Fréttatíminn - 01.10.2010, Blaðsíða 34
En lánið lék við Jónínu. Hún var at-
vinnulaus í örfáar klukkustundir. „Það
kom frétt um uppsagnirnar í kvöld-
fréttum Sjónvarpsins og strax eftir
fréttatímann fékk ég upphringingu frá
Gullveigu Sæmundsdóttur, ritstjóra
Nýs lífs. Hún bauð mér að leysa sig
af í nokkra mánuði. Ég var því vægast
sagt heppin.“
Ertu bitur út í einhverja sem þarna
komu að máli?
„Auðvitað varð ég öskureið þegar
okkur var sagt upp. En það væri nú
meiri langræknin að vera bitur í tutt-
ugu ár. Maður breytir ekki því sem
orðið er og biturleiki tærir fólk bara
upp.
Þar að auki sá ég fljótlega að upp-
sögnin reyndist mikil gæfa fyrir mig.
Það átti margfalt betur við mig að
vinna á Nýju lífi en á fréttablaði. Ég
hefði ekki viljað missa af þeim fimm-
tán árum sem ég var á Nýju lífi. Og
líklega hefði Gullveig hringt í ein-
hverja allt aðra konu ef ég hefði ekki
verið rekin með svo miklum látum að
það kom í sjónvarpsfréttunum.“
Dýrmætt að deila dramatískri
lífsreynslu
Hvað stendur upp úr frá blaðamanns-
ferlinum?
„Allt fólkið sem ég var svo heppin
að fá að kynnast. Fólk sem treysti mér
fyrir sínum innstu og dýrmætustu til-
finningum. Ég sérhæfði mig snemma
í viðtölum við fólk með erfiða lífs-
reynslu að baki. Það kenndi mér
mikið.“
Jónína gefur lítið fyrir gagnrýni á að
greint sé frá harmsögum fólks í fjöl-
miðlum.
„Það skiptir öllu máli hvernig þetta
er gert. Hvernig viðtalið er tekið,
hvernig unnið er úr því og hvernig
það er fram sett.
Vitanlega eru ekki allir tilbúnir að
opna sig í fjölmiðlum. Mér finnst það
mjög skiljanlegt. En það er óendan-
lega dýrmætt að til sé fólk sem vill
deila dramatískri lífsreynslu sinni
með öðrum. Enginn veit jú hver er
næstur. Við fáum öll okkar skammt af
áföllum í lífinu og þá getur verið mikill
styrkur að lesa um manneskju sem
hefur upplifað eitthvað svipað.
Það var mikill lærdómur að kynnast
öllu þessu fólki og ég er því innilega
þakklát fyrir að treysta mér fyrir því
allra viðkvæmasta í lífi sínu. Það var
einstakt hvað fólk var oft einlægt, opið
og tilbúið að gefa af sér.“
Var þetta aldrei niðurdrepandi?
„Margir héldu það en mér fannst
það alls ekki. Það þroskaði mig að
standa ítrekað frammi fyrir fólki sem
hafði upplifað erfiðleika sem við hin
höldum að við myndum aldrei afbera.
Foreldrum sem höfðu gefið líffæri úr
nýlátnum börnum sínum, manni sem
hafði misst eiginkonu og dóttur með
nokkurra mánaða millibili, rúmlega
fimmtugri konu sem hafði fylgt þrem-
ur eiginmönnum til grafar. Bara svo
ég taki örfá dæmi.
Sumir vilja ekkert af svona lífs-
reynslu vita. Mér finnst það bera
vott um ákveðinn veruleikaflótta.
Það minnir mig á strút með hausinn
í sandi að sjá fólk lifa og hrærast í
yfirborðslegum hlutum þar sem allt
á helst að vera svo flott, skemmtilegt
og smart. Auðvitað er lífið líka fullt af
gleði og hún verður að vera með. En
kannski kann maður betur að meta
gleðina eftir því sem maður er með-
vitaðri um að lífið er ekki bara dans
á rósum.
Margir forðast að tala um viðkvæma
hluti af ótta við tilfinningar og tár, ann-
aðhvort hjá sjálfum sér eða öðrum.
Sumir forða sér jafnvel yfir götu eða
út úr verslun ef þeir sjá kunningja sem
hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli. Það
hefðu allir gott af að yfirvinna slíkan
ótta. Vera ekki feimnir við að tala um
dauðann, veikindi eða aðra erfiðleika,
jafnvel þótt það kosti nokkur tár. Geta
talað um allt.“
Hefurðu sjálf orðið fyrir áföllum af
einhverju tagi?
„Já, það kemst enginn í gegnum 56
ár án þess að lenda í einhverju. Ég hef
misst bæði ættingja og vini. Og ég hef
átt við veikindi að stríða síðan ég var
krakki. Ég er með astma og ofnæmi
fyrir öllu mögulegu og ómögulegu
og ónæmiskerfið í mér er handónýtt.
