Morgunblaðið - 17.01.2012, Qupperneq 19

Morgunblaðið - 17.01.2012, Qupperneq 19
19 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. JANÚAR 2012 Beðið eftir strætó Unga fólkið lætur smá hálku ekkert á sig fá og á sjaldnast í nokkrum vandræðum með að fóta sig. Krakkarnir kunna líka af einhverjum ástæðum betur að detta en þeir eldri. Kristinn Tillaga þess efnis að ákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrver- andi forsætisráðherra, fyrir lands- dómi, verði dregin til baka, kemur til umræðu á Alþingi í vikulok. Skiptar skoðanir eru um málsókn- ina. Ég er einn þeirra sem bera ábyrgð á ákærunni gegn Geir. Ég hef hins vegar gert það upp við mig að styðja þessa tillögu og harma það helst að hún skuli ekki hafa komið fram fyrr. Sá maður sem slíkt segir á fyrst og fremst við sjálfan sig að sakast. Reyndar tel ég að afdrifarík mistök hafi verið gerð við atkvæðagreiðslu um landsdómsmálið á Alþingi. Tillagan sem borin var undir Alþingi gekk út á að fjórir ráðherrar færu fyrir lands- dóm, sem skyldi kanna hvort embættisfærslur þeirra stæðust lög um ráðherraábyrgð, tveir úr Sjálfstæðisflokki og tveir úr Samfylkingu. At- kvæðagreiðslan varð í höfuðdráttum eftir flokkslínum. Af hálfu stjórnarþingmanna greiddu þingmenn VG atkvæði með tillögunni í ýtrasta formi hennar en samfylkingarþing- menn greiddu ekki atkvæði á einn veg um alla þá einstaklinga sem í hlut áttu. Þegar upp var staðið varð niðurstaðan sú að aðeins einn maður skyldi ákærður, Geir H. Haarde. Málið tekur eðlisbreytingu Í mínum huga tók málið þarna eðlisbreyt- ingu. Málaferli sem áttu að beinast að ábyrgð „stjórnmálanna“ á mistökum í aðdraganda hrunsins urðu með þessari atkvæðagreiðslu að málsókn gegn einum einstaklingi. Mistökin sem ég kalla svo, voru þau að stöðva ekki atkvæða- greiðsluna, þegar sýnt var að hún var að taka á sig afskræmda flokkspólitíska mynd, og gefa þingmönnum ráðrúm til að íhuga málið nánar. Mér segir svo hugur að við þá íhugun hefðu margir sem greiddu atkvæði með málsókn kos- ið að láta eitt yfir alla ganga í stað þess að setja alla ábyrgðina á herðar eins manns. Þar tala ég fyrir sjálfan mig. Um málatilbúnaðinn allan má deila og skal það fúslega viðurkennt að aldrei hef ég verið sáttur við þetta mál innra með mér og hefði heldur ekki orðið þótt þeir einstaklingar aðrir sem tillagan beindist að hefðu einnig verið ákærðir. Þetta er stór játning og engan veginn auðveld því þessi ákvörðun hefur þegar haft af- drifaríkar afleiðingar fyrir einstakling og sam- félag. Ætla ég hér að skýra þessa afstöðu mína nokkuð. Uppáskriftir og medalíur Í mínum huga er pólitískt uppgjör við hrunið margfalt stærra og mikilvægara en svo að það fari fram með málsókn á hendur örfáum ein- staklingum fyrir mjög þröngt afmarkaðar yfir- sjónir þeirra í aðdragandanum. Pólitísk ábyrgð á hruninu er margþætt og teygir sig alllangt aftur í tímann. Fyrir þessu var gerð ítarleg grein í rannsóknarskýrslum Al- þingis. Þær skýrslur voru vel unnar þótt langt sé frá því að þær hafi verið óaðfinnanlegar og má þar nefna að varðandi hina pólitísku ábyrgð tel ég marga hafa sloppið furðuvel frá borði. Af- glöp margra stjórnmálamanna voru ævin- týraleg og teflt á tæpasta vað í ýmsum efnum. Eftir á verður myndin ljós sem mörgum var óskýr í samtím- anum. Nú sjá allir hve afdrifaríkt það var að stöðva ekki Icesave- blekkingu Landsbankans í fæð- ingu. Og nú eru öllum augljós pólitísk axarsköft þáverandi for- sætisráðherra og utanríkis- ráðherra sem vorið 2008 fóru út í heim í fylgd útrásarvíkinga að vitna um öryggi fjármálakerfis- ins! Og öll þau sem höfðu klappað fyrir útrásarmönnum þegar þeir sölsuðu undir sig almannaeigur fjárvana þjóða, á Balkanskaga og víðar, höfðu ekkert að athuga við siðleysið sem í þessu fólst. Þau örfáu sem vöruðu við voru hædd og spottuð. Áfram skyldi haldið. Medalíur voru veittar og fjölmiðlarnir buðu „athafnaskáldum“ til stofu. Sem dæmi um dómgreindarleysið má nefna að á sama tíma og forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann lögðu land undir fót var verið að kynna á Al- þingi frumvarp fjármálaráðherrans sem gert hefði lífeyrissjóðum kleift að taka þátt í skort- sölubraski! Það var sem betur fer stöðvað en mér er minnisstætt hvað þurfti til svo að það gerðist. Andrúmsloftið var allt á þennan veg. Ísland átti að verða miðpunktur fjármálaheimsins og því minna aðhald og eftirlit þeim mun betra! Þau áttu sér draum Á viðskiptaþingi árið 2005 sagði Halldór Ás- grímsson, þáverandi forsætisráðherra: „Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármála- miðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda …“ Á Alþingi í mars þremur árum síðar sagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, arftaki Halldórs og þar áður Davíðs Oddssonar, forsætisráðherrans sem lagði niður Þjóðhags- stofnun: „Frá því að tillögur umræddrar nefndar, sem forveri minn … skipaði til að skoða alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, hafa ýmis skref verið … Fyrst má nefna ný lög um starfs- tengda lífeyrissjóði … Aðalatriði þessarar hug- myndar er að nýta þá jákvæðu ímynd sem ís- lenska lífeyrissjóðakerfið hefur á alþjóðavettvangi … Í öðru lagi má nefna … skattfrelsi hagnaðar af sölu hluta- bréfa … Í þriðja lagi vil ég nefna nýlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun tekju- skatts á fyrirtæki … Í fjórða lagi hefur einnig markvisst verið unnið að því að draga úr skrif- ræði og kostnaði í reglusetningum hins opin- bera, m.a. undir formerkjum þriggja ára að- gerðaáætlunar sem kallast Einfaldara Ísland … Að öðru leyti er ég sammála því sem segir í tillögu nefndarinnar, að mikilvægt sé að horfa til þess sem langtímamarkmiðs að ganga helst aldrei skemur í umbótum á rekstrarskil- yrðum fyrirtækja en viðmiðunarþjóðir okkar gera … Til skoðunar hafa verið í fjármálaráðu- neytinu drög að frumvarpi frá viðskiptaráðu- neytinu um svokallaða fjárvörslusjóði …“ Kvótinn, einkavæðing, útrás og auðlindir Þessi saga á sér lengri rót. Að minnsta kosti frá því þáverandi stjórnvöld heimiluðu að braska með veðsettan kvóta í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þá byrjaði útrásaræv- intýrið, sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins áttu eftir að styðja við fram á haustið 2008 þar til allt hrundi og varð ákafinn meiri eftir því sem nær dró hruni. Ýmsar vörður voru á þessari vegferð, einka- væðing sjóða atvinnulífsins þegar milljaðrar sem atvinnuvegirnir höfðu safnað voru færðir fjármálakerfinu til ráðstöfunar. Síðan kom einkavæðing á einkavæðingu ofan: SR-Mjöl, fært fjármálamönnum á silfurfati, markaðs- væðing Pósts og síma, þar sem nýir stjórn- endur lögðust í stórfellt brask með stofnun sem séð hafði okkur fyrir ódýrustu símaþjónustu í heiminum og árlegum rekstrarafgangi inn í rík- issjóð! Og síðast en ekki síst einkavæðing bank- anna. Það er ekki ofsögum sagt að Íslandi hafi verið umturnað. Tiltölulega saklaust samfélag varð siðlaus spilabúlla. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Að sjálfsögðu voru gerendur. Spilavítið Ísland var búið til með markvissum og yfirveguðum hætti. Það var ásetningur Sjálfstæðisflokksins að gera Ís- land að fjármálamiðstöð heimsins með minna reglugerðarverki og hagstæðari skattaskil- yrðum fyrir braskfyrirtæki en fyrirfundust á á byggðu bóli. Framsókn stóð sig afbragðsvel í þessari viðleitni og Samfylkingin líka þegar að henni kom; áköf og gagnrýnislaus. Glæpir og afglöp En hvar liggja mörkin á milli glæpa og af- glapa? Hér hlýtur ásetningur að skipta máli. Mest af því sem hér hefur verið vísað til var án efa gert í pólitískri blindu en ekki af illum ásetningi og segir mér hugur að jafnvel van- rækslan í eftirliti hafi oftar en ekki byggst á óskhyggju, voninni um að allt færi á besta veg, jafnvel eftir að grunsemdir vöknuðu um að pottur væri brotinn. Hið glæpsamlega sem að stjórnvöldum snýr varðar að mínu mati fyrst og fremst einkavæðingu bankanna og verðmætra almannaeigna, þegar einstaklingar og fyrirtæki mökuðu krókinn á fullkomlega siðlausan hátt og þannig að ætla má að fólk tengt stjórnmálum hafi hagnast persónulega vegna ákvarðana sem teknar voru á vettvangi stjórnmálanna. Ég vil gera greinarmun á slíku athæfi annars vegar og skaðlegri pólitískri kreddu hins vegar. 