Skessuhorn - 21.05.2014, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 21. MAÍ 2014
Mikill skortur er á leiguhúsnæði
á suðvestanverðu landinu. Verst
er ástandið á höfuðborgarsvæðinu
þar sem leiguverð hefur náð nýjum
hæðum. Þá herma nýjustu fréttir að
leigusalar séu farnir að krefja vænt-
anlega leigutaka um ýmsar upp-
lýsingar sem ekki standist lög að
krefjast. Fara þeir t.d. fram á upp-
lýsingar um skuldastöðu leigjenda,
sakavottorð, staðfestingu á atvinnu
og fleira. Leigumarkaðurinn er því
afar þungur og er Vesturland þar
engin undantekning. Sem dæmi
má nefna að tuttugu manns höfðu
á tveimur dögum samband við
leigusala þriggja herbergja íbúðar
á Akranesi sem auglýst var í smá-
auglýsingum Skessuhorns fyrr í
vor. Þegar lítið sem ekkert er byggt
af nýju húsnæði verður baráttan
harðari um eldri eignir einkum á
svæðum þar sem atvinnuástand er
gott. Í kjölfar bankahrunsins hefur
Íbúðalánasjóður eignast gríðarlega
margar fasteignir víða um land,
meðal annars tugi fasteigna á Akra-
nesi, í Borgarnesi og Snæfellsbæ
svo dæmi séu tekin. Þessar eign-
ir fást ekki til leigu og standa því í
flestum tilfellum tómar. Athygli og
umræðu hefur vakið að eignir þess-
ar eru boðnar til sölu á háu verði
miðað við ástand þeirra og mark-
aðsverð á sambærilegum eignum
á sömu stöðum. Lesendur geta
sannreynt þetta með að skoða fast-
eignavefina á netinu. Þess má geta
að fasteignir í eigu Íbúðalánasjóðs
eru oftar en ekki án veðskulda og
standa tómar. Á nokkrum stöðum á
Akranesi eru þessar fasteignir farn-
ar að skera sig úr öðrum eignum
í kring, þar sem þær eru með öllu
viðhaldslausar og lýti í umhverf-
inu. Skessuhorn ræddi við forstjóra
Íbúðalánasjóðs um þessi mál auk
þess að heyra viðbrögð Regínu Ás-
valdsdóttur bæjarstjóra á Akranesi
þar sem sjóðurinn á yfir hundrað
eignir.
Allar leiguhæfar íbúðir
komnar í útleigu
Íbúðalánasjóður á nú 112 íbúð-
ir á Akranesi og eru einungis 43
þeirra í útleigu. Hinar 69 eru ýmist
skráðar á sölu eða á leiðinni í sölu. Í
Borgarnesi á Íbúðalánasjóður tugi
fasteigna og töluvert margar einn-
ig í Snæfellsbæ.
Sigurður Erlingsson forstjóri
Íbúðalánasjóðs segir í samtali við
Skessuhorn það vera rétt að flest-
ar íbúðir sjóðsins á Akranesi séu í
þannig ástandi að ekki sé hægt að
leigja þær út. Hann segir allar þær
íbúðir sem sjóðurinn telji leiguhæf-
ar vera komnar í útleigu. „Það eru
gerðar ákveðnar kröfur til leigu-
sala um ástand leiguíbúða og við
þurfum að uppfylla þær. Við drög-
um línuna við eina og hálfa milljón
þegar til framkvæmda kemur og ef
það kostar meira en það að koma
þeim í leiguhæft ástand, þá eru þær
skráðar til sölu. Heimild okkar til
að leigja út íbúðir er í raun skamm-
tímahlutverk sjóðsins til að bregð-
ast við ástandinu á markaðinum.
En það er samt sem áður þannig
að fólk sem missir eignir sínar má
leigja þær áfram.“
Halda
verðlagningarfundi
Sigurður hafnar þeirri gagnrýni að
Íbúðalánasjóður sé með of hátt verð
á fasteignum sínum. „Það verklag
sem við höfum við að verðmeta
íbúðir er margþætt. Við byrjum á
því að nokkrir fasteignasalar gera
verðmat á eigninni. Við tökum svo
hæsta og lægsta verð í burtu. Við
erum einnig með gagnagrunn yfir
fasteignaviðskipti í landinu sem við
notum til að bera saman fasteigna-
verð við söluverð sambærilegra
eigna á svæðinu. Ástandsskoðun er
gerð á íbúðunum og ef mjög mik-
ið er að þeim, þá lækkar verðið. Að
lokum er haldinn svokallaður verð-
lagningarfundur þar sem tekin er
ákvörðun um söluverð eignarinn-
ar. Þar mæta byggingafróðir menn,
fasteignasalar og fleiri og gera til-
lögu um verðmat. Það hefur sýnt
sig að verðið sem við seljum á er
í takt við það sem er í gangi á fast-
eignamarkaði.“
Selja ekki eignir á
brunaútsölu
Sigurður Erlingsson segir þrýsting-
inn í þjóðfélaginu hafa verið þann-
ig að menn gefa sér að Íbúðalána-
sjóður eigi svo mikið af eignum og
því ætlast þeir til að sjóðurinn selji
á lægra verði. „Við pössum aftur á
móti upp á að vera ekki með bruna-
útsölu á eignum. Við tökum inn í
myndina hver kostnaðurinn er að
liggja með eignina lengur til sölu
og skoðum að sjálfsögðu öll tilboð.
