Tímarit Máls og menningar - 01.03.1981, Síða 99
Anton HelgiJónsson
Fæðing ljóðs — og líf
Aðfaranótt 1. maí í fyrra svaf ég vel og svitnaði lítið. Einhverntíma undir
morgun dreymdi mig að ég væri staddur á fjölmennri samkomu. Mér fannst
sem ég stæði á litlum palli og læsi upp nokkur ljóð. Ekki veit ég hvernig
áheyrendur tóku ljóðunum, en mér sjálfum þótti eitt þeirra svo undarlegt, að ég
vaknaði um leið og ég lauk lestri þess. Þá brá ég skjótt við, greip skriffæri af
náttborðinu og hripaði það niður. Síðan fór ég á fætur, fékk mér brauð og kaffi;
dundaði við kommur fram eftir morgni. Um hádegi dró ég blað úr ritvélinni. Á
því stóð þetta:
RJÚPAN
Rjúpa flaug inn á borð hjá Sigfúsi Daðasyni. Skáldið var
þá ritstjóri og hafði kontór á þriðju hæð í húseigninni
Laugavegur átján. Glugginn gesta sneri út að Vega-
mótastíg. Þegar rjúpan hafði setið um stund á borðinu,
hvarflaði að skáldinu, ritstjóranum og Sigfúsi Daðasyni,
að rjúpan væri alls ekki rjúpa. Þetta var ekki vetrarrjúpa
og sannarlega ekki sumarrjúpa. Enda var hvorki sumar
né vetur. Það var ekki vor og þaðan af síður haust.
Þessum samsetningi hef ég stundum verið að lauma til vina minna, þeim og
mér til skemmtunar. Sumum hefur fundist þetta undarlegt ljóð, öðrum „flipp-
að“, en enginn hefur reynt að ráða merkingu þess. Sjálfur er ég engu nær, þó ég
brjóti stöðugt heilann. En hvað sem öðru líður verður því ekki neitað að ég
fékk andann yfir mig, reyndar í svefni, en yfir mig samt. Og einu sinni hef ég þó
komið texta á blað án mikillar fyrirhafnar.
Nei, Rjúpan á sér ekki langa sköpunarsögu, það má með sanni segja að ég hafi
fengið andann yfir mig og eftir stutta meðgöngu hríðir; fætt síðan án minnsta
sársauka. Að nefna vinnu í þessu sambandi væri út í hött. Þó veit ég að yrkingar
eru ekkert nema púl og streð og þrældómur. Vinna, vinna, vinna. En samt, þetta
ljóð kom í heiminn án allra átaka, það þurfti ekki einu sinni ljósu til að hnika til
orði.
85