Læknablaðið - 15.01.2006, Qupperneq 63
UMRÆÐA & FRÉTTIR / ÍÐORÐ 183
Gervilíffæri og ígræði
Prosthesis
Frá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins barst
verkefni. í firnalöngum evrópskum útboðslista,
þar sem meðal annars var tilgreindur ýmis konar
lækningabúnaður, kom á nokkrum stöðum fyrir
heitið prosthesis. Lagt hafði verið til að þar yrði
notað íslenska heitið ígræði. Undirritaður fékk
sendan hluta listans og var beðinn um álit. Við
nána skoðun kom í ljós að hugtökin implant og
prosthesis voru ekki notuð og aðgreind eins og
vera ætti.
Gervilíffæri
Iðorðasafn lækna notar íslenska heitið gervilíffaeri
um prosthesis. Upprunalega heitið er komið úr
grísku, myndað úr forskeytinu pros-, sem merkir
nálœgt, í áttina, að e-u, og sögninni tithenai, sem
merkir að setja, bœta við. Læknisfræðiorðabók
Dorlands lýsir prosthesis þannig að um sé að ræða
tilbúinn hlut í stað líkamshluta sem vantar, svo sem
handlegg, fótlegg, auga eða tönn, ýmist til að bœta
starfsemi eða útlit. Aðrar heimildir gefa einnig til
kynna að prosthesis sé langoftast notað um heila
líkamshluta eða líffæri og að engu skipti hvort
hluturinn sé áfestur eða ígræddur. Dæmi um slík
gervilíffæri og -líkamshluta eru, gerviauga, gervi-
brjóst, gervifótur, gervihjarta, gervihné, gerviliður,
gerviloka og gervimjöðm.
ígræði
Iðorðasafn lækna notar íslenska heitið ígræði í stað
enska nafnorðsins implant. Það er komið úr latínu,
myndað af forskeytinu im-, sem merkir í, inn í,
og nafnorðinu planta, sem táknar grœn grein eða
grœðlingur. Læknisfræðiorðabók Dorlands lýsir
merkingunni þannig að implant sé tilbúinn hlutur
eða efni, sem er grœtt eða sett inn í líkamann sem
gervilíffœri eða gervilíkamshluti eða til meðferðar,
greiningar eða rannsóknar. Aðrar heimildir leggja
ýmist áherslu á að hluturinn sé tryggilega festur
og settur djúpt í líkamann eða honum varanlega
komið fyrir. Nokkur tilgreind dæmi eru breast
implant (brjóstaígræði), cochlear implant (kuð-
ungsígræði), intraocular implant (augnígræði),
penile implant (reðurígræði) og testicular implant
(eistaígræði).
Aðgreining
Undirritaður lagði til að þessum hugtökum yrði
haldið aðgreindum. Igræði er eitthvað sem komið
er fyrir í líkamanum (grætt í) og getur verið búnað-
ur, tæki eða gervilíffæri. Prosthesis er hins vegar
gervilíffæri eða gervilíkamshluti og getur verið
áfestur eða ígræddur.
Honeycomb lung
Sigríður Ólína Haraldsdóttir, lungnalæknir, sendi
tölvupóst og sagðist vera að leita að íslensku orði
til að þýða enska orðið honeycomb í samsetning-
unni honeycomb lung. Undirritaður benti á að
Iðorðasafn lækna geymdi heitið býkúpulungu, en
að það heiti hefði sennilega ekki sömu myndrænu
tilvísun fyrir íslendinga og það enska hefði fyrir
innfædda í mörgum öðrum löndum. Sigríður Ólína
svaraði með því að hún hefði oft notað samlík-
ingu við fiskinet til að lýsa þessu ástandi, þar sem
fiskinet væru Islendingum líklega hugleiknari en
býflugnabú.
Býkúpa
Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs birtir ágæta
lýsingu á honeycomb: I. vaxkaka með sexstrendum
hólfum, búin til af hunangsflugum undir egg þeirra
og hunang. 2. hvað eina sem líkist þessu að gerð.
Læknisfræðiorðabók Dorlands lýsir honeycomb
lung þannig: útlit á lungna röntgenmynd, sem ein-
kennist af geislaglœrum útvíkkunum í lungnavef
svo sem við lungnatrefjun af óþekktum uppruna;
birtist einnig sem fjölmargar litlar blöðrur eða
holrými. Læknisfræðiorðabók Stedmans bætir
því við að útlitslýsingin geti einnig átt við um þær
breytingar sem greinast við skoðun á lungnavef
með berum augum eftir skurðaðgerð eða krufn-
ingu. Ekki kemur fram að holrýmin í lungunum
séu reglulega sexstrend eins og hólfin í býkúpunni,
miklu fremur að þau séu óreglulega hringlótt. Því
má gera ráð fyrir að líkingin við býkúpuna byggist
fyrst og fremst á fjölda holrýmanna og þunnum,
vel afmörkuðum veggjum þeirra.
Netlunga?
Gaman væri að geta fundið íslenskt heiti sem hefur
jafn dramatíska, myndræna tilvísun og hið enska
heiti, honeycomb lung. Lýst er eftir hugmyndum
og tillögum frá þeim sem áhuga hafa. Fyrstu inn-
legg í þann hugmyndabanka eru (í stafrófsröð)
eftirfarandi: froðulunga, gatasigtislunga, loftbólu-
lunga, netlunga, sápukúlulunga.
Jóhann Heiðar
Jóhannsson
johannhj@landspitali. is
Jóhann Heiðar er læknir
á Landspítala Hringbraut.
Læknablaðið 2006/92 63