Ef við fáum sæmileg tilboð í eign-
irnar þá gerum við móttilboð, líkt
og tíðkast í fasteignaviðskiptum. Ef
það er svo að nýir gallar eru komnir
fram, eða ef þeim sem gerðu verð-
matið hefur yfirsést einhverjir gall-
ar, er möguleiki á lækkuðu verði.
Fyrr eða síðar koma tilboð sem eru
ásættanleg.“ Hann segir að Íbúðal-
ánasjóður hafi ekki farið í það að
lækka verð á lakari íbúðum þrátt
fyrir ástand þeirra. „Hingað til hef-
ur verð verið sett á eignir og það
verð hefur haldist, þrátt fyrir verð-
hækkun á fasteignamarkaði. En við
hækkum ekki verð og okkar eignir
sem ekki hafa selst eru þá hlutfalls-
lega ódýrari en aðrar á markaðn-
um. Við erum aftur á móti að skoða
þetta og erum að bæta við ástands-
skoðunum. Það stendur einnig til
að flokka landið eftir ýmsu, svo sem
þar sem minni viðskipti eru eða lak-
ari eignir. En við höfum ekki enn
farið í að lækka verðið þó við séum
móttækilegir fyrir tilboðum,“ seg-
ir hann. Sigurður bætir því við að
starfsmenn Íbúðalánsjóðs passi vel
upp á að verðfella ekki fasteigna-
markaðinn á svæðinu með því að
selja eignir á of lágu verði. „Okk-
ur hefur tekist ágætlega til, að
vera með jafnvægismiðaða nálgun,
vera með sanngjarnt verð og eng-
ar brunaútsölur. Við höfum hrein-
lega ekki heimild til að selja eignir
á hrakvirði eða óeðlilega lágu verði.
Þetta eru eignir ríkisins sem við
erum að selja. Við getum því hrein-
lega ekki fallist á að selja íbúðirnar
á hrakvirði, við myndum verðfella
markaðinn á svæðinu ef við gerð-
um það.“
Ósátt við verðlagningu
íbúða
Skessuhorn bar ástand þessara mála
undir Regínu Ásvaldsdóttur bæjar-
stjóra á Akranesi. „Akraneskaup-
staður hefur átt í talsvert mikl-
um viðræðum við Íbúðalánasjóð
um þær fasteignir sem eru í eigu
sjóðsins á Akranesi. Í fyrra fórum
við í samstarf við sjóðinn um að
hann myndu auglýsa eftir tilboð-
um í tuttugu eignir hér miðsvæð-
is í bænum. Í stuttu máli sagt end-
aði það þannig að sjóðurinn hafn-
aði flestum tilboðunum,“ segir
Regína. Ef skoðað er ástand ýmissa
eigna Íbúðalánasjóðs á Akranesi
sést glöggt að ástand margra þeirra
er svo slæmt að þær teljast varla eða
alls ekki íbúðarhæfar. „Við höfum
verið mjög ósátt við verðlagningu
íbúðanna, ekki hvað síst með til-
liti til ástands þeirra. Sum þessara
húsa hafa staðið auð í nokkur ár og
að mínu mati þarf að ganga lengra
varðandi slíkar eignir. Mér finnst
að það sé kominn tími til að taka
hverja og eina fasteign í eigu sjóðs-
ins og ástandsmeta upp á nýtt,“
segir Regína. Hún segir Akranes-
kaupstað eindregið hafa hvatt til
þess að íbúðirnar yrðu annaðhvort
lagfærðar þannig að þær kæmust á
leigumarkað eða að verðlagning-
in miðaðist betur við ástand íbúð-
anna. „Starfsmenn sjóðsins hafa
einfaldlega ekki lagt í þann kostn-
að fyrir sjóðinn að gera íbúðirnar
upp til að hægt yrði að koma þeim í
leigu,“ segir hún.
