Læknablaðið - 15.11.1987, Qupperneq 42
388
LÆKNABLAÐIÐ
þess ef fram heldur sem horfir, að félagið muni
nú halda vöku sinni svo fremi Guð gefi að því
auðnist að eiga vökumenn innan sinna vébanda
framvegis. Verkefnin verða trúlega ekki síður
margvísleg en þau hafa verið og munu þau öll
krefjast einhverra úrlausna. Má því segja að við
séum ánægðir með félagsstarfsemina að öðru
leyti en því að okkur finnst almennu fundirnir
mættu vera eitthvað oftar.
ÁHUGAMANNA- OG
SÉRFRÆÐINGAFÉLÖG UM
GEÐLÆKNINGAR
Ekki er hægt að láta hér staðar numið án þess að
minnast með fáum orðum einnig á önnur félög
geðlækninga. Hér nota ég orðið geðlækningar
sem safnheiti geðlækninga almennt. Fyrsta og
elsta áhugamannafélagið er Geðvernd sem dr.
Helgi Tómasson stofnaði og hefur síðan starfað
óslitið. Nýjasta myndarlega átak Geðverndar til
geðlækninga er áfangastaður sem reistur var og
rekinn er í Kópavogi. Æskilegt verður að telja að
svona rík áhersla var lögð á störf Geðverndar til
að fyrirbyggja geðsjúkdóma í áraraðir áður en
tímabært varð að stofna til geðlæknafélags
sérfræðinga. Fyrir 25 árum kom svo
Geðlæknafélagið sem fyrr segir og það er því
næsta félag geðlækninga í röðinni. Margir félagar
í því hafa jafnframt verið félagar í Geðvernd.
Síðan stofnuðum við sjö geðlæknar og meðlimir í
hinum tveimur fyrri félögum ásamt einum
barnalækni annað félag áhugamanna um
geðlækningar, Félag til að efla sálkönnun á
íslandi, 3. febrúar 1977. í stjórn voru kosin Helga
Hannesdóttir ritari, Halldór Hansen gjaldkeri og
Esra S. Pétursson formaður. Félagsfundir voru
mjög vel sóttir og jókst félagatalan ört og komst
hæst í 16. Lögð var áhersla á fræðslu og
þjálfunarfundi með lestrarnámskeiðum,
fyrirlestrum og hóphandleiðslu. Félagið stofnaði
skóla í sállækningum haustið 1979. Var hann
allrækilega undirbúinn og rekinn í ein tvö til þrjú
ár en svo reyndist ekki vera starfsgrundvöllur til
lengra framhalds um þær mundir. Olli það okkur
nokkrum vonbrigðum en síðan hefur félagið
haldið áfram fyrri iðju sinni og höfum við nú
undanfarið verið að kynna okkur allrækilega
kenningar Kohuts og Lacans okkur til fróðleiks
og ánægju.
Annað sérfræðingafélag geðlækna,
Barnageðlæknafélag íslands var svo stofnað 3.
maí 1980 eftir langan aðdraganda með því að
nokkrir tilvonandi félagar undir forystu Páls
Ásgeirssonar hittust mánaðarlega til að ræða um
barnageðlæknisfræði og uppeldisvandamál.
Aðalhvatamaður og fyrsti formaður félagsins var
Helga Hannesdóttir barnageðlæknir en Páll
Ásgeirsson yfirlæknir barnageðdeildar
Landspítalans hefur einnig verið mjög virkur og
mikill hvatamaður í öllum þessum félögum. Nú
eru félagarnir átta og hefur félagið haldið
gagnmerkt og fjölsótt málþing sem Páll stýrði
ásamt Jules Bemporad prófessor frá Harvard
háskóla um mismunandi skoðanir á þróunarferli
barna.
Þessi fjögur félög um geðlækningar, Geðvernd,
Geðlæknafélag íslands, Félag til að efla
sálkönnun á íslandi og Barnageðlæknafélagið
hafa lengst af unnið saman sem sjálfstæð félög,
óháð hvert öðru í sátt og friði hvert við annað og
án þess að seilast til yfirráða hvert yfir öðru og
hefur ekki að öðru leyti borið á klofningsviðleitni
eða misklíð eða annars konar systkinaríg á milli
þeirra, sem mér er kunnugt um, þó skiptar
skoðanir hafi verið ræddar um ónauðsynleg
formsatriði og niðurröðun. Við væntum þess og
óskum að okkur auðnist að halda þennan frið.
Um félagið Geðhjálp, sem ætlað er fyrst og
fremst fyrir geðsjúka og aðstandendur og
velvildarmenn þeirra, gegnir eðlilega nokkuð
öðru máli. Það hefur, líkt og önnur
sjálfshjálparfélög, markað sér vissa afstöðu
gagnvart geðlækningum og aðildarfélögum þess.
Óhjákvæmilega hefur gætt þar nokkurs
tvískinnungs, sem hefur þó sem betur fer ekki
verið harðsnúinn. Nokkrir félagar úr
Geðlæknafélaginu hafa flutt erindi fyrir Geðhjálp
að beiðni formanns þess, frú Hope Knutson og
hefur okkur verið ágætlega tekið á fundum
þeirra, sem eru yfirleitt mjög vel sóttir. Félagið
leggur mikla áherslu á trú á æðri mátt, nokkuð
svipað því sem gert er hjá öðrum
sjálfshjálparfélögum svo sem Góðtemplurum,
AA og SÁÁ og telja þau sig hafa öll sótt mikinn
styrk í trú sína á æðri mátt. Enda teljum við ýmsir
að órofið og beint samband sé ætíð á milli
raunsjálfs og æðri máttar, svo fremi magnaður
frumkvíði ásamt fylgifiskum hans, svo sem
eigingirni, hroka, fíkn, efagirni og vantrú, rjúfi
ekki það samband.
Ég vil að lokum leyfa mér að þakka félögum
Geðlæknafélags íslands fyrir störf þeirra í þágu
félagsins og þeirra sjúklinga sem því er ætlað að
þjóna. Okkur er hollt, að ég held, að brjóta odd
af oflæti okkar með því að minna hæfilega oft á
það að við erum þjónar þeirra.