Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.08.2014, Síða 47
hún birtist í samfélagsgerðinni. Nú til dags fara
fæstir eina beina braut eftir að námi lýkur, hvort
heldur sem er í listum eða öðru. Flestir púsla
saman sinni lífsleið af miklu meiri fjölbreytileika
en áður tíðkaðist – bregða sér í fleiri hlutverk.“
Hún bætir enn fremur við að Listaháskólinn
þurfi að standa sig betur sem rannsóknarháskóli
en í þeim efnum sé aftur ekki hægt að líta
framhjá hlutverki hins opinbera. „Við þurfum að
sinna hér raunverulegum rannsóknum eins og
þeir fremstu úti í heimi gera. Hins vegar höfum
við ekki úr sama rannsóknarfé að spila og aðrir
skólar innan lands eða utan og höfum jafnvel
fengið misvísandi upplýsingar í vetur um hvernig
fjármagn til okkar er reiknað – að hvaða marki
rannsóknarfé er innifalið í því. Við þurfum skýr
svör til að móta rannsóknarstefnu út frá þeim
fjárveitingum sem við fáum og verðum að geta
áttað okkur á hvers við þurfum að afla sjálf til að
efla rannsóknarþátt kennara og styrkja rannsókn-
artengt nám.
Skólinn hefur líka lengið beðið eftir svörum frá
ráðuneytinu varðandi stofnun kvikmyndadeildar.
Það væri bæði fagumhverfi kvikmyndanna og
skólanum mikils virði að hrinda því í framkvæmd,
samlegðin við aðrar greinar í skólanum er augljós
og möguleikarnir sem hlytust af því miklir.“
Umskipti til hins verra í fjölmiðlum
Fríða Björk starfaði um árabil sem menningar-
ritstjóri og skríbent á Morgunblaðinu og fjallaði
þar um flestar listgreinar. Hún segir að sér hafi
verið falið að sjá til þess að allar listir fengju góða
og uppbyggilega umfjöllun sem byggði á hug-
myndafræði listanna sjálfra en ekki markaðs-
lögmálum. Er talið berst að menningarumfjöllun
fjölmiðla er Fríða ómyrk í máli um þá þróun sem
hefur átt sér stað. „Það hafa orðið mikil umskipti
til hins verra í fjölmiðlum frá aldamótum – net-
miðlar hafa sótt í sig veðrið, sem er frábært, en
ekki alveg áttað sig á vægi menningarinnar eins
og hún var ræktuð í prentmiðlum fyrri áratuga.
Það sinnir enginn djúpri og faglegri greiningu á
listum fyrir almenning eins og gert var. Því mið-
ur. Umfjöllunin er handahófskennd og markaðs-
miðuð, fyrst og fremst. Hún felst yfirleitt í kynn-
ingu á verkum eða viðburðum, einhverju sem
auglýsingar eða samfélagsmiðlar gætu sinnt. Fjöl-
miðlar þjóna menningunni best með því að kryfja,
gagnrýna og greina og eiga að leita til sérfræð-
inga við það. RÚV stendur sig vel en meiri sam-
keppni hefði faglegt aðhald í för með sér.“
Hugmyndir um hinn frjálsa og skapandi lista-
mann sem fær hugmyndir sínar frá nafnlausri
uppsprettu innra með sér og hið akademíska há-
skólaumhverfi fara ekki alltaf saman og því er
ekki úr vegi að spyrja Fríðu hvert hlutverk lista-
háskóla sé gagnvart nemendum sínum. „Hlutverk
listaháskóla er að gera nemendum kleift að nýta
hæfileika sína til fullnustu út frá sinni persónu-
legu listrænu sýn. Skólinn kennir á þá miðla sem
nemandinn þarf að tileinka sér, veitir nauðsynlega
þjálfun, setur starfið í hugmyndafræðilegt sam-
hengi og fyllir upp í bakgrunnsþekkingu þá sem
þarf til að geta verið frumlegur og skapandi á
eigin forsendum. Námið er mikil ögrun fyrir nem-
endur, krefst bæði vinnusemi og dirfsku þar sem
óttinn við tabúla rasa er kannski helsti farar-
tálminn, rétt eins og í allri annarri skapandi
vinnu.“
Þegar nemendur Listaháskólans útskrifast
blasir iðulega við þeim ókannað land og leiðir
þeirra að námi loknu eru jafnmisjafnar og þeir
eru margir. Listamenn samtímans eru oftar en
ekki sínir eigin vinnuveitendur með því að skapa
verkefni sín sjálfir. Allir eiga það þó sameiginlegt
að ætla sér að vinna að listrænni sköpun. Mér
leikur hugur á að vita hvert hlutverk listrænnar
sköpunar í samfélaginu er í augum Fríðu Bjarkar.
