa þá stundum viljað ganga út í gegnum hana.
Betur hefur reynzt að nota bein úr sjúklingnum sjálfum, helzt leifar
af hamri eða steðja, ef einhverjar eru. Oftast eru það leifar af steðj-
anum, sem til þessa eru notaðar.
Eftir að steðjinn hefur verið tekinn út, er boruð dálítil hola í
aðra hlið hans og hún lögð á ístaðið, þannig að ístaðshausinn fellur
inn í holuna. Hin hlið steðjans, sem snýr út, snertir þá hljóðhimnu
og hamarskaft. Steðjinn grær venjulega við ístað og hljóðhimnu og
ber hljóðbylgjurnar á milli (sjá 11. mynd b og c).