Tímarit Máls og menningar - 01.07.1971, Blaðsíða 13
Flateyjarbók
safn og bera vitni um rausn og bókmenntaáhuga VíÖidalstungubónda. Flat-
eyjarbók var nokkuð aukin á 15. öld, að líkindum á Reykhólum, bætt við 23
blöðum. En í þann hluta bókarinnar, sem Jón Hákonarson lét rita, hafa farið
100 kálfskinn, og er það samt smáræði í samanburði við alla þá vinnu, sem
annars fór í að gera skinnin til bókfells og skrifa hana alla. Líklegt er, að efni
í bókina hafi verið að miklu leyti sótt í bókasafn Þingeyraklausturs og sumt
að Breiðabólstað í Vesturhópi, hvort sem meira eða minna er skrifað á þess-
um stöðum eða heima í Víðidalstungu. En við það fræga höfuðból væri rétt-
ast að kenna bókina, þó að nafninu Flateyjarbók verði ekki breytt héðan af,
enda fer það betur í munni en Víðidalstungubók.
Flateyjarbók hefur verið metin svo dýrmætur gripur, að tvívegis hefur
verið synjað um að lána hana úr landi: þegar hún var gefin út í Kristianíu
1859—1868 og þegar Bandaríkjamenn báðu um að fá hana á heimssýninguna
í Chicago 1893 og buðust til þess að senda herskip eftir henni. En bókin þótti
of dýrmæt til þess að eiga nokkuð á hættu. Þetta er því í fyrsta sinn sem Flat-
eyjarbók er flutt landa á milli, síðan hún komst í eigu konungs. Og skulum við
vona, að það verði líka í síðasta sinn — og íslendingar beri gæfu til að varð-
veita hana sem sjáaldur auga síns um ókomnar aldir.
Að lokum skal eg segja ykkur litla sögu til gamans. Norska skáldkonan
Sigrid Undset kom til íslands 1931, með Nóvu norður um land til Akureyrar.
Þegar eg hitti hana þar, sagði hún mér, að eitt af því, sem henni hefði fundizt
merkilegast á þessu ferðalagi, var að sjá Flatey. Auðfundið var, að hún hafði
starað hugfangin á þessa eyju, eins og heilagan stað. Eg varð sannleikans
vegna að segja henni, að Flateyjarbók væri ekki kennd við Flatey á Skjálf-
anda, heldur samnefnda ey á Breiðafirði. „Og eg hef þá sóað tilfinningum
mínum á ranga eyju,“ sagði Sigríður, og lá við, að rynni út í fyrir henni, svo
vel sem hún venjulega kunni að dylja það, sem henni bjó í skapi. — Nú gefst
ykkur kostur á að sjá með eigin augum þá bók, sem slíkum ljóma varpaði á
eina litla íslenzka eyju í augum hinnar miklu skáldkonu.
3