Tímarit Máls og menningar - 01.03.1981, Síða 68
Tímarit Máls og menningar
fellur máttlaust. „Þú“ getur gengið en stendur sig enganveginn eins vel
og fuglinn.
Þessari náttúruspeglun heldur Hannes áfram í kvæði eftir kvæði af
fjölbreytileika í aðferð og skynjun sem víð höfum ekki áður kynnst;
jafnvel þegar hann yrkir um kjarnorkudauðann og vígbúnaðarkapp-
hlaupið gagnast honum náttúran í kringum hann, svo ekki sé minnst á
„náttúrulegri“ yrkisefni einsog skáldskapinn, endurminninguna, ástina
og dauðann. í spegluninni kviknar líf af fundum skálds og náttúru. Hann
getur meiraðsegja blásið lífi í borgina sem hann skynjar þó sem brunna,
sem rústir, með því að virða hana fyrir sér „á túni við sjó, um nótt“ og bera
hana við himin; borgin fær umgerð og andstæðu sem hún speglar og
speglast í — og úr þessu verður meira en sú frelsandi afneitun ein sem
borgarskáldskapurinn hefur að geyma þegar best lætur. Hannes er samt
ekki hlutlaus þegar hann teflir saman borg og náttúru:
Eg geng með sjónum. Desemberkvöld. Og dimmt
til jarðar, en blik frá borgarljósum við Sundin.
Það er leikið á stórt orgel fast hjá, í fjörunum.
Og opinn stendur myrkviðurinn mikli.
Alsett klösum kristalharðra geisla
er ósýnilegt þykkni þagnarskógarins.
Myrkviðurinn er fagur, fjörurnar voldugar.
Og orgelið kvistar klámhunda, söngræksni niður.
Orgelið stóra, við eyrum mér, rýmir til!
(Heimkynni, 20)
Hér er afstaðan með náttúrunni jafn afdráttarlaus og óbeitin á borg-
inni er augljós, eða kannski réttara sagt: á því mannlífi sem lifað er í
borginni. En Hannes lætur sér ekki nægja að tefla saman andstæðum,
hann upphefur móthverfuna að nokkru með því að láta náttúruna rýma
til: frammundan er eitthvað nýtt, eitthvað annað en það sem er. Þessi
bjartsýni er þó ekki tengd samfélaginu, Hannes hefur fengið nóg af
„ginningum“ og trúir því ekki eitt andartak að ríkjandi skipulag eigi sér
54