Morgunblaðið - 31.12.2011, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 31.12.2011, Blaðsíða 23
hlaðinu, svo eru tvær skemmur fullar af tækj- um, bílum og bátum. Það er áhugamálið hans Braga. „Ástríða held ég það heiti,“ segir Sig- ríður. – En það er meira Braga megin í tilverunni? „Já, og svo smitaðist ein dóttir okkar af Landrover-sýki. Hún gerði upp Landrover með pabba sínum þegar hún var komin með bílpróf og á hann ennþá.“ Dæturnar eru þrjár, ein býr í Kópavogi og tvær á Akureyri. Og blaðamanni er spurn: – Þær vilja ekki flytja hingað? „Ja, það hefði kannski orðið ef Nubo hefði komið. Þær hafa ekki að neinu að hverfa hér. En maður veit ekki hvað hefði gerst þá. Það var ýmislegt sem við sáum við hann: Flugvöll, rafmagn og kannski hefði verið borað eftir heitu vatni. Það hefur fundist hiti á mörgum svæðum sem búið var að dæma sem köld svæði.“ – Þið hafið þá ekki ætlað að selja og flytja héðan? „Við hefðum aldrei selt með því móti að við þyrftum að fara. Það var aldrei inni í mynd- inni; við vorum ekki tilbúin í það.“ Hún lítur út um gluggann. „Þetta var ótrúlega mikil uppákoma. Allt í einu var áhugi fyrir þessu svæði hér. Ég man þegar stelpurnar voru unglingar, þá sögðu þær ekki hvar þær ættu heima, af því að þá fengu þær spurningar sem þeim féllu ekki: „Bíddu, hvað segirðu, er sími þar? Hafið þið sjónvarp?“ Þær sögðust bara vera úr Mývatnssveitinni, enda gengu þær í skóla þar. Þetta var tímabil, þar sem þær voru ekkert að flíka því hvaðan þær væru og það held ég þær hafi aldrei gert.“ Hún bankar brosandi í borðið. „En við erum komin á kortið!“ – Hólsfjallahangikjötið er nú landsfrægt! „Hér var greiðasala í gamla daga, það fór rúta á milli Akureyrar og Reyðarfjarðar, sem kom upp Hólssand áður en brúin var byggð hér. Það var borðað úti í gamla hús- inu, þetta var löngu fyrir mína tíð, og þá var oft hangikjöt í matinn. Ætli það hafi ekki þá hlotið þessa frægð. Við notum gömlu aðferð- ina við að reykja það, með söltun og reyk, og ég ætla að ekki að breyta þeim sið. Nú er víðast hvar sprautað pækli inn í kjötið.“ Dulúð í náttúrunni Ekki er langt að fara að nokkrum helstu náttúruperlum Íslands á hálendinu, en Sig- ríður segir að þau Bragi geri lítið af því að ferðast þangað. „Við sinnum bara þeim sem þangað fara. Ég hafði ekki komið í Öskju síðan ég var 14 ára og minningin er þannig að mig langaði ekkert aftur – ég mundi bara eftir söndum og jú, ég mundi eftir Víti. En svo hugsaði ég með mér að þetta gengi ekki lengur, það kæmi fólk hvaðanæva úr heiminum – einmitt til að fara inn í Öskju. Maður sér að krotað hefur verið á landakortin með gulum yf- irstrikunarpennum yfir Dettifoss, Öskju og Mývatn. Við hjónin fórum því í ferðalag seint í ágúst í stórkostlegu veðri, við gátum stokk- ið af stað þegar skilyrði voru góð, og ég upp- lifði landslagið allt öðruvísi en þegar ég var unglingur. Þá hef ég ekki verið móttækileg fyrir þessari auðn. En nú hvet ég alla sem koma hingað til að fara þarna inn eftir. Það er einhver dulúð yfir náttúrunni, eitthvað sem veldur því að maður fer að tala lágt.“ Kertastjakarnir á Grímsstöðum eru kúlur af gömlum símastaurum. Hér eru hlutirnir nýttir og allt hefur sinn tilgang. Sigríður er byrjuð að prjóna og bíður eftir Braga. Svo lítur hún út um gluggann: „Hálandahöfðinginn er kominn.“ Bragi stígur inn úr hríðinni og við göngum um stofuna til að skoða myndir Stórvals sem þar eru á veggjum. Þar er óvenjulegt mál- verk frá Þingvöllum. „Við leigðum saman nokkrir Fjöllungar fyrir sunnan og hann gaf okkur þessa mynd.“ Svo setur hann lappirnar upp á borð, í stællegum leðurjakka, maður á besta aldri, rétt skriðinn yfir sjötugt. „Ég held að listin hafi alla tíð blundað í Möðrudælingum,“ heldur hann áfram. „Jón faðir hans hefði átt að vinna við sína list- sköpun, hann var ekki mikill bóndi, en þeim mun meiri listamaður.“ Og það er hverju orði sannara, eins og þeir vita sem skoðað hafa kirkjuna sem hann reisti í Möðrudal til minningar um konu sína. „Hann bæði málaði og var góður söðla- smiður.“ Annars segist Bragi alltaf þreyttur eftir kaupstaðarferð. „Sama þó að það sé stutt heimsókn, þá þarf maður alltaf að erinda.“ – Þú hefur ekki komið í Smáralindina? „Ég myndi nú ekki þola það.“ – Þetta er þinn reitur? „Ætli það ekki.“ „Og blaðamaður reynir að fá hann til að tala um draugagang á Fjöllum. „Menn voru svo myrkfælnir í gamla daga,“ segir Bragi. „Krakkar urðu myrkfælnir af draugasögum og svo voru menn myrkfælnir fram eftir aldri. En maður heyrir aldrei talað um myrkfælni núna, enda er aldrei myrkur.“ Honum er hinsvegar efst í huga mynd um verksmiðjulandbúnað í Bandaríkjunum, sem sýnd var á RÚV á dögunum. „Ég var gátt- aður, það var skelfilegt að sjá þetta,“ segir Bragi. „Vinnubrögðin eru allt önnur hér á landi, það þekkja allir íslenskan landbúnað – hér er framleidd eins heilnæm vara og hugs- ast getur. Og við getum framleitt miklu meira. Hugsaðu þér, Akureyri var algjörlega sjálfbær til 1970, allt var framleitt þar, fötin, skórnir, bindið!“ – Og nú tala allir um sjálfbærni! „Svo er verið að flytja allt þetta dót á milli heimsálfa, þvert yfir hnöttinn. Og ekki er tal- að um mengun út af því, risaskipum og flug- vélum. Það er bara talað um að bíldruslurnar okkar mengi. En annað má flytja út og suð- ur.“ „Látum við ekki sauma allt á okkur í Kína?“ skýtur Sigríður inn í. „Þetta er skrítið orðið,“ segir Bragi. „En þetta er dásamað.“ Hann lítur til Sigríðar: „Ert þú ekki búin að segja honum allt?“ „Ég hef ekki sagt neitt,“ svarar Sigríður. 23 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 31. DESEMBER 2011

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.