Morgunblaðið - 07.03.2015, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 07.03.2015, Blaðsíða 37
MINNINGAR 37 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. MARS 2015 í þeim, oft fórstu fyrst að hjálpa fólkinu í kringum þig og svo græjaðir þú þitt sem sýnir akk- úrat þann mann sem þú hafðir að geyma, varst svo hjálplegur, krakkarnir dáðu þig og allir sem þér kynntust. Varmahlíð var þinn staður og munum við alltaf fara í Kobbalund þegar við eig- um leið framhjá. Takk fyrir allt, Kobbi, lífið heldur áfram en verður aldrei eins án þín. Takk fyrir að vera bróðir okk- ar. Við erum stolt af því. Elsku Stína, Atli, Guðrún Ása og Fannar, megi guð veita ykkur styrk í framtíðinni. Minning um góðan mann lifir að eilífu. Þín systkini, Rósa og Júlíus Sigurjóns- börn, makar og börn. Áramótin 2014-2015 eru þau áramót sem ég mun minnast lengst allra. Þau áramót skemmti ég mér í hinsta sinn með móðurbróður konunnar minnar og einum af mínum besta vini, honum Kobba frænda, eins og ég kallaði hann. Sem betur fer eyddi hann áramótunum með mér og okkur fjölskyldunni. 4. janúar 2015 og glaður í bragði skelltir þú þér með Stínu og skipsfélögum þínum á togar- anum Brimnesi RE 27 til Te- nerife. Heyrðumst við í síma kvöldið áður og óskaði ég þér og Stínu góðrar ferðar og skemmt- unar eins og eðlilegt er. Ég ætlaði varla að trúa eigin eyrum þegar fréttist að þú værir í lífshættu. Elsku Kobbi, það eru svo margar minningarnar sem ég get rifjað upp með þér síðustu árin í gegnum ferðalög okkar saman, þú komst mér og fjöl- skyldunni inn á það að kaupa úti- legubúnað árið 2009 eftir að ég eyddi með ykkur Stínu og fleir- um einni skemmtilegustu Fiski- dagshelgi á Dalvík í manna minnum. Þú varst útilegukóngur fjölskyldunnar og elsku Stína þín útilegudrottning. Mikið höfum við brallað á þessum ferðalögum vítt og breitt um landið og setið og spjallað dag sem nótt um heima og geima, hlegið, grátið og elskað útiveruna, elskað fé- lagsskapinn, ævintýrin og fjöl- skylduna okkar stóru. Skemmst er að minnast 50 ára afmælis- veislu þinnar sem þú hélst upp á með þvílíkum veisluhöldum þar sem öll stórfjölskyldan safnaðist saman við þína helstu ástríðu síðustu ára, það er í útilegu á einum af þínum uppáhaldsstað á landinu, í Varmahlíð. Kobba- lundur hét staðurinn. Bílskúr- spartýin í byrjun maí eru ógleymanleg líka sem þú bauðst reglulega í heim til ykkar Stínu. Ávallt voru móttökurnar einsog um konungsborið fólk væri að ræða þegar komið var í heim- sókn til ykkar, þið fóruð úr rúmi ykkar og sváfuð á þunnum dýn- um á gólfinu inni í stofu þegar gesti bar að garði, þvílík mann- gæska og gestrisni er vandfund- in. Það er svo margt sem hægt er að segja um þig, elsku Kobbi minn, og veistu, það er allt gott hægt að segja, þú hélst fjölskyld- unni saman, og safnaðir að þér góðum vinum hvar sem þú komst. Þú ert sá eini sem ég held að öllum sem þér kynntust líkaði við alltaf. Að kveðja þig í hinsta sinn er gríðarlega erfitt. Nú ertu farinn, tómleikinn er algjör, höf- uð fjölskyldunnar, Kolbeinn Sig- urjónsson, hefur sungið sinn síð- asta söng. Ég vildi svo að þetta væri draumur en ekki raunveru- leiki