12. febr- úar 2010 birtist forsíðufrétt í DV með myndum af Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladótt- ur, Björgvini G. Sigurðssyni, Árna Mathiesen ásamt nokkrum fleiri einstaklingum undir risa- fyrirsögn: Grunuð. Af þessu tilefni skrifaði ég eftirfarandi: „Nú hef ég ekki séð grunsemd- irnar útlistaðar. En ég vara við því að búa til glæpamenn úr velviljuðu og heiðarlegu fólki sem kann að hafa unnið sér það til saka að hafa sýnt fyrirhyggjuleysi, andvaraleysi – augljóst nú eftir á en ekki endilega þá. Yfirsjónarbrot eru ekki sama og ásetningsglæpir. Það truflar mig að svo virðist sem einkavæðing bankanna og samkrullið við stjórnmálin hafi ekki verið tekin til rannsóknar á sama tíma og umræddir einstaklingar eru leiddir fram fyrir alþjóð. För- um varlega í fordæmingum!“ Einn svarar pólitískri ákæru! Í viðtali í Fréttablaðinu 25. september 2010 sagði ég eftirfarandi: „Auðvitað þarf enginn að láta sér bregða í brún þótt fólk sé kallað til ábyrgðar samkvæmt lögum. Það er ekki þar með sagt að fram séu settar ásakanir um óheið- arleika, í skilningi þess sem við höfum séð ger- ast í bankakerfinu. Ég geri mikinn greinarmun þarna á milli. Við þurfum að skilja að þetta snýst um ráðherraábyrgð og lög um hana voru ekki sett að tilefnislausu. Hins vegar vil ég fá rannsókn á einkavæðingu bankanna – og einka- væðingunni almennt – vegna þess að þar tel ég að þessir tveir heimar, annars vegar hinn póli- tíski heimur ráðherraábyrgðar og hins vegar hinn sviksami heimur ásetningsbrotanna, skar- ist.“ Skýrsla þingmannanefndar Alþingis snýr fyrst og fremst að Alþingi og vinnulagi þess í aðdraganda hrunsins og síðan þeim lærdómum sem megi þar af draga og með hliðsjón af því hverju þurfi að breyta. Þetta er uppistaða skýrslunnar. Þar á Alþingi talsvert óunnið. Í kjölfar þess að skýrslan var kynnt á Alþingi og samþykkt þingsályktun um efni hennar kom fram umrædd tillaga um að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu látnir svara til saka frammi fyrir landsdómi. Í stað fjögurra einstaklinga eins og lagt var til stendur þar nú einn maður. Nokkr- um ákæruefna hefur verið vísað frá. Eftir standa ákærur sem snúa að andvaraleysi og skorti á samráði. Lög og réttlæti Í ljósi þess sem að framan greinir taldi ég eðl- isbreytingu eiga sér stað við atkvæðagreiðsluna á Alþingi um þetta mál. Þar að auki – og vegur það þyngst – hef ég nú komist að þeirri niður- stöðu að ég – og meirihlutinn við atkvæða- greiðsluna – hafi gert rangt. Á vettvangi stjórn- málanna höfðu um langan tíma verið teknar ákvarðanir sem stefndu þjóðinni í ógöngur. Mín skoðun er sú að glæpsamleg ásetningsbrot eigi að leiða til lykta fyrir dómstólum. Að því er nú unnið. Pólitíska sökin er hins vegar miklu víð- tækari og hvílir ekki hjá örfáum einstaklingum heldur mörgum. Það er ósanngjarnt að leggja pólitíska ábyrgð hrunsins í bankakerfi, sem rek- ið var eins og spilabúlla, á einn mann. Ég vil gera að mínum eftirfarandi orð vinnu- hóps um siðferði í rannsóknarskýrslu Alþingis: „Ef einblínt er á sekt einstakra manna er líklegt að við missum sjónar á flóknu samspili ein- staklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti og að við förum á mis við þá lærdóma sem draga þarf af svo miklum at- burðum.“ Við þetta vil ég bæta að réttarríki rís aldrei undir nafni, nema lög og réttlæti fari saman. Eftir Ögmund Jónasson » Í mínum huga er pólitískt uppgjör við hrunið marg- falt stærra og mikilvægara en svo að það fari fram með mál- sókn á hendur örfáum ein- staklingum fyrir mjög þröngt afmarkaðar yfirsjónir þeirra í aðdragandanum. Ögmundur Jónasson Höfundur er innanríkisráðherra. Við gerðum rangt

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.