Mikill skortur
á leiguhúsnæði
Regína segir að mörg önnur sveit-
arfélög glími við sama vanda og
Akraneskaupstaður. „Ég hef ver-
ið að ræða við kollega mína, það er
bæjar- og sveitarstjóra um þessi mál
og það er þungt í mörgum þeirra
vegna þessa.“ Hún segir að starfs-
hópur á vegum Akraneskaupstað-
ar vinni nú að því að gera úttekt á
stöðu félagslega húsnæðiskerfisins
á Akranesi. „Það má segja að hóp-
urinn sé í miðju ferli en hann skil-
ar af sér niðurstöðum í lok mánað-
ar. Mögulega koma þar fram ein-
hverjar nýjar hugmyndir um hvað
er hægt að gera varðandi eign-
ir Íbúðalánasjóðs og leigumarkað-
inn almennt. Það er mikill skortur
á leiguhúsnæði á Akranesi,“ segir
Regína. Hún segir að næsta skref sé
að sveitarfélög taki sig til og sam-
einist um þessi mál. „Við munum
setja þessi mál á dagskrá þannig
að eitthvað verði gert. Þörfin fyrir
húsnæði er það mikil. Það er sorg-
legt að horfa upp á tómar íbúðir í
eigu Íbúðalánasjóðs á sama tíma og
það er skortur á húsnæði. Þá er ekki
síður slæmt að viðhaldslausar eignir
skera sig úr í umhverfinu og eru lýti
í annars fallegri bæjarmynd.“
grþ
Sjúkraflutningamenn Heilbrigð-
isstofnunar Vesturlands í Ólafs-
vík og Guðjón Hólm Gunnars-
son aðstoðarvarðstjóri hjá Neyð-
arlínunni hafa ásamt Lionsklúbbi
Ólafsvíkur hafið fjársöfnun fyr-
ir sjálfvirku hjartahnoðtæki til að
hafa í sjúkrabílum HVE á svæð-
inu. Tækið heitir Lúkas og kemur
það í stað viðbótar manns við end-
urlífgun. Lúkas sér algerlega um
hjartahnoð og veitir mun árang-
ursríkara hnoð en mannshendur
gera enda þreytist tækið að sjálf-
sögðu ekki. Tækið er fyrirferða-
lítið og með notkun þess skapast
betra rými fyrir bráðaliða, t.d til
að veita öndunaraðstoð og lyfja-
gjöf samhliða því sem tækið hnoð-
ar. „Það er svona hálfur mánuð-
ur síðan við settum okkur í sam-
band við Lionsklúbbinn til að
hefja þessa söfnun. Guðjón Hólm
Gunnarsson kom hingað vestur og
við eyddum heilum degi í að fara á
milli fyrirtækja og stofnana til að
kynna tækið og safna. Lionsklúbb-
urinn sendi svo út bréf til fyrir-
tækja en klúbbfélagar munu halda
utan um söfnunina,“ segir Þór-
arinn Steingrímsson sjúkraflutn-
ingamaður í Ólafsvík í samtali við
Skessuhorn.
Sjúkraflutningamenn á lands-
byggðinni þurfa stundum að beita
hjartahnoði við erfiðar aðstæður
sem geta bitnað á gæðum hnoðs-
ins. Þá þurfa þeir oftar en ekki að
flytja sjúklinga langa leið og þá
þurfa tveir að skiptast á að hnoða.
„Þetta tæki er alveg bráðnauðsyn-
legt fyrir okkur á landsbyggðinni.
Ef tækið er ekki til staðar í sjúkra-
bílum þá þarf stundum að gera hlé
á hnoði, til dæmis á meðan verið er
að færa sjúklinginn til,“ segir Þór-
arinn. Hann bætir því við að erf-
itt sé fyrir sjúkraflutningamenn að
hnoða í langan tíma í senn og ekki
taki nema 11 sekúndur að koma
tækinu á sjúklinginn. Eftir það fái
hann jafnt og stöðugt hjartahnoð.
Lúkas er kominn í sjúkrabíla á
fimm stöðum á landinu; höfuð-
borgarsvæðinu, Selfossi, Suður-
nesjum, Akranesi og í Búðardal.
Á öllum þessu stöðum hafa fyr-
irtæki, félög og einstaklingar lagt
fram fé til kaupanna. „Lionsmenn
hafa opnað reikning þar sem hægt
er að leggja inn ef fólk vill styrkja
þessi kaup með fjárframlagi. Þeir
munu svo leita til fyrirtækja, stofn-
ana, félagasamtaka og einstaklinga
með styrkveitingar. Tæki sem
þetta kostar tvær og hálfa milljón
króna og við vonumst eftir góðum
undirtektum,“ segir Þórarinn.
Númer söfnunarreikningsins er:
Kt: 530586-1709. Bnr: 0190. Hb:
15. Rnr: 630039.
grþ
Sjúkraflutningamenn í Ólafsvík. Fyrir aftan standa Erling Pétursson og Axel
Davíðsson. Fyrir framan þá eru Þórarinn Steingrímsson, Guðbjörn Ásgeirsson og
Elías Róbertsson. Ljósm. AF.
Safnað fyrir hjartahnoðtæki í Ólafsvík
Húsnæði í eigu Íbúðalánasjóðs stendur
tómt þrátt fyrir skort
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á
Akranesi.
Fasteign í eigu Íbúðalánasjóðs. Ljósm. úr safni.
Sigurður Erlingsson forstjóri
Íbúðalánasjóðs.