en minningin um duglegan mann, frábæran föður, yndisleg- an eiginmann og besta vin held- ur mér gangandi. Takk, elsku Kobbi minn, fyrir allt og ekkert, þakka þér fyrir að hafa verið mér og Rakel svo góður vinur í gegnum árin, trúna á allt hið góða í fari hverrar manneskju. Síðustu vikur hafa verið okkur fjölskyldunni gríðarlega erfiðar. Ég þykist vita að þú horfir nú niður og vakir yfir okkur sem eftir stöndum. Við hugsum um hana Stínu þína, Atla Frey, Fannar Loga og Guðrúnu Ásu, þau verða umvafin ást og um- hyggju alla tíð. Eitt máttu vita að ég mun minnast þín alla tíð þú mikli meistari. Far þú í friði og kærleika. Það er rigning og myrkur á Mýrdalssandi. Þinn vinur. Rúnar Snæland Jósefsson. Meira: mbl.is/minningar Elsku Kobbi frændi. Við vilj- um kveðja þig og þakka fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur og með okkur síðan við fæddumst. Hvíl í friði elsku frændi. Við látum hér smáljóð fylgja þér fyr- ir ferðina þína til guðs sem við breyttum örlítið svo það passaði við þig. Ljúf var ganga lífs á braut létt voru stigin spor. Samfylgd þín svo indæl sumar og eilíft vor. Orðs er oss vant, elsku vinur að þessu koma hlaut. Örlögin fær enginn skilið né æðri dóma braut. Sæll er nú Kobbi á sínum vegi, sofnaður ofurhljótt. En huga vorn þjakar þungur tregi það er sem ríki nótt. Sólargeislinn sviplega farinn, skýjanna á braut. En er það ekki einmitt leiðin, alls þess er upphaf hlaut. Guð þá elskar sem ungir deyja er það ei huggun í sorg. Að vinurinn ungi nú öruggur er, hjá alföður Guðs í borg. Við geymum Kobba í hug og hjarta hugljúfa skínandi mynd. Saklausan drenginn með brosið bjarta og blíðu í augans lind. Okkur sem eftir stöndum er það huggun mest. Að Kobba í ljóssins löndum líði sem allra best. (Höf. ók.) Hvíl í friði elsku Kobbi. Minn- ingin um þig mun lifa í hjörtum okkar. Patrik Snæland og Natalía Dóra Snæland Rúnarsbörn. Elsku Kobbi. Það er svo erfitt að kveðja þig enda sagði ég alltaf við þig að þú værir uppáhalds- frændi minn. Betri manneskju er vart hægt að finna, það eru fáir sem komast með tærnar þar sem þú hafðir hælana í góðmennsku, hjálpsemi og velvild í garð allra í kringum þig. Ég er svo þakklát fyrir þær stundir síðustu ár sem við höfum eytt saman og sér í lagi eftir að þú komst mér og fjölskyldu í útilegubransann með ykkur Stínu. Ferðalögin hafa verið þau allra skemmtilegustu sem ég man eftir. Það að heim- sækja ykkur Stínu er nokkuð sem ekki er hægt að sleppa að minnast á því slíkum höfðingleg- um móttökum er vart hægt að líkja við nokkuð annað. Maturinn og gestrisnin engu lík. Elsku Kobbi minn, ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig að og að börnin mín hafi fengið að kynnast góðmennsku þinni er ómetanlegt. Ég á eftir að sakna þín óend- anlega mikið en minningin um þig er ljós í hjarta mínu. Hvíl í friði elsku Kobbi minn. Við munum halda vel utan um Stínu og krakkana um ókomin ár. Rakel frænka. Hversu ósanngjarnt getur líf- ið verið? Yndislegur maður sem vildi öllum hið besta, maður sem var á hápunkti lífs síns og naut hverrar stundar er tekinn frá fjölskyldu sinni og vinum. Það er okkur óskiljanlegt. Við vitum