Bókasafnið - 01.06.2010, Qupperneq 4
4
Þegar við skoðum t. d. bókina Ísland í aldanna rás, sem
kom út nú fyrir jólin, þá er þar aftarlega skrá um konunga,
landfógeta, stiftamtmenn, amtmenn og biskupa hérlendis á
18. öld. Margir úr þessum hópi eru ekki finnanlegir í Íslenzkum
æviskrám, því að þar eru þeir ekki, sem eru af erlendu bergi
brotnir. Réttilega hafa því ýmsir haft við orð að hér vantaði
mjög æviskrár um erlenda menn í íslenskri sögu. Fleiri en þeir
embættismenn sem hér hafa starfað eru verðugir að komast
í slíkt rit. Hér er til umfjöllunar bók um mann sem hlýtur að
verða einna óumdeilanlegastur í flokki þeirra, sem eiga skilið
að komast í slíkt rit, en það birtist vonandi innan tíðar.
Í raun ætti þess að vera lítil sem engin þörf að kynna Daniel
Willard Fiske fyrir lesendum þessa tímarits. Hann var fæddur
11. nóv. 1831 í Ellisburgh í New York-ríki í Bandaríkjunum.
Hann fékk snemma áhuga á Íslandi, fór til Kaupmannahafnar
árið 1850, kynntist þar Íslendingum og var síðan eitt og hálft
ár í Uppsölum, en þar hófust útgáfur íslenskra fornrita á 17.
öld. Haustið 1852 hugðist hann fara til Íslands, en missti af
skipinu. Næstu ár stundaði hann ýmis störf, en árið 1868 varð
hann prófessor við nýstofnaðan háskóla í Cornell í Íþöku í
New York-ríki í Bandaríkjunum. Þjóðhátíðarárið 1874 stóð
hann fyrir bókagjöfum til Íslands þótt ekki kæmist hann
sjálfur hingað. Fyrir vikið varð hann kunnur hérlendis og
naut þess mjög þegar hann kom. Árið 1879 ferðaðist hann til
Íslands og steig á land á Húsavík, fór ríðandi að Dettifossi, til
Akureyjar, vestur að Hvammi í Dölum, til Reykjavíkur og alla
leið austur að Bergþórshvoli. Næstum allt varð að fara ríðandi
og geta menn ímyndað sér að ekki er létt að sitja á hestbaki
marga klukkutíma daglega og er ekki fyrir gamla menn og
gigtveika. Á eftir var svo siglt kringum landið, nokkuð sem
ekki er mögulegt nú á dögum. Í Reykjavík gekkst Fiske m. a.
fyrir stofnun Lestrarfélags við Menntaskólann og stofnun Hins
íslenzka fornleifafélags, sem enn gefur út Árbók. Fljótlega
eftir Íslandsferðina kvæntist Fiske ríkri konu og unni henni
mjög heitt, en þau nutust aðeins í ár því að þá dó hún. Mikil
og erfið málaferli urðu út af arfi eftir hana, vann Fiske þau og
fékk mikil auðævi til bókasöfnunar, en þetta fékk svo á hann,
að hann ákvað að setjast að í Flórens á Ítalíu, þar sem hann
dvaldi í 21 ár eða til æviloka 17. sept. 1904. Hann taldi sig ekki
hafa heilsu til að fara aftur til Íslands þótt hann langaði til þess,
enda ferðalög langtum erfiðari þá en nú. Á árunum í Flórens
safnaði hann bókum af miklum dugnaði og fóru þær flestar til
hans gamla Cornell-háskóla í Íþöku í Bandaríkjunum.
Höfundur þessarar bókar, Kristín Bragadóttir, er sviðstjóri
varðveislusviðs Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Hún getur þess í inngangi að víða hafi verið farið og leitað fanga:
til Cornell þar sem hið stórmerka íslenska bókasafn Fiske er
varðveitt, skoðað bréfaskipti hans við Íslendinga og Dani sem
varðveitt eru í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn,
farið til Uppsala í Svíþjóð og loks fór hún alla leið til Flórens og
skoðaði þar húsið sem var bústaður hans. Vitanlega eru mörg
og margvísleg gögn tengd honum varðveitt í Landsbókasafni.
Annars er víða hægt að finna bréf frá Fiske, því að ég hef séð
í Oxford fjögur bréf frá honum til Guðbrands Vigfússonar. Af
þessu má sjá, að víða hefur verið leitað fanga og ekki látið
nægja að skrifa aðeins upp úr prentuðum bókum. Bókin er
með öðrum orðum ekki billeg blaðamennska. Ekki er að sjá að
stafsetningu hafi verið breytt í tilvitnunum og er það vel. Galli
er að ekki er vitnað í handritanúmer, en nöfn bréfritara eru í
sérstakri skrá og ætti því ekki að verða mjög erfitt að finna
bréfin.
Þegar rit er skoðað hlýtur sú spurning að vakna, hver var
tilgangurinn, hvernig er það unnið, er lögð of mikil áhersla
á eitt á kostnað annars, með öðrum orðum hvernig eru
hlutföllin? Ekki er sanngjarnt að gera kröfu til að hér sé fjallað
um söfnun Fiske á bókum eftir Petrarca og Dante, en eðlilega
er góður póstur um skák og skákbókasafn hans, sem nú er
í Landsbókasafni. Einnig studdi Fiske skáklist hérlendis og
gaf út skákdæmi, tímarit um skák og sögu skákar á Íslandi.
Af uppsetningu bókarinnar er það að segja, að hún skiptist
Ritdómur
Willard Fiske, vinur Íslands og velgjörðamaður
Kristín Bragadóttir, Reykjavík, Háskólaútgáfan, 2008
Einar G. Pétursson