Bókasafnið - 01.06.2010, Qupperneq 25
25
bókasafnið 34. árg. 2010
Háskólabókasafn stofnað sem sameinaðist svo Landsbókasafni
Íslands og fluttist ásamt því í Þjóðarbókhlöðu árið 1994. Safnið
er langstærsta rannsóknarsafn landsins en slík söfn eru einnig
við aðra háskóla landsins svo og ýmsar stofnanir.
Bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar hafa verið í örri
þróun á síðustu áratugum og er starfsemi þeirra öflug og
metnaðarfull. Söfnin hafa með sér öfluga samvinnu, til
dæmis um samskrá íslenskra bókasafna, Gegnir.is, og um
landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum, hvar.
is (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 2005a).
Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar spruttu upp
skólasöfn við grunn- og framhaldsskóla landsins (Sigrún Klara
Hannesdóttir, 1997; Þórdís T. Þórarinsdóttir, 1997).
Kennsla í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands hófst
árið 1956 að tilhlutan þáverandi háskólabókavarðar, dr.
Björns Sigfússonar. Mikilvægt var fyrir framþróun starfsemi
bókasafna að starfsfólk þeirra ætti þess kost að nema
bókasafnsfræði hér á landi. Þegar kennslan hófst voru aðeins
fjórir starfandi bókasafnsfræðingar hérlendis en árið 1964
lauk fyrsti nemandinn BA-prófi í bókasafnsfræði frá Háskóla
Íslands (Friðrik G. Olgeirsson, 2004). Náminu óx þannig smám
saman fiskur um hrygg. Árið 1993 var farið að bjóða upp á
framhaldsnám í bókasafns- og upplýsingafræði, frá árinu
2004 hefur verið boðið upp á MLIS nám fyrir þá sem eru
með BA-próf í annarri háskólagrein og diplómanám hófst á
haustmisseri 2008 (Ágústa Pálsdóttir, 2009).
Í desember 2002 var stofnað nýtt starfsnám á sviði bóka -
safns- og upplýsingafræða, bókasafnstækni, í framhalds skólum
sem ætlað var ófaglærðum bókavörðum og framhalds-
skólanemum en áður hafði ófaglært starfsfólk bókasafna átt
þess kost að stunda bókavarðanám í Bréfaskólanum (Þórdís
T. Þórarinsdóttir, 2006). Bætti námsleiðin úr brýnni þörf á
menntunartækifæri fyrir ófaglærða bókaverði.
Bókavarðafélag Íslands (BVFÍ) var stofnað 4. desember 1960
um og yfir hálfri öld síðar en í flestum nágrannalandanna.
Félag bókasafnsfræðinga (Fb) var stofnað árið 1973. Félögin
tvö ásamt aðildarfélögum BVFÍ voru í nóvember 1999
sameinuð í Upplýsingu - Félagi bókasafns- og upplýsingafræða
sem tók formlega til starfa 1. janúar árið 2000. Stofnfélagar í
BVFÍ voru 37 bókaverðir og í Fb fjórir (Friðrik G. Olgeirsson,
2004). Árið 2004, þegar Upplýsing hafði starfað í fimm ár,
voru félagsmenn um 500 (Þórdís T. Þórarinsdóttir, 2005b) svo
þróunin hefur verið hröð. Athyglisvert er að félögin hér á landi
hafa byggt á einstaklingsaðild fólks starfandi á bókasöfnum
en erlendis hafa félögin verið samtök bókasafna sem hafa
verið fjárhagslegur bakhjarl félaganna í mun ríkari mæli en hér.
Nafngiftin endurspeglar þetta, í öðrum löndum heita félögin
yfirleitt samtök bókasafna (til dæmis library association,
biblioteksforening). Öll félögin hafa haft mikil áhrif á þróun
fagvitundar og eflt starfsemi bókasafnanna.
Dewey-kerfið kemur til Íslands
Jón Ólafsson ritstjóri, skáld og þingmaður svo eitthvað sé
nefnt, var ákaflega mikill áhugamaður um bókasafnsmál. Hann
kynntist bókasöfnum og starfsemi þeirra í Bandaríkjunum
innan við 20 árum eftir að Dewey-kerfið var fyrst gefið út
en önnur útgáfa kerfisins, sem kom út árið 1885, var fyrsta
útgáfan sem náði einhverri útbreiðslu að marki. Segja má
að Jón hafi þannig kynnst kerfinu í frumbernsku þess. Hafa
verður það í huga þegar þýðing hans er skoðuð. Á síðasta
áratug 19. aldar starfaði Jón á bókasöfnum í Chicago, safni
Field Columbium Museum og í Newberry Public Library, og
kynnist þar Dewey-kerfinu og notkun þess ásamt aðferðum
við skráningu bókakosts (Gils Guðmundsson, 1987; Guðrún
Karlsdóttir, 1997).
Þegar Jón Ólafsson kom aftur heim til Íslands kynnti hann
Dewey-kerfið fyrir Landsbókasafni í bréfi frá árinu 1900 og
sækir um starf við að flokka og skrá safnið. Á árunum 1900-
1913 flokkar Jón erlent efni safnsins samkvæmt Dewey-
kerfinu og skráir það einnig (Jón Jacobson, 1919-20; Gils
Guðmundsson, 1987).
Jón var mikill áhugamaður um bókasafnsmál og framgang
bókasafna og ritaði greinar um efnið í tímarit, svo sem greinina
„Hagnýting bókasafna“ í Ísafold árið 1899. Árið 1902 skrifaði
Jón grein um starfsemi bókasafna í Tímarit Hins íslenska
bókmenntafélags sem má telja ein fyrstu skrif um bókasafns-
og upplýsingafræði á íslensku. Þá grein kveðst Jón skrifa því
leitað hafði verið ráða hjá honum um leiðbeiningar um skipulag
bókasafna. Til að sem flestir hefðu gagn af leiðbeiningunum
birti hann greinina (Jón Ólafsson, 1902). Þar er að finna
leiðbeiningar um flokkun, skráningu og skipulagningu bóka-
safna og jafnframt fyrstu prentuðu þýðingu Dewey-kerfisins á
íslensku og er þannig um algert brautryðjandastarf að ræða.
Jón lýsir mjög ákveðnum hugmyndum um hvaða eiginleika
góður flokkari þarf að hafa til að bera: „góður flokkari þarf að
vera gagnmenntaður maður, ákaflega fjölhæfur og fjölfróður,
hafa góða yfirlitsgáfu, glögga dómgreind og frábært minni, og
ofan á þetta talsverða verklega æfingu.“ (Jón Ólafsson, 1902, bls.
95). – Og Jón heldur áfram. „Án æfingar getur sá, sem hefir alla
hæfileika aðra til þessa að bera, ekki gert sér minnstu hugmynd
um, hvert vandaverk þetta er, og hvern tíma það tekur.“ Segja
má að þetta sé enn í fullu gildi. Grein Jóns sýnir almennt góðan
skilning á starfsemi bókasafna og mikilvægi þeirra. Þýðing Jóns
tekur til aðalflokka kerfisins og allmargra undirflokka. Alls eru
marktölur hátt í 70 flokka nefndar.Strax í þýðingu sinni frá 1902
kom Jón Ólafsson (bls. 100) með aðlögun Dewey-kerfisins að
íslenskum þörfum og notar þar þann valkost kerfisins að nota
megi 810 flokkinn, sem annars er notaður fyrir bandarískar
bókmenntir, fyrir þjóðtungu þess lands sem notar kerfið.
Samanburður á notkun valkosta í bókmenntun í útfærslu Jóns
Ólafssonar og í íslensku Dewey útgáfunni frá 2002
Þýðing Jón Ólafssonar 1902 Íslenska útgáfan frá 2002
810 Íslenskar bókmenntir
810.1 Ljóð
810.2 Sjónleikar [Leikrit]
810.3 Skáldsögur
810.4 Ritsöfn höfunda
810 Íslenskar bókmenntir
811 Ljóð
812 Leikrit
813 Skáldsögur
814 Ritgerðir, greinar