SunnudagsMogginn - 27.11.2011, Page 31
27. nóvember 2011 31
Bræðurnir Rudy og Tom Jor-dache eru eins og svart og hvítt.Annar námfús og prúður, hinnmetnaðarlaus og ódæll. Fyrir
þeim liggur því að halda hvor í sína áttina
í lífinu. Rudy gengur menntaveginn og
verður farsæll kaupsýslumaður en Tom
kemst á glapstigu með skelfi-
legum afleiðingum. Þrátt fyrir
ólíkt upplag og ýmsa árekstra er
alltaf sterkur þráður milli
bræðranna.
Af bræðrum þessum var
hermt í einhverri frægustu
smáseríu allra tíma í sjónvarpi,
Gæfu eða gjörvileika (e. Rich
Man, Poor Man), sem sýnd var í
Bandaríkjunum árið 1976. Hálfu
öðru ári síðar rataði serían í
svart/hvít viðtæki okkar Ís-
lendinga en sjaldgæft var að
sjónvarpsefni kæmi hingað beint af kúnni
á þeim tíma.
Gæfa eða gjörvileiki sló öll áhorfsmet í
Bandaríkjunum, þjóðin sat límd við skjá-
inn, og gagnrýnendur héldu vart vatni.
Þá var serían tilnefnd til hvorki fleiri né
færri en 20 Emmy-verðlauna um vorið.
Aðalleikararnir Peter Strauss, sem fór
með hlutverk Rudys, og Nick Nolte, sem
lék Tom, urðu stjörnur á augabragði og
hafa báðir átt farsælan feril í sjónvarpi og
kvikmyndum síðan, einkum Nolte. Hinn
skapbráði og hverflyndi Tom Jordache
lék í höndunum á honum og hefur Nolte
leikið ófáar slíkar týpurnar síðan. Á sama
hátt náði Strauss frábærum tökum á hin-
um milda en staðfasta Rudy, draumi allra
tengdamæðra.
Gæfa eða gjörvileiki byggðist á sam-
nefndri metsölubók eftir Irwin Shaw og
voru þættirnir níu talsins, tólf klukku-
stundir í það heila.
Lenti í klóm Falconettis
Jordache-fjölskyldan er þýskir innflytj-
endur og þegar sagan hefst við
lok seinna stríðs býr hún við
kröpp kjör í smábænum Port
Phillip, New York. Rudy er
staðráðinn í að láta drauma sína
rætast og brennandi metnaður-
inn rekur á endanum fleyg í
samband hans við æskuástina,
Julie, sem Susan Blakely lék af
leiftrandi sannfæringu. Hennar
bíða grimm örlög á botni
brennivínsflöskunnar. Ekki
voru örlög hins bróðurins,
Toms, skemmtilegri. Hann
flosnar upp frá námi og vinnur um tíma
fyrir sér sem hnefaleikari. Snemma fer
hann að leggja lag sitt við vafasama menn
í undirheimunum, þeirra á meðal Arthur
nokkurn Falconetti, eitt eftirminnileg-
asta illmenni sjónvarpssögunnar. Falco-
netti var leikinn af mikilli festu af Willi-
am Smith. Lýkur samskiptum þeirra með
þeim ósköpum að Falconetti ræður Tom
bana.
Foreldrar bræðranna, Axel og Mary
Jordache, koma einnig töluvert við sögu,
einkum í upphafi. Axel, sem starfar sem
bakari, er faðir af gamla skólanum, gerir
engan greinarmun á vodka og vatni og
tekur syni sína engum vettlingatökum.
Móðirin er undir járnhæl hans. Axel flúði
frá Þýskalandi eftir fyrra stríð og hefur
aldrei fest rætur í Bandaríkjunum. Hatar
landið í raun. Þær tilfinningar lita líf fjöl-
skyldunnar alla tíð. Skapgerðarleikarinn
Ed Asner leikur Axel af viðurstyggilegri
snilld. Dorothy McGuire er Mary.
Sett í vítt samhengi
Sagan spannar tvo áratugi, lýkur ekki
fyrr en 1965, og í bakgrunni eru ýmis
hitamál í bandarísku samfélagi, svo sem
McCarthyisminn, Kóreustríðið, stúd-
entaóeirðirnar og svarta byltingin. Sætti
það tíðindum enda óalgengt að „sápu-
óperur“ væru settar í svo vítt samhengi á
þessum tíma. Þá var sjónum einnig beint
að melódrama á borð við hórdóm, valda-
baráttu og áfengissýki. Það var fátítt.
Smáseríur voru svo að segja óþekkt
form í sjónvarpi árið 1976 en nutu gríð-
arlegra vinsælda í kjölfar Gæfu eða
gjörvileika. Nægir þar að nefna Rætur,
Centennial, North and South, Shogun og
Lonesome Dove. Nú hefur smáser-
íuforminu verið sópað undir teppið,
framleiðendur sjónvarpsefnis fara ekki af
stað með þætti nema þeir telji að þeir geti
ríghaldið áhorfendum árum saman.
Höfundar Gæfu eða gjörvileika brugð-
ust við vinsældunum með því að gera
framhaldsþætti sem frumsýndir voru
vestra strax haustið 1976. Gengu þætt-
irnir í einn vetur, við nokkuð minni lýð-
hylli, og urðu alls 21 talsins. Í það skiptið
voru Rudy og Wesley, sonur Toms heit-
ins (Gregg Henry), í forgrunni og fengu
það erfiða hlutskipti að kljást við forynj-
una Falconetti. Í upphafi þáttanna var
böndum komið á kauða en síðar sleppur
hann úr fangelsi og hyggur á hefndir ...
Misskipt er
gæfu bræðra
35 árum eftir að þeir voru frumsýndir þykja
þættirnir Gæfa eða gjörvileiki enn með því
besta sem framleitt hefur verið af leiknu efni
fyrir sjónvarp í Bandaríkjunum. Þættirnir um
örlög bræðranna Rudy og Tom Jordache nutu
einnig mikilla vinsælda hér á landi.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Fjölskyldufaðirinn ógeðfelldi, Axel Jordache (Ed Asner). Bræðurnir Tom og Rudy Jordache á örlagastundu.
Peter Strauss, Susan Blakely og Nick Nolte í hlutverkum sínum í Gæfu eða gjörvileika.
Illmennið Falconetti (William Smith).
Hægt er að nálgast
Gæfu eða gjörvileika
á DVD-diskum.