„Ekkert samfélag þrífst án listrænnar sköpunar,
það er margsannað og einföld staðreynd. Þar sem
listin er bæld, t.d. vegna pólitískra ofsókna, styrj-
alda, spillingar eða neyðar af öðru tagi, þrífst hún
sem aldrei fyrr. Kalda stríðið færði aldeilis sönn-
ur á það beggja megin járntjaldsins. Listin er ein-
faldlega svo ríkur þáttur í mannlegu eðli, hvort
sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. Hlu-
verk listarinnar getur verið hvað sem er – það
fer eftir málefnum, orðræðu og fagurfræði hvers
samtíma. Ég man þó ekki eftir neinni list sem
hefur haft ill áhrif á heiminn eða umhverfi sitt –
það er þá ekki list heldur eitthvað annað. Jafnvel
mjög ögrandi list í einhverjum skilningi hefur
góð áhrif þar sem hún neyðir fólk til að taka af-
stöðu, til að hugsa, til að átta sig á umhverfi sínu
og stöðu.“
Skiptir máli að mennta
listamenn hér á landi?
Íslendingar eyða ekki miklum opinberum fjár-
munum í listir og íslenskir listamenn eru vanir
þeirri hugsun að gengið sé út frá því að þeir gefi
vinnu sína. Fríða Björk bendir á að Íslendingar
setji heldur ekki mikla fjármuni í menntun á há-
skólasviði. Í ljósi þessara aðstæðna er rétt að
velta því upp hvers vegna það sé mikilvægt að
listamenn hljóti menntun sína hér á landi?
„Það má alveg eins spyrja af hverju það skipti
máli að við búum á Íslandi. Við erum hér í þessu
samfélagi af því að okkur finnst það skipta máli í
heimsmyndinni. Listin er þáttur í því rétt eins
og heilbrigðiskerfið, vegakerfið, vistkerfið og
landfræðilega legan uppi við heimskautsbaug.
Við gætum sent alla sem vilja mennta sig í list-
um til útlanda, en við getum líka sagt öllum að
hlusta bara á geisladiska og lagt niður lifandi
tónlistarflutning. Það kunna flestir að lesa á
ensku, svo það er kannski í einhverjum skilningi
óþarfi að skrifa bækur á íslensku – samt vitum
við að það er lífsnauðsynlegt. Við getum ekki án
þess verið að tjá okkur um sjálf okkur og til-
vistina.
Svo má ekki gleyma því að við höfum ýmislegt
fram að færa og erum vonandi ekki svo sjálf-
hverf að við stundum listmenntun eða listsköpun
einungis fyrir sjálf okkur. Við höfum heilmiklu
að miðla og auðgum heimsmenninguna með því
að vera til, rétt eins og aðrir annars staðar. “
Ég velti fyrir mér hvaða sýn rektorinn hafi til
íslenskrar menningar og lista. Er eitthvað sem
einkennir hana sérstaklega, aðgreinir hana frá
listalífi annarra þjóða?
„Eitt einkenni er hvað íslensk list er orðin al-
þjóðleg, þótt það hljómi eins og þversögn. Og
það er bara fínt. Við erum hluti af stærri heild.
En það sem einkennir hana helst er kannski
þessi vilji til að hefjast handa, frumkrafturinn.
Hins vegar skortir okkur oft þrek til þess að
fullvinna hugmyndir og taka þær eins langt og
hugsanlega væri hægt að fara með þær. Oft er
orsökin skortur á fjármunum. Það eru ekki til
peningar til að fullvinna hluti eða halda verk-
efnum gangandi, of langt seilst til að gera mikið
úr litlu. En íslenskir listamenn búa líka yfir hug-
rekki – hæfileika til að láta vaða. Hugsanlega
tengist það því hvernig fólk hér er alið upp. Það
er vant að ganga í mörg störf, að það sé þörf
fyrir það. Ungt fólk fær að spreyta sig og það er
vettvangur fyrir afraksturinn þótt hann sé
óþroskaður. Hér er auðvelt að koma sér á fram-
færi á meðan í milljónasamfélagi þarf kannski að
vinna árum saman án þess að nokkur taki eftir
því. Við sjáum margt á tilraunakenndum stigum
sem er jákvætt og skemmtilegt.“
Fríða Björk er gift Hans Jóhannssyni hljóð-
færasmið og eiga þau saman tvö börn, Elínu
Hansdóttur myndlistarmann og Úlf Hansson
tónskáld. Því er ljóst að Fríða Björk er áfram
umvafin listum og menningu að loknum vinnu-
degi. Líf listamannsins er oft og tíðum ekki auð-
velt og þægilegt. Hvaða áhrif skyldi það hafa á
æðsta stjórnanda listaháskóla að eiga tvö börn
sem bæði eru starfandi listamenn?
„Þetta er ein órofin keðja hjá okkur, listir eru
partur af heimilislífinu og þannig hefur það alltaf
verið. Elín og Úlfur hafa eflaust mótast af okkur
Hans í upphafi en það eru hreinar línur að þau
móta foreldra sína mikið í dag. Við deilum áhuga
okkar, alveg sama hvaða listgrein ber á góma.
Listirnar sameina okkur sem jafningja.“Morgunblaðið/Eggert
* Eitt einkenni er hvað íslensk list er orðin alþjóðleg,þótt það hljómi eins og þversögn. Og það er bara fínt.Við erum hluti af stærri heild.
24.8. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 47