Tímarit Máls og menningar - 01.11.1943, Blaðsíða 59
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
169
lítið þvingaðri röddu, næstum harkalegri röddu, sem þegar í stað
hratt mér út úr hinu sjálfglaða jafnvægi. Ég var aftur á verði um
öll mín gömlu forréttindi.
„Fáðu þér sæti og leystu frá skjóðunni, drengur,“ svaraði ég og
ætlaði að vera vingj arnlegur, en mistókst.
Hann fleygði sér niður á stól og augu hans flugu frá einum hlut
til annars, staðnæmdust að lokum við andlit mitt. Varir hans voru
enn fast lokaðar, en augun voru byrjuð að tala. Þau voru full af
sindrandi logum, bæn og hótun, að mér virtist. Blygðun eða sam-
vizkubit var þar ekki að sjá.
„Jæja, drengur, komdu þá með þetta. Það lítur út fyrir að vera
eitthvað mikils varðandi eftir því að dæma, hvernig þú berð þig
til. Hefurðu lent í einhverju harki í skólanum? Eða hver þremill-
inn hefur komið fyrir þig?“ tók ég aftur til máls óþolinmóður.
Hann hafði ekki af mér augun meðan ég rausaði þetta.
„Það hefur ekkert illt komið fyrir mig,“ svaraði hann nú.
„Ekki það nei. En hvað er það þá?“
„Ég er trúlofaður,“ svaraði hann.
Mér lá við að brosa. Sonur minn hlaut að vera ákaflega einkenni-
legur ungur maður.
„Þú tekur það bara alvarlega,“ sagði ég ofurlítið háðslega, en
þó engan veginn óvingjarnlega, og bætti svo við:
„Það er nú satt að segja fremur á þér að sjá, að hún hafi verið
að segja þér upp í dag.“
Hann virtist ekki taka eftir spaugi mínu.
„Það er Gígja í sælgætisbúðinni,“ hélt hann áfram með sömu
fáránlegu alvörugefninni.
„Nú enda þó svo sé. Ég hef aldrei sagt, að þú mættir ekki kyssa
hana Gígju í sælgætisbúðinni. Meðan þú rækir þínar skyldur við
skólann og bakar mér engin óþægindi, þá geri ég mér enga rellu
út af svoleiðis bernskubrekum,“ svaraði ég. Ég var um það leytið
að komast í gott skap aftur. Enn hafði ég sannað frjálslyndi mitt
gagnvart æskunni.
„Þetta eru engin bernskubrek,“ sagði hann með þyngri alvöru
en áður.
„Það segja allir unglingar á þínum aldri.“ anzaði ég.