Fréttatíminn


Fréttatíminn - 05.09.2014, Síða 36

Fréttatíminn - 05.09.2014, Síða 36
Vakrar og lendafagrar É Ég las í nýútkominni ættarbók að forfeð- ur mínir hefðu verið miklir hestamenn, átt glæsta gæðinga og setið þá með prýði. Hestamennskugenin náðu til föður míns sem eyddi æskudögum á hestbaki, ýmist berbakt eða í hnakkpútu, sótti hross og sentist á hrossi á óðali feðra sinna. Sem fullorðinn maður átti hann hesta og hest- hús í Reykjavík, reið út þegar vel viðraði, annaðist hrossin af natni og fór í góðum hópi með hrossin í haga þegar vornóttin var björt. Þess vegna eru myndir í albúmum for- eldra minna ekki síður af hrossum en fólki – eða fólki á hrossum. Enn þann dag í dag þekki ég kærustu klárana með nafni. Hestaáhuginn smitaðist í yngri bróður minn. Hann er hestamaður góður, hefur stundað ræktun og tamið meðfram útreiðum og öðru stússi í kringum hross. Þessi hrossagen fóru hins vegar framhjá mér. Að því leyti er ég ættleri. Það voru brúkunarhross þegar ég var strákur í sveit. Ég gat setið þau án þess að detta af baki en náði ekki góðgangi. Þau annað hvort brokkuðu undir mér eða skelltu sér á stökk. Það var enginn milli- vegur, hvorki flugskeið né hið ljúfa tölt sem lætur manni líða vel í hnakki. Hið sama var uppi á teningnum þegar kom að hrossum föður míns. Ég hafði lítinn áhuga á að gefa og enn minni á að moka undan þeim þótt ég ræki stöku sinnum inn nefið í hesthúsið. Þá sjald- an ég fór á bak náði ég litlu sambandi við reiðskjótann. Ég var að vísu ekki í teljandi hættu á að detta af baki, fremur en í sveitinni. Þeim áfanga hafði ég náð. Ég réð hins vegar engu um það á hvaða gangi hrossið var. Það var yfirleitt brokk, jafnvel hjá mestu gæðingum sem töltu annars undir öllum og jafnvel sjálfum sér, ef því var að skipta. Þess vegna hristist ég meira en innyfli mín kunnu að meta. Sennilega hafa þau hross sem ég reið skynjað að knapinn var óttalegur álfur og því tekið stjórnina í stað þess að láta að stjórn, eins og tamin hross eiga að gera. Ég harmaði það því ekkert sérstaklega þegar karl faðir minn lét af hrossastússi sínu fyrir margt löngu, þótt enn hafi hann áhuga á þessum mögnuðu skepnum og fylgist með þeim í fjarlægð, meðal annars í gegnum hestamennsku yngri bróður míns. Það er því nokkuð um liðið síðan ég leiddi hugann að hrossum, eða þar til um liðna helgi að við hjónin fórum að sjá Reið, sýningu Borgarleikhússins á íslensku dansverki „um dásamlega drama- tískar, villtar og viðkvæmar skepnur,“ eins og sagði í kynningu á verkinu þar sem jafn- framt var spurt: „Hvernig er fullkomin kona í augum samfélagsins í samanburði við hina fullkomnu meri?