Bókasafnið


Bókasafnið - 01.06.2010, Page 52

Bókasafnið - 01.06.2010, Page 52
52 bókasafnið 34. árg. 2010 Úlfhildur Dagsdóttir Líf og fjör í myndasögulandi Í myndasögunni I, Librarian eða Ég, bókavörður, eftir James Turner segir frá bókaverði (og samstarfsfólki hans) sem þarf á hverjum degi að berjast við ýmsar óvættir sem ásælast bókakost safnsins á óheiðarlegan hátt. Sumir reyna að stela bókum meðan aðrir skila seint og illa og bókavörðurinn ferðast um allan heiminn (og geiminn) til að leita uppi skuldseiga lánþega. Daglegt líf bókavarða á Borgarbókasafni Reykjavíkur er þó tæplega svona dramatískt, né felur það í sér mikið af geimferðum, en þó mætti færa rök fyrir því að starfsemin gangi að nokkru leyti út á bardaga við óvættir: í formi sjálfsafgreiðsluvéla. Þar taka bókaverðir og lánþegar höndum saman og takast á við nýja tækni sem á stundum reynist ansi snúin og virðist jafnvel fjandsamleg þegar verst lætur. Lausnin er hinsvegar einföld; vélin er nefnilega myndasaga. Það eina sem þarf að gera er að lesa sig í gegnum þá stuttu og hnitmiðuðu myndasögu sem afgreiðsluvélin kynnir fyrir hverjum lánþega, og skiptir þar miklu að samhæfa lestur á texta og myndum, alveg eins og við lestur á myndasögum. Já, innleiðing sjálfsafgreiðsluvélanna var nefnilega ekki aðeins spurning um nýja tækni í bókavörslu heldur felur hreinlega í sér myndasöguvæðingu alls safnsins. Myndasögudeild aðalsafns fagnar nú tíu ára afmæli sínu, en deildin var stofnuð árið 2000 þegar aðalsafn flutti í nýtt húsnæði að Tryggvagötu 15, Grófarhúsi. Fljótlega stofnuðu önnur söfn Borgarbókasafns myndasögudeildir, og almenningsbókasöfn víða um land einnig. Deildin í aðalsafni er þó enn sem komið er umfangsmest. Myndasögur, sem lengi hafa mátt búa við ýmiskonar fordóma, eru ekki endilega sjálfsagðar á bókasöfnum. Norðurlandabúar hafa þó verið framarlega í því að koma upp myndasögubókasöfnum, og á undanförnum áratugum hefur vegur myndasögunnar á bókasöfnum eflst víða um hinn vestræna heim. Í þessu felst aukin viðurkenning á sérstæðum tjáningarmáta formsins, sem byggir á samspili orða og mynda, en uppgangur myndasagna á bókasöfnum helst að nokkru leyti í hendur við aukna áherslu á að víkka út safnkostinn í stað þess að afmarka hann við hefðbundið lesmál í formi bóka. Þannig felur innleiðing myndasögunnar í sér aukið lýðræði framboðs á efni og víðsýni gagnvart því hvað telst vera við hæfi virðulegra menningarstofnana á borð við bókasöfn. Mótvægið við þessi háleitu markmið er svo einfaldlega lymskuleg tæling. Myndasögur laða að þá tegund lesenda sem hvað síst lætur sjá sig á bókasöfnum, nefnilega unga karlmenn. (Og þegar litið er til þeirrar staðreyndar að starfsfólk bókasafna er að mestu leyti miðaldra konur þá fer þetta að virka verulega vafasamt.) Allt gengur þetta vel, auk þess sem tilkoma vinsælda japanskra myndasagna (manga) laðar einnig að unglingsstúlkur og þannig leggja myndasögudeildir net sín víða. Uppgangur manga er sérlega gott dæmi um þá möguleika sem myndasagan býr yfir. Innan Japan eru myndasögur sjálfsagt lesefni sem höfðar til alls almennings á öllum aldri. Fjölbreytnin er endalaus bæði hvað varðar myndrænt útlit og viðfangsefni, en manga fjallar jafnt um einhverfu og ævi Búdda sem hasar, hrylling og ástir unglinga. Þetta á raunar við um myndasöguformið í heild, en eitt af því sem myndasögudeildir Borgarbókasafnsins hafa sýnt framá er að myndasagan er ekki eitthvað eitt eða einhæft (eða einfalt), innan myndasagna rúmast nákvæmlega jafnfjölbreytt flóra viðfangsefna og innan annarra frásagnarforma (bókmennta og kvikmynda). Þetta er undirstrikað með því að raða safnkostinum upp eftir efni, en í stað þess að hafa allar myndasögur í einfaldri stafrófsröð eru þær flokkaðar (og merktar) í efnisflokka sem gera lánþegum leitina að því efni sem höfðar mest til þeirra aðgengilegri. Bókasafnavæðing myndasögunnar hefur síðan, þegar á heildina er litið, gert myndasöguna aðgengilegri almennum lesendum. Lengi vel hefur myndasagan verið jaðarform, eitthvað sem höfðar til afmarkaðra hópa og þykir ómerkileg fyrir þær sakir. Innan þeirrar nördamenningar sem myndast hefur í kringum myndasögur er hún hinsvegar upphafin, jafnvel göfguð í hugum þeirra sem fylgt hafa eftir krókum og kimum raðsagna sem sumar hafa þrætt sig í gegnum rúmlega hálfa öld. Að mati sumra er myndasagan því sérheimur sem er ekki endilega æskilegt að „utanaðkomandi“ fái aðgang að. Slík viðhorf eru þó ekki endilega holl fyrir myndasöguna sem sjálfstætt listform sem þarf sárlega á aukinni viðurkenningu og útbreiðslu að halda. Bókasöfn leika lykilhlutverk í því að koma myndasögum á framfæri til nýrra lesenda og gera bæði eldri og nýrri lesendum kleift að kynna sér möguleika þessa fjölbreytta forms sem býður ekki aðeins uppá skemmtun, menntun og afþreyingu, heldur líka uppá leiðbeiningar um hvernig á að umgangast sjálfsafgreiðsluvélar.

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.