Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.04.2013, Blaðsíða 60
60 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.4. 2013
H
alló rauðir“ syngja áhangendur Man-
chester United fjörlega við leikvanginn
Old Trafford. Heimavöllurinn er smám
saman að fyllast og yfir 76 þúsund
manns að koma sér fyrir.
Stemningin er engu lík þegar liðin mætast, enda er
þetta ekki aðeins innanborgarslagur í Manchester held-
ur bera þau höfuð og herðar yfir önnur lið í ensku úr-
valsdeildinni. Í einu horninu eru nokkrar þúsundir
stuðningsmanna City og fara mikinn.
Missti gleraugun
En þeir mega sín þó lítils þenji tugir þúsunda United-
aðdáenda raddböndin. Hörðustu stuðningsmennirnir fyr-
ir öðrum enda vallarins. Og að því marki vill Ferguson
sækja í seinni hálfleik. Brostið er á með söng, nema
hvað. Eitt meginstefið er endurtekið þrisvar og kunn-
uglegt úr sjónvörpum landsmanna:
We love United! We do!
Og klykkt út með innblásnu:
Oh, United, we love you!
Áður en leikurinn hefst er hvíslað að mér af ókunnug-
um en glaðhlakkalegum manni í næsta sæti: „Eins og
vinur minn sagði: Þessi leikur er nú þegar peninganna
virði.“ Elskuleg eldri kona af írskum uppruna sem heitir
Mary og er Íslandsvinur rifjar upp leik aldarinnar á
Nou Camp þegar United vann Bayern München í úr-
slitaleik meistaradeildar Evrópu með því að skora tvö
mörk í uppbótartíma.
„Það var engu líkt,“ segir hún. „Fagnaðarlætin voru
svo mikil þegar United jafnaði að ókunnugir föðmuðust.
Ég missti gleraugun í hamaganginum og gat mig hvergi
hrært. Ég varð að bíða og sá því ekki seinna markið.
En ég fann gleraugun þegar fólk var farið af pöllunum
og þau voru óbrotin.“
Stjórnmál og fótbolti
Leikurinn er hafinn. Eftir því var tekið að áður en hann
hófst var ekki einnar mínútu þögn vegna fráfalls Mar-
grétar Thatcher fyrrverandi forsætisráðherra Breta.
Ástæðan sú að menn treystu sér ekki til að tryggja að
áhorfendur myndu virða það. Það var umdeilt meðal
knattspyrnuáhangenda þegar gerð var krafa um að þeir
bæru skilríki vottuð af stjórnvöldum á leikjum, en það
var liður í baráttunni gegn óspektum og ofbeldi.
Og síðar þótti hún taka harða afstöðu gegn áhangend-
um Liverpool eftir Hillsborough-slysið, en David Came-
ron baðst á dögunum afsökunar á framkomu stjórnvalda
í þeirra garð þegar skýrsla byggð á nýjum gögnum
hreinsaði þá af ásökunum lögreglu.
En Margréti má virða til vorkunnar að hún hafði eng-
an sérstakan áhuga á knattspyrnu. Nú er annað hljóð
komið í strokkinn hjá stjórnmálaleiðtogum. Cameron
styður til dæmis Aston Villa og sækir leiki eða fylgist
með þeim í sjónvarpi.
Þegar Chelsea bar sigurorð af Bayern München í úr-
slitum meistaradeildarinnar í fyrra, þá var dreift mynd-
um af skrifstofu forsætisráðherrans sem sýndu hann
baða út öllum öngum af fögnuði yfir vítaspyrnukeppn-
inni, en þá var hann í Camp David með öðrum leiðtog-
um. Barack Obama var til hliðar við Cameron og Ang-
ela Merkel var einnig á myndinni, en öllu þungbrýndari
þegar Didier Drogba skoraði hjá samlanda hennar,
Manuel Neuer. Ekki á hverjum degi sem breskt lið
vinnur þýskt í vítaspyrnukeppni.
Undramark Aguero
„Drullaðu þér út af Giggs!“ hrópar aðdáandi United
þegar hann tekur hælspyrnu með hægri fæti á eigin
vallarhelmingi beint á liðsmann City. Það endar með
marki. Vinur er sá er til vamms segir. Og víst er að
áhangendur United hika ekki við að gagnrýna sína
menn. Þegar Rooney mistekst að lyfta fyrirgjöf yfir
varnarmenn City á Robin Van Persie, sem er alveg frír
á fjærstöng, er hrópað: „Við viljum fá Scholes!“
Það er kalt þennan dag. Svo kalt að þegar áhorfandi
hleypur inn á völlinn er hann ekki nakinn heldur full-
klæddur. Áhangendur United syngja: „Við erum United,
við gerum það sem við viljum.“
Þennan dag sýnir Phil Jones að hann sómir sér vel í
miðverðinum og verður fullfær um að fylla skarð Ferd-
inands, sem yngist víst ekki með árunum. Jones bjargar
tvisvar með tæklingum á elleftu stundu og skorar mark,
að vísu með viðkomu í varnarmanni Chelsea. Gríð-
arlegur fögnuður brýst út og það er sungið:
The City is yours!
Í lauslegri þýðingu: Borgin er ykkar – eða eru það
mótherjarnir? En viljinn er sterkari hjá City. Kannski
verða leikmenn United værukærir, enda 15 stigum yfir
fyrir leikinn. Eða skrifast sigur City alfarið á hæfileika
Kun Aguero, sem skorar glæsilegt mark eftir að hafa
smogið leikandi létt í gegnum hóp liðsmanna United?
Markið minnir svolítið á einleiksmark George Best gegn
Sheffield United árið 1971. Hvort skyldi vera fallegra?
Það er þungt yfir áhangendum United eftir leikinn,
rétt að þeir hreyti ónotum hver í annan, en áhangend-
um City er ekki hleypt strax út af öryggisástæðum.
Frekar en vant er. Þannig hefði Thatcher viljað hafa
það. Þeir standa áfram í sínum bás og syngja. Í kvöld
er borgin þeirra.
Titillinn er sagður í höfn hjá United. En spilað var um heiðurinn á Old Trafford. Ensku meistararnir létu finna fyrir sér. Eru það kaflaskil?
Morgunblaðið/Pétur Blöndal
Phil Jones skallar í markið. Nani fylgist með af hliðarlínunni.
Innanborgarrígur í Manchester
TEKIST VAR Á UM HEIÐURINN Á OLD TRAFFORD ÞEGAR STÓRVELDIN Í MANCHESTER
ÁTTUST VIÐ. AGUERO SKORAÐI DRAUMAMARK DAGINN SEM THATCHER FÉLL FRÁ.
Ferguson flýtir sér af velli með föruneyti sínu eftir tapið.
Zabaleta tæklar Persie á viðkvæmum stað.
* „Ef horft er til sögu félagsins, þá höfum við alltaf gert okkur erfiðarafyrir og dregið áhangendurna með okkur; þeir hafa fylgst með ínagandi óvissu úr sætum sínum á hverju ári.“
Alex Ferguson eftir leikinn á mánudag
Boltinn
PÉTUR BLÖNDAL
pebl@mbl.is