Frjáls verslun - 01.01.2006, Síða 119
F R J Á L S V E R S L U N • 1 . T B L . 2 0 0 6 119
RÁÐSTEFNUR OG FUNDIR
„Hluthafafundur í Hagtryggingu,
sem ég sat fyrir um þrjátíu árum,
verður mér alltaf minnisstæður.
Félagið hafði verið stofnað til
höfuðs stóru tryggingafélög-
unum og almennum neytendum
til hagsbóta, en þegar fram í
sótti gekk sitthvað í rekstrinum
ekki sem skyldi og vissir hlutir
voru í ólagi. Ég og nokkrir fleiri
í hópi almennra hluthafa undum
þessu illa og svo fór á áður-
nefndum fundi að ég undirbjó
mig eins og fyrir ræðukeppni,
steig upp í pontu og skammaði
stjórnina fyrir það sem aflaga
hefði farið og sagði að hennar
væri ábyrgðin,“ segir Árni Þór
Árnason, framkvæmdastjóri og
áður forstjóri Austurbakka.
„Þetta var í fyrsta skipti, svo
vitað sé, að almennir hluthafar í
fyrirtæki krefðust úrbóta og skýr-
inga um rekstur síns fyrirtækis.
Slíkt þóttu tíðindi. Ég man að
Björn Vignir Sigurpálsson skrif-
aði um þetta ítarlega grein í
Morgunblaðið og einnig var mál
þetta seinna notað sem sérstakt
umfjöllunarefni í kennslu við
viðskiptadeild Háskóla Íslands.
Hins vegar fjaraði þessi ólga
innan Hagtryggingar tiltölulega
fljótt út og á endanum vorum
við hluthafarnir í órólegu deild-
inni borgaðir út fyrir einhverja
smáaura ásamt hinum, þegar
fyrirtækið var gleypt af öðru
tryggingafélagi.“
Árni starfaði lengi innan JC-
hreyfingarinnar og segir margt
vera minnisstætt úr starfinu
innan hennar. „Þingforseti á
Evrópuþingi okkar 1987, sem
var frá Ástralíu, var að kynna
ræðumann, Alvin Toffler, hinn
heimsfræga höfund bókarinnar
„The third wave“, Þriðja bylgjan.
Flámæltum Ástralanum varð
hins vegar fótaskortur á tung-
unni og sagði bókina heita „The
third wife“, eða Þriðja konan.
Og maðurinn skildi ómögulega
af hverju allir fóru að hlæja að
kynningunni.“
Viggó Ásgeirsson, forstöðumaður markaðssviðs
Landsbanka Íslands.
Miklu skiptir að fundir eða ráðstefnur, sem opnar eru almenn-
ingi, séu kynntar með yfirskrift sem líkleg er til þess að fanga
athygli fjöldans. „Það er reynsla sjálfsagt allra í markaðsstarfi
að sífellt erfiðara er að ná í gegn og fanga athygli fólks. Því
eru grípandi titlar mikilvægir. Hins vegar mega menn ekki
falla í þá gildru að innistæðan sé lítil og jafnvel engin. Ella er
verr af stað farið en heima setið,“ segir Viggó Ásgeirsson, for-
stöðumaður markaðssviðs Landsbanka Íslands.
Snemma á liðnu hausti hélt Landsbankinn kynningar-
fund um efnahagsspá sína sem bar yfirskriftina „Ekki fara á
taugum, Guðmundur“. Þessi óvenjulega yfirskrift vakti mikla
athygli og fundinn sóttu mun fleiri en vænta hefði mátt.
„Það var starfsfólk greiningardeildar bankans sem kom með
þennan bráðskemmtilega titil. Okkur markaðsfólkinu þótti
þetta svolítið djarft, en við samþykktum þetta þó að lokum.
Útkomuna þekkja allir,“ segir Viggó.
Landsbankafólk hefur í ýmsum fleiri efnum farið nýjar
leiðir í markaðsstarfi. „Við auglýstum viðbótarlífeyrissparnað
undir yfirskriftinni „Viltu byrja með mér?“ og árangur af því
var langt umfram væntingar. Þá hafa auglýsingar á helstu
hátíðisdögum ársins með hópmynd af því fólki, sem þeim
tengist helst, sömuleiðis náð athygli fjöldans. Í mínum huga
sýnir það mikilvægi þess að fara nýjar leiðir og vera frum-
legur, þó svo fjármálastofnun verði í þessum efnum alltaf að
fara gætilega, svo hún glati ekki trausti viðskiptavina sinna.“
Minnisstæðir fundir:
Byltingarfundur
og þriðja konan
„Ekki fara á taugum, Guðmundur“
Grípandi titlar
mikilvægir
Árni Þór Árnason,
framkvæmdastjóri.