Húnavaka - 01.05.1971, Síða 91
PÁLL JÓNSSON, Höfðakaupstað:
Dýrasögur
HÖTTUR
Veturinn 1916 var óvenju frostharður og snjóþungur. Margur
bóndinn varð þá heylítill og átti í erfiðleikum með að forða skepn-
um sínum frá skorti. Þá var lítið um bjargræði með fóðurbæti
handa skepnunum. En loks kom vorið og þrautir vetrarins gleymd-
ust í vorblíðunni.
Það var snemma í júní, að Stjarna sást nýköstuð uppi á Stöll-
unum á Balaskarði. Hún sást þar heiman frá bænum í fallegri,
velgróinni laut. Folaldið var mikið ljósleitt. Ég var þá á sautjánda
ári og fylgdist vel með hrossum og kindum. Hryssurnar voru að
,,kasta“ og ærnar að „bera“. Hver ný dagur boðaði ný ævintýri,
sem bæði gátu vakið fögnuð og sorg, allt eftir þeim framtíðardraum-
um, sem hver ný fæðing boðaði. Ég var léttstígur upp á Stallana
að skoða folaldið. Hvers kyns var það og hvernig litt? Þetta var
Höttur, sem var fæddur. Brúnhöttóttur með stóran, svartan skjöld
í vinstri nára. En hvað folaldið var fallegt.
Hár var hann og grannur, mjög lappalangur, sívalur með „úlf-
aldakryppu“, og hann var strax staðinn upp og búinn að sjúga.
Stjarna, móðir hans, var rauðstjörnótt, glófext, góðgeng og viljug,
en hafði til að sýna börnum og lítt vönum unglingum þrjózku, ef
átti að fara með hana eina frá tömdu hrossunum.
Höttur gekk undir móður sinni í tvö ár. Hann varð því stór og
þroskamikill, gæflyndur, en hafði til að sýna þrjózku eins og móð-
irin. Þegar hann var þriggja vetra átti að selja hann „á rnarkað" til
útlanda. Það þótti okkur bræðrunum sárt, því að hesturinn var
mjög fallega vaxinn og leit út fyrir að verða gott hestsefni.
Það varð úr, að Pétur bróðir minn keypti hann af pabba fyrir
kr. 210,00, sem var hátt verð á þriggja vetra fola. Þegar Höttur var
4ra vetra vorið 1920 fluttumst við bræður, þrír, foreldrar okkar,