Æskuminningar mínar eru því dálítið
litaðar af því að ég mátti oft ekki fara
út úr húsi dögum saman. Ég var alltaf
lasin.
Þessi veikindi mótuðu mig bæði á
jákvæðan og neikvæðan hátt. Það já-
kvæða sem ég hafði upp úr þessu var
ást á bókum og lestri. Þegar ég hékk
inni var ég á kafi í bókum. Las og las
og las. Það neikvæða er að ég sit uppi
með hrikalega léleg lungu.
Núna vita læknar það sem ekki lá
fyrir þegar ég var lítil, að lungu eyði-
leggjast smávegis í hverju astmakasti.
Þess vegna er lögð áhersla á að
fyrirbyggja þau. Ég er aðeins með um
40% af þeim krafti sem manneskja á
mínum aldri ætti að hafa í lungunum.
Ekki svo að skilja að mér sé einhver
vorkunn. Það vildu örugglega margir
skipta við mig. Þetta er algjört smá-
mál miðað við ýmislegt sem aðrir
standa frammi fyrir.“
Færeyingar miður sín
Um daginn fór Jónína til Færeyja.
Sem væri svo sem ekki í frásögur
færandi nema vegna þess að þetta var
í fyrsta skipti sem hún fylgdi Jóhönnu
í opinbera heimsókn.
Völduð þið Færeyjar viljandi sem
ykkar fyrsta sameiginlega, opinbera
áfangastað?
„Svona heimsóknir eiga sér langan
aðdraganda. Lögmaður Færeyja kom
í opinbera heimsókn til Íslands í fyrra-
haust og fljótlega upp úr því var þessi
ferð ákveðin.
Ég hafði tvisvar áður komið til
Færeyja, fyrst fyrir þrjátíu árum. Í
fyrra fór ég svo til Þórshafnar að hitta
hina 15 höfundana sem eiga sögur í
norræna smásögusafninu. Þetta var
eina utanlandsferðin mín árið 2009 og
alveg ógleymanleg helgi. Það er fal-
legt í Færeyjum og mér finnst fólkið
sérlega alúðlegt og afslappað. Og þeir
eiga stórkostlega listamenn; rithöf-
unda, listmálara og tónlistarfólk.“
Mikla athygli vakti þegar leiðtogi
færeyska Miðflokksins, Jenis av Rana,
neitaði að mæta í kvöldverðarboð til
heiðurs Jóhönnu en hann hefur lýst
sig andvígan auknum réttindum sam-
kynhneigðra.
„Færeyingunum fannst þessi upp-
Þótt ég þykist
standa fyrir
mínu er ekki
hægt að horfa
fram hjá því að
þessi óvenju-
mikli spenn-
ingur fjölmiðla
væri ekki til
staðar nema
vegna for-
sætisráðherra-
frúar-vinkilsins.
Það er ekkert
skemmtilegt
fyrir sjálfstæða
manneskju.
Jónína hefur mikinn áhuga á andlegum málefnum en kynni
hennar af spíritisma hófust strax á ungaaldri. „Heima voru til
heilu hillurnar af bókum um spíritisma. Ég las þær upp til agna
í þessum eilífu sóttkvíum mínum sem krakki. Áhuginn kviknaði
síðan fyrir alvöru þegar ég skrifaði ævisögu séra Sigurðar Hauks
Guðjónssonar sem var prestur í Langholtskirkju. Hann var mikill
spíritisti, náinn samstarfsmaður Einars á Einarsstöðum og sjálfur
með mikla hæfileika á þessu sviði.“
Ertu trúuð?
„Já, enda ætlaði ég að verða prestur! Annars finnst mér trú
ekki snúast um kirkjusókn og bænir, heldur að reyna að vera
almennileg manneskja. Fyrir mér er það einhver sem kemur fram
við aðra eins og hann vill að komið sé fram við hann. En það er nú
aldeilis hægara sagt en gert. Þetta er lífstíðarverkefni.
En vonandi fáum við annað tækifæri á öðrum stað. Ég held
ekki að lífið á jörðinni sé upphaf og endir alls. Ég trúi á fram-
haldslíf. Eða réttara sagt: Ég veit að það er framhaldslíf. Þetta er
vissa, ekki trú.“
Ertu næm sjálf?
„Ég er þeirrar skoðunar að allir séu næmir. En það sama á við
um þetta og aðra eiginleika. Fólk verður að leggja rækt við þá.
Sjálf hef ég m.a. gert það með því að stunda hugleiðslu og taka
þátt í bænahópum. Hugleiðsla er alveg frábært tæki til að slaka
á og öðlast innri ró og rannsóknir sýna að hún bætir líkamlega
heilsu. En ég hef ekki verið nógu dugleg að hugleiða að undan-
förnu. Of önnum kafin við að skrifa. Svona er maður vitlaus!
Frestar til morguns því sem best væri að gera í dag.“
„Ég veit að það er framhaldslíf“
Færeyjaheimsóknin á dögunum. Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Jónína Leósdóttir. Ljósmynd/Dimmalætting
ákoma afar leiðinleg. Fólk baðst afsökun-
ar og tók fram að svona hugsuðu Færey-
ingar almennt ekki. Aðeins lítill hópur.
En ég hitti aðeins elskulegt fólk og naut
dvalarinnar til hins ýtrasta.
Það eina sem ég hafði haft örlitlar
áhyggjur af, svona fyrirfram, var að það
myndi valda gestgjöfunum vandræðum
að ég er grænmetisæta. En það eru
greinilega flinkir matreiðslumenn í Fær-
eyjum!“
Forvitnin meiri
Norska forsætisráðherrafrúin, Ingrid
Schulerud, hefur talað um að það sé
helvíti að vera gift topppólitíkus. Geturðu
tekið undir þessi orð?
„Það er ekkert skemmtilegt að vera
gift einhverjum sem er í starfi þar sem
fylkingar takast á ... og það opinberlega.
Starfi sem felur í sér rifrildi, átök og sterk
orð. En maður lærir að brynja sig fyrir
því,“ segir Jónína. „Ef ég tæki þetta inn
á mig yrði ég bara að halda mig undir
sæng. Það myndi ekkert þýða að fara
fram úr því þetta skellur á manni um leið
og dagblaði er flett eða maður hlustar á
fréttatíma í útvarpi eða sjónvarpi. Póli-
tíkin er alls staðar.“
Er mikill munur á því að vera maki for-
sætisráðherra eða maki félags- og trygg-
ingamálaráðherra?
„Ég hef aldrei skilgreint mig út frá
því að vera maki einhvers, hvorki nú né
áður.“
Það hlýtur þó að hafa breytt þínu lífi
töluvert?
„Ætli það sé ekki aðallega að fólk er
forvitnara um mann. Ég var ekki undir
það búin. Hugsaði hreinlega ekki út í
það.“
Stundum gengur forvitnin of langt, að
mati Jónínu. „Þegar ég var hjá sjúkra-
þjálfara í ársbyrjun spurði hann mig einu
sinni: „Hvernig smakkaðist ístertan?“ Þá
hafði komið „frétt“ um það í tímariti að ég
hefði sést kaupa ístertu og sérstaklega
var tiltekið í hvaða búð þetta var og hvaða
tegund ég hefði keypt. Mér fannst þetta
fáránlegt!“
Þú hlýtur samt að skilja áhugann, haf-
andi starfað við blaðamennsku sjálf?
„Já, ég skil hann. Ég fékk margoft
neitun þegar ég bað fólk um viðtal. Oft
var það alveg blóðugt því yfirleitt hafði
viðkomandi áhugaverða sögu að segja.
En ef manneskja sagði nei, þá þakkaði ég
bara kurteislega fyrir, baðst afsökunar á
ónæðinu og lét þar við sitja.“
Jónína segir álagið sem fylgi starfi for-
sætisráðherra þó auðvitað setja mark sitt
á heimilislífið.
„Eins og ástandið í þjóðfélaginu er
núna er þetta starf allan sólarhringinn,
alla daga vikunnar. Það gefur augaleið
að viðkomandi aðili er þá ekki að sinna
neinu öðru á meðan. En ég er svo heppin
að eiga nóg af áhugamálum og stóran
vinahóp. Annars er ég hálfgerður vinnu-
alki og get gleymt mér við tölvuna frá
morgni og langt fram á kvöld. Og nú er
að bresta á sá árstími þegar rithöfundar
kynna bækurnar sínar út um víðan völl.
Stundum er ég að lesa upp í skólum á
morgnana og fyrir fullorðna á alls kyns
samkundum á kvöldin. Þetta er mjög
gaman. En á móti kemur að þá gefst ekki
eins mikill tími til að skrifa og það getur
verið mjög frústrerandi.“
Framtíðin er óskrifað blað. Hundruð
óskrifaðra blaðsíðna, ef að líkum lætur.
Jónína er rétt að byrja.
„Ég er mjög flughrædd. Um daginn
var ég eitthvað að væla yfir því í hópi fólks
að bráðum þyrfti ég að fara í flug. Þá fékk
ég þessa spurningu: „Hvað með það ef
flugvélin færist og þú myndir deyja? Væri
það ekki bara allt í lagi?“ Ég svaraði sam-
stundis, algjörlega án umhugsunar: „Nei,
ekki alveg strax. Ég er loksins komin í
þá draumaaðstöðu að geta einbeitt mér
að skriftunum. Aðstöðu sem mig hafði
dreymt um áratugum saman. Þannig að
ég er ekki tilbúin að lenda í neinu flug-
slysi! Mig langar til að skrifa nokkrar
bækur í viðbót.“
34 viðtal Helgin 1.-3. október 2010
Heiðdís Lilja
Magnúsdóttir
hlm@frettatiminn.is