Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.2013, Blaðsíða 20

Læknablaðið - 15.04.2013, Blaðsíða 20
TILFELLARÖÐ MEÐ YFIRLITI Tafla II. Þekktar orsakir og áhættuþættir fyrír stokkasega. Ættgeng segahneigð Factor V Leiden stökkbreyting Prótrombín-genastökkbreyting Antftrombinskortur Prótein C- og prótein S-skortur Áunnin segahneigð Getnaðarvarnarpillan Þungun Sængurlega Hækkun hómócysteins í blóði Nefrótískt heilkenni Antifosfólípíð-heilkenni Bólgusjúkdómar Sarklíki Rauðir úlfar Wegeners-sjúkdómur Bechet-sjúkdómur Bólgusjúkdómar í þörmum Sýkingar Bakteríusýkingar í höfði (miðeyrnabólga, stikilbólga og skútabólga) Heilahimnubólga Lyf Hormónauppbótarmeðferð Barksterar Getnaðarvarnarlyf Aspargínasi Annað Blóðleysi Þurrkur Krabbamein Höfuðáverki Aðgerð á höfði Sýking var mun algengari orsök stokkasega áður fyrr, en er nú í aðeins orsök 10% tilfella.8 Hjá börnum er sýking enn talin vera orsök í um helmingi tilfella.9 Algengastar eru bakteríusýkingar í höfði, til dæmis miðeyrnabólga, stikilbólga (mastoiditis) og skúta- bólga. Algengar bakteríur eru Staphylococcus aureus, gram-nei- kvæðir stafir og sveppir eins og aspergillus. Segi í groppustokki (sinus cavernousus) gefur hina dæmigerðu mynd stokkasega vegna sýkingar (tilfelli 4). Krabbamein er einnig þekktur áhættuþáttur. í ISCVT-rannsókninni höfðu 7,4% sjúklinga krabbamein sem talið var undirliggjandi orsök.1 Klínísk einkenni Einkenni og teikn stokkasega endurspeglast af tveimur meingerð- arferlum.10 Annars vegar eru það almenn einkenni eins og höfuð- verkur og ógleði sem stafa af lokun stærri stokka sem veldur frá- flæðishindrun og hækkuðum innankúpuþrýstingi. Hins vegar eru það staðbundin taugaeinkenni vegna sega í einstökum bláæðum út frá stokkum. Aukinn bláæðaþrýstingur leiðir til staðbundins bjúgs, dreps eða blæðingar í heilavef. Oft eru báðir meingerðarferl- ar til staðar hjá sama sjúklingi. Einkennin geta verið sveiflukennd vegna þess að segamyndun og segasundrun eiga sér stað samtím- is. í flestum tilfellum koma einkennin fram á nokkrum dögum eða jafnvel vikum. Þau geta líka birst með bráðum hætti, sem gerist oft í tengslum við þungun eða eftir fæðingu barns svo dæmi sé tekið.11 Höfuðverkur er langalgengasta einkenni stokkasega og er til staðar í um 90% tilfella.1 Yfirleitt kemur verkurinn fram á undan öðrum einkennum, allt frá dögum upp i nokkrar vikur. Verkurinn getur verið misslæmur en oftast er hann svæsinn og svarar illa hefðbundinni verkjalyfjameðferð. Verkurinn er yfirleitt dreifður um höfuðið frekar en staðbundinn. Stundum getur hann komið skyndilega og minnt á höfuðverk við innanskúmsblæðingu (sub- arahnoid hemorrhage).'2 Skipta má einkennum stokkasega gróflega í fjóra flokka: 1. Einkenni geta stafað eingöngu frá auknum innankúpu- þrýstingi (tilfelli 1). Það gildir um tæpan þriðjung tilfella. Auk höfuðverkjarins koma fyrir ógleði og uppköst ásamt þverrandi sjón vegna sjóntaugabjúgs eða tvísýni vegna þrýstingsáhrifa á VI. heilataug. 2. Rúmur helmingur sjúklinga fær staðbundin taugaeinkenni auk höfuðverkjar (tilfelli 2). Oftast eru það helftareinkenni, mál- stol eða flog (bæði alflog og staðbundin flog). Hjá þessum ein- staklingum sýna myndrannsóknir oftast blæðingu og/eða drep í heilavef. 3. Tæpur fimmtungur tilfella er með skerta meðvitund, jafn- vel í dáástandi (cotna) við komu á sjúkrahús. Þessir sjúklingar eru með útbreidda sega í djúpum bláæðum heilans og gjarnan í beina stokki (sinus rectus) sem veldur áhrifum á miðlæg svæði heilans, svo sem stúkusvæðin (thalamus) (tilfelli 3). Hjá þessum einstak- lingum eru horfur slæmar. í einni rannsókn létust 53% þeirra sem voru í hálfdvala (stupor) eða dái, þrátt fyrir heparín-meðferð.13 Þar gæti segaleysandi meðferð átt við eins og rætt verður síðar. 4. Einkenni vegna sega í groppustokki (sinus cavernous) sem þó er fátíður (tilfelli 4). Einkennin eru sigið augnlok, augnvöðva- lömun, tvísýni, útstætt auga og minnkað skyn í kringum augað. Er þetta vegna áhrifa á heilataugar III-VI sem liggja um groppustokk. Stundum er sjónskerpa minnkuð vegna bjúgs á nethimnu. Oft er ástæða segans sýking eins og lýst er í tilfelli 4. Þar hafði sýkingin dreift sér frá skúta inn í groppustokk. Mismunagreiningar við stokkasega eru aðrar ástæður höfuð- verkja, heilablóðfall, sjálfsprottin innanskúmsblæðing, heilabólga (encephalitis), æðabólga (vasculitis) og heilaígerð (cerebral abscess). Rannsóknir Myndrannsóknir Hlutverk myndgreiningar er að sýna fram á sega í stokki og varpa ljósi á afleiddar sjúkdómsbreytingar í heilavef. í dag er segulóm- skoðun talin kjörrannsókn til greiningar á stokkasega. Segulóm- rannsókn sýnir vefjabreytingar í heilavef fyrr og betur en tölvu- sneiðmyndarannsókn (TS). Hins vegar er TS af höfði oftast fyrsta rannsóknin hjá sjúklingum sem taldir eru hafa fengið heilablóð- fall. Þó að hefðbundin TS-rannsókn sé hvorki sérstaklega næm né sértæk rannsókn til að greina vefjabreytingar af völdum stokka- sega, má oft finna bein eða óbein teikn um hann. Staðbundin lág- þéttnisvæði sem endurspegla bjúg eða heiladrep og/eða háþéttni- svæði sem endurspegla blæðingu greinast í allt að 50% tilfella.14 192 LÆKNAblaðið 2013 /99

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.