að Kobbi er kominn á góðan stað og að okkar fólk tekur á móti honum en það er svo sárt að missa. Fráfall hans setur stórt skarð í líf okkar en við munum halda heiðri hans og minningu á lofti. Minningu um góðan, ljúfan, síglaðan og hjálp- saman mann sem hafði þarfir fjölskyldunnar ávallt í fyrirrúmi. Við kveðjum Kobba með sökn- uði. Hafdís og Gísli. „Hann var sjómaður dáða- drengur“. Svo segir í textanum um sjómanninn og segja þau orð kannski allt sem þarf. Kobbi gerði sjómennskuna snemma að ævistarfi sínu. Kobbi átti fáa sína líka. Hann var góður drengur, umhyggju- samur og alltaf boðinn og búinn ef einhvern vantaði aðstoð. Góð- mennska, hjálpsemi og gleði ein- kenndu hann. Lundin var létt, yfirleitt var hann með bros á vör og hrókur alls fagnaðar. Kobbi var mikil félagsvera og naut þess að bjóða fólki heim til sín og veitti þá vel. Hann var fjölskyldumaður mikill og einstakur vinur. Það er ótrúlegt að hann skyldi vera burtu kvaddur svo snemma og að samverustundir með Kobba verði ekki fleiri. Við flytjum hon- um hjartans þakkir fyrir öll árin. Elsku Stína, Atli Freyr, Guð- rún Ása og Fannar Logi, ykkar missir er mikill. Megi minningar um góðan dreng styrkja ykkur. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (V. Briem) Margrét (Lilla), Einar og fjölskylda. Lífið er stutt og þá er eins gott að gera þetta vel. Það gerðir þú, elsku vinur. Þú settir svip þinn á líf okkar allra, hvort sem við þekktum þig lengi eða stutt. Tryggari vin var ekki hægt að finna. Þú stóðst með vinum þín- um í blíðu og stríðu, alltaf tilbú- inn að hjálpa, alveg sama hvað var í gangi. Boðinn og búinn að rétta fram hjálparhönd, slá garð- inn, klippa runna, mála hús, passa börn, baka – bara nefna það og þú varst mættur. Við hjónin höfðum ákveðið að við værum ekki útilegufólk en dáðumst að ykkur Stínu, að því hvað þið voruð dugleg að ferðast hingað og þangað. Loks náðuð þið hjónin að smita okkur af þessari útilegubakteríu. Fiski- dagurinn á Dalvík með hluta af stórfjölskyldunni þinni – ó, hvað það var gaman. Við reyndum að endurtaka leikinn án ykkar en náðum aldrei þessari sömu stemningu og þegar þið voruð með okkur. Það var bara meira gaman. Börnum okkar varstu líkt og góður frændi. Þið María náðuð sérstaklega vel saman enda hef- ur hún alltaf notið þess að tala og þú varst alltaf tilbúinn að ljá henni eyra. Hún naut góðs af því þegar litli bróðir hennar fæddist. Þá laumaðist hún yfir til Kobba frænda í tíma og ótíma enda átti hún þar góðan vin. Börnin hafa rifjað upp minningarnar undan- farna daga. „Þegar ég týndist á Dalvík en var bara að horfa á sjónvarpið hjá Kobba og borða snakk.“ „Alltaf óhræddur við að skella sér í búning og setja upp hárkollu.“ „Var alltaf svo góður við mig.