“ Mín ágæta eiginkona hefur gaman af danssýningum og því var mér bæði ljúft og skylt að fylgja henni á danssýn- ingu leikhússins. Það hef ég gert stöku sinnum, meira að segja séð Svanavatnið í sjálfu Bolshoj-leikhúsinu í Moskvu. Slíkt verður varla toppað. Þá er mér minnis- stæð sýning Þjóðleikhússins fyrir all- mörgum árum á Sölku Völku. Þar klædd- ust dansararnir sjógöllum sem varla hafa létt hreyfingar þeirra, en sýningin er eftirminnileg. Oftar hefur frúin þó farið á danssýningar með dætrum okkar, vinkonum eða öðrum sem dansinn kunna að meta en leyft mér að hvíla heima. Það er svipað með dansinn í mínum kroppi og hestamennskuna. Mér gengur svona og svona að ná takti við dansfélaga, ekki síður en sambandi við hest. Það stóð ekkert um danskunnáttu forfeðra minna í fyrrnefndu ættarriti en hafi þeir haft í sér dansgen er ekki víst að þau hafi erfst í mig nema að litlu leyti. Það var hins vegar forvitnilegt að sjá níu glæsilegar konur breytast í hryssur á sviði Borgarleikhússins. Þar var allt í takt, jafnvel þótt járnað væri með rauðum hælaskóm. Sama er að segja um limaburð allan, hann var tignarlegur og fagur. Þar sem konurnar breyttu sjálfum sér í merar leyfist að lýsa því sem fyrir bar með augum hestamannsins. Þótt ég tilheyri fráleitt þeim hópi heyrði ég í hestamönn- um í æsku minni og nam tungutakið. Þannig mætti ekki lýsa konum, það þætti ekki boðlegt, en þarna voru hryssur í öllu sínu veldi: „Glæsilegar, ljósar yfirlitum, holdugar, loðnar og gljáandi. Dásamlega dramatískar, skapmiklar, villtar og við- kvæmar,“ eins og sagði í tilkynningu leikhússins. Þar var þeim enn fremur lýst á þann hátt að þær væru með „tígu- legan limaburð, langan háls, sterka leggi, breið bök og mjúkar línur. Þægar en óút- reiknanlegar, varar um sig, þolinmóðar og gáfaðar. Tillitssamar, kærleiksríkar, kynæsandi og kraftmiklar.“ Minna mátti það ekki vera. Ég sá ekki betur en ein meranna á sviðinu væri fyl- full. Hún fór sér því ekki eins óðslega og hinar. Hófadynurinn var taktfastur og frýsandi birtust hryssurnar. Ég segi ekki að þær hafi verið í hestalátum, enginn var folinn, en geyst fóru þær um svið, skeið- lagnar með rassaköstum. Vakrar voru stóðmerarnar og lendafagrar. Alhliða gæðingar myndu þær kallast frammi fyrir dómnefnd á landsmóti en þarna voru þær villtar í náttúrunni, óhamdar, ótamd- ar, trylltar, glófextar og taglprúðar. Sennilega byrjaði ég á röngum enda í hestamennskunni. Hryssurnar á sviði Borgarleikhússins voru mun áhugaverð- ari en Þytur og Rauður í sveitinni forðum daga – og jafnvel Skjóni og Refur í eigu föður míns, þótt vekringar væru. Þarna náði ég taktinum, leit merarnar augum folans, skildi það sem fram fór. Það virðist bara hafa verið svona djúpt á genunum. Kannski er ég hestamaður eftir allt saman? Jónas Haraldsson jonas@ frettatiminn.is HELGARPISTILL Te ik ni ng /H ar i SAMKVÆMT BÓKSÖLU Í PENNANUM EYMUNDSSON UM LAND ALLT METSÖLULISTI EYMUNDSSON VIKAN 27.08.14 - 02.09.14 1 2 5 6 7 8 109 43 Iceland Small World - lítil Sigurgeir Sigurjónsson Sköpunarkjarkur Tom & David Kelley Síðasti hlekkurinn Fredrik T.Olsson Iceland Small World - stór Sigurgeir Sigurjónsson Lífið að leysa Alice Munro Afdalabarn Guðrún frá Lundi Amma biður að heilsa Fredrik Backman Skúli skelfir og draugarnir Francesca Simon Fangi himinsins Carlos Ruiz Zafón Niceland Kristján Ingi Einarsson 36 viðhorf Helgin 5.-7. september 2014

x

Fréttatíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.