“ Allar góðu stundirnar með þér, elsku vinur, geymum við í hjörtum okkar; kaffistundir, úti- legur, stórafmælið í Varmahlíð, bakstur fyrir skírn – ekkert mál. Uppátækin ykkar Snorra! Þegar við fréttum að þú hefðir fengið hjartastopp á Tenerife kom aldrei neitt annað til greina í okkar huga en að þú mundir hafa það af. „Kobbi er ekki að fara neitt,“ sögðum við en tíminn var lengi að líða meðan við bið- um frétta. Það var mikill léttir að vita að þú værir aftur lentur á ís- lenskri grund og kominn á sjúkrahús hér heima. Við héld- um fast í þá von að þú mundir vakna og saman gætum við gert grín að öllu saman. Eftir að við heimsóttum þig og Stínu héldum við áfram í vonina og báðum um kraftaverk. En svo varstu farinn, elsku vinur. Við erum þakklát fyrir að hafa átt þig að vini og þökkum fyrir tímann sem við fengum að kynn- ast þér og þínum. Elsku Stína, Atli, Guðrún og Fannar og aðrir ástvinir – okkar innilegustu sam- úðarkveðjur til ykkar allra. Minningin lifir um frábæran mann og góðan vin. Snorri, Freyja og börn. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Héðan skal halda heimili sitt kveður heimilisprýðin í hinsta sinn. Síðasta sinni sárt er að skilja, en heimvon góð í himininn. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. Grátnir til grafar göngum vér nú héðan, fylgjum þér, vinur. Far vel á braut. Guð oss það gefi, glaðir vér megum þér síðar fylgja’ í friðarskaut. (Vald. Briem) Börnin sem þú blessun vafðir þinni búa þér nú stað í vitund sinni: alla sína ævi geyma þar auðlegðina sem þeim gefin var. Þú ert áfram líf af okkar lífi: líkt og morgunblær um hugann svífi ilmi og svölun andar minning hver – athvarfið var stórt og bjart hjá þér. Allir sem þér unnu þakkir gjalda. Ástúð þinni handan blárra tjalda opið standi ódauðleikans svið. Andinn mikli gefi þér sinn frið. (Jóhannes úr Kötlum) „Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín.“ (Kahlil Gibran) Elsku Stína, Atli, Fannar, Guðrún, systkini og aðrir ætt- ingjar, megi kærleikur Guðs um- vefja ykkur og gefa ykkur styrk til þess að feta áfram stíginn á þessum erfiðu tímamótum. Kveðja, Jóhanna Lúðvíksdóttir. Það varð þögult í borðsalnum þegar okkur bárust þær fréttir að hann Kobbi okkar væri dáinn. Það hljómar svo ótrúlega að menn eiga erfitt með að meðtaka þessar fréttir. Fyrir um tveimur mánuðum var Kobbi hér um borð með okkur í veiðiferð sem var virkilega erfið og mikið að gera allan tímann. Kobbi sem var ósérhlífinn og duglegur vann sína vinnu með ánægju og sam- viskusemi eins og hann var van- ur án þess að kvarta yfir einu eða neinu. Brimnesið kom til landsins ár- ið 2007 og var Kobbi einn af áhöfninni alveg frá byrjun eins og flestir um borð. Hópurinn hefur verið samheldinn á sjó og ekki síður í landi þar sem ým- islegt er brallað saman. Það var einmitt í sameigin- legri ferð okkar til Tenerife nú í janúar sem Kobbi fékk kallið þó hann hafi ekki yfirgefið okkur fyrr en nokkrum vikum síðar. Það var erfitt að þurfa að skilja hann og hana Stínu eftir á sjúkrahúsinu á Tenerife þegar við hin snérum heim á ný. Sem betur fer gátu börnin þeirra og bróðir Stínu komið út svo þau gætu hjálpast að og veitt hvert öðru styrk á þessum erfiðu tím- um. Við fylgdumst svo með frétt- um af félaga okkar og vonuðum í góðri trú að Kobbi kæmist í gegnum þetta áfall en því miður dugðu bænir okkar ekki til. Nú eigum við bara allar góðu minningarnar um vin okkar. Kobbi var vinnusamur og jafn- lyndur, aldrei virtist hann skipta skapi, varð hvorki reiður né fúll. Hans helsta áhugamál var að fara í útilegur með henni Stínu sinni. Að vera í hjólhýsinu í frí- um yfir sumarmánuðina var það sem hann beið eftir haust, vetur og vor. Varmahlíð varð oftast fyrir valinu en þeir eru samt fáir staðirnir sem Kobbi og Stína eru ekki búin að eiga næturstað á. Þessu áhugamáli fylgdi mikill áhugi um veðurspár og framtíð- arhorfur í veðri og var ekki kom- ið að tómum kofunum þegar ein- hvern vantaði upplýsingar um veðrið. Þær voru einnig ófáar ferðirnar í Víkurverk, Útilegu- manninn og önnur þau fyrirtæki sem selja hjólhýsi og útilegubún- að, mikið spáð og spekúlerað í notagildi og gæðum. Það var allt- af hægt að spyrja Kobba um hvað væri það nýjasta á mark- aðnum og fá góð ráð. Vegna þessa var Kobbi sjálf- kjörinn formaður útilegunefndar á Brimnesinu. Það var farið í úti- legur í Borgarfjörð, Vaglaskóg, Snæfellsnes, Húnavatnssýslur og Varmahlíð allt eftir því hvern- ig Kobbi hafði lesið í veðurskeyt- in. Alltaf var hann mættur fyrst- ur, búinn að stika svæðið út og skipuleggja. Þarna var okkar maður á heimavelli og gaman að mæta á svæðið og byrja á að kíkja í kaffi hjá Kobba og Stínu. Kobbi var líka barnagæla, börnin okkar hændust að honum og hann gaf þeim af tíma sínum. Þau sakna hans líka. Um borð vildi Kobbi hafa hlutina í föstum skorðum, brauð- sneið með osti og uppáhellt kaffi. Beikon skyldi vera í morgunmat á laugardögum og þó hann væri á frívakt var karlinn mættur þegar beikonið var komið á borð- ið! Við erum núna búnir að fara í eina veiðferð þar sem Kobbi var ekki með okkur. Tilfinningin var skrýtin og allir fundu að það er stórt skarð sem hann skilur eftir sig og það skarð verður erfitt að fylla. Kobbi var einn af þeim reynslumestu um borð og það mun taka okkur langan tíma að venjast því að hafa hann ekki með okkur. Hugur okkar allra er hjá þér, Stína, og börnunum ykkar, þú ert búin að sýna mikinn styrk og æðruleysi á þessum erfiða tíma. Guð gefi ykkur og fjölskyldunni allri styrk á þessum erfiða tíma. Hvíldu í friði, vinur. F.h. áhafnarinnar á Brimnesi RE-27, Páll Þórir Rúnarsson skipstjóri. HINSTA KVEÐJA Elsku Kobbi. Takk fyrir allt, þú varst mér mjög kær og varst mér svo góður. Góðar minningar lifa um yndislegan og góðhjartað- an mann. Til þín ég hugsa, staldra við. Sendi ljós og kveðju hlýja. Bjartar minningarnar lifa ævina á enda. (höf. ók) Arndís Kristinsdóttir. önnumst við alla þætti þjónustunnar með virðingu og umhyggju að leiðarljósi Þegar andlát ber að höndum Vesturhlíð 2 - Fossvogi - Sími: 551 1266 - www.utfor.is Við þjónum allan sólarhringinn Elín Sigrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Þorsteinn Elísson útfararþjónusta Frímann Andrésson útfararþjónusta Hugrún Jónsdóttir útfararstjóri Rósa Kristjánsdóttir útfararstjóri Ellert Ingason útfararþjónusta Katla Þorsteinsdóttir lögfræðiþjónusta Jón G. Bjarnason útfararþjónusta Guðmundur Baldvinsson útfararþjónusta Útfararþjónusta í 20 ár Hinrik Valsson Svanhildur Eiríksdóttir Gísli G.Guðmundsson Vistvænar íslenskar kistur, krossar og duftker Hinrik: Sími 892 0748 / Gísli: Sími 482 4300 www.fylgd.is • fylgd@fylgd.is Þjónusta allan